Menu
RSS

Ályktun um úrskurð Hæstaréttar varðandi lögbannskröfu á innheimtu gengislána

Aðildarhæfi HH og TN er tryggt með lögum að mati Hæstaréttar

Niðurstaða liggur fyrir vegna lögbannskröfu Hagsmunasamtaka heimilanna (HH) og talsmanns neytenda (TN) um stöðvun innheimtu á ólögmætum gengislánum. Samtökin telja að engar forsendur séu fyrir innheimtu þessara lána á meðan óvissa ríkir um innheimtanlegar eftirstöðvar þeirra.

Héraðsdómur hafnaði lögbannskröfunni á þeirri forsendu að TN og HH skorti aðild til að leita lögbanns til verndar heildarhagsmunum neytenda, og gætu því ekki komið fram fyrir hönd neytenda í heild. Þessu hafnar Hæstiréttur í dómi sínum og tekur af allan vafa um viðurkenningu á aðildarhæfi þessara tveggja aðila þ.e. aðildarhæfið er viðurkennt!

Getur bankinn ekki farið á hausinn?

Dómurinn grundvallast aftur á móti á því að Hæstiréttur telur enga hættu á því að bankar geti orðið ógjaldfærir (gjaldþrota). Að mati Hagsmunasamtaka heimilanna stenst þetta enga skoðun, enda geta bankar farið á hausinn og viðskiptavinir geta orðið fyrir tjóni eins og framlögð sönnunargögn í málinu sýndu með óyggjandi hætti að mati sóknaraðila.

Þrátt fyrir það var ekki fallist á að slíkt gæti gerst aftur, og taldi dómurinn yfirlýsingar bankans, hins brotlega aðila, næga tryggingu fyrir því. Samtökin telja að með þessu hafi sönnunarbyrði í reynd verið snúið við, í staðinn hefði dómurinn átt að krefja verjendur um að þeir sýndu fram á gjaldfærni Landsbankans vegna væntanlegra endurkrafna viðskiptavina, en það var þó ekki gert. Vafinn er til staðar og hann hefði átt að túlka í þágu neytenda, lögin eru skýr hvað það varðar.

Í ljósi þessa dóms virðist því miður sem Landsbankinn og aðrar fjármálastofnanir hafi frjálsar hendur um að brjóta á rétti lántaka. Hagsmunasamtök heimilanna harma þá niðurstöðu.

Lesa má dóminn í heild sinni hér

Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna

back to top

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna