Menu
RSS

Stéttabarátta 21. aldarinnar og framtíð Hagsmunasamtaka heimilanna

Hagsmunasamtök heimilanna (HH) hafa verið starfandi í rúm þrjú ár. Starf samtakanna hefur mestmegnis verið borið uppi af félagsmönnum í sjálfboðavinnu. Starfið hefur verið mjög krefjandi og gefandi. Gott er að geta orðið að liði í baráttu gegn svíðandi óréttlæti. Þó að stjórnvöld hafi ekki enn orðið við meginkröfum samtakanna um leiðréttingu lána og afnám verðtryggingar njóta þær fylgis 80% þjóðarinnar samkvæmt skoðanakönnunum. Þá hafa um 37.500 undirskriftir safnast kröfunum til stuðnings. Það er ekki hvað síst í viðhorfi almennings til málstaðs samtakanna sem við upplifum árangur. Betur má þó ef duga skal.

Þversögn verkalýðshreyfingarinnar
Á síðasta áratug var séreignarlífeyrir innleiddur, iðgjöld í lífeyrissjóði hækkuð og lögum um fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða breytt. Stærð sjóðanna fjórfaldaðist ásamt skuldum heimilanna. Ítrekað kom Alþýðusamband Íslands (ASÍ) þó fram og sagðist hafa varið kaupmátt, þrátt fyrir aukna atvinnuþátttöku frá liðnum áratug. ASÍ hefur verið gagnrýnt fyrir að vera ólýðræðislegt. Forseti ASÍ er ekki kjörinn í allsherjarkosningu heldur hafa fulltrúar, handgengnir forystunni, atkvæðisrétt. Þá hefur ASÍ lagst gegn því að stjórnir lífeyrissjóða verði kosnar beint af sjóðsfélögum. Eins hefur ASÍ viljað halda fulltrúum samtaka atvinnurekenda í stjórnum sjóðanna. Afstaða ASÍ er óskiljanleg. Þangað til við komum að þversögn verkalýðshreyfingarinnar. Herdís Dröfn Baldvinsdóttir hefur gert doktorsverkefni um tengsl og samgróna innviði íslenska fjármálageirans og verkalýðssamtaka. Í viðtali við Morgunblaðið 31. janúar 1999 sagði Herdís:

„Almenn niðurstaða mín er sú að fjármálaleg og raunverulega pólitísk völd hafi færst í ríkari mæli í hendur ASÍ og VSÍ og sameiginlega hafa þessi samtök verið ríkjandi í hagstjórn Íslands síðast liðinn áratug á meðan áhrif stjórnmálaflokkanna hafa minnkað að sama skapi. Aðalleiðtogar ASÍ hafa myndað náin fjárhagsleg tengsl við fulltrúa atvinnurekanda innan stjórna almenna lífeyrissjóðskerfisins og ýmissa einkafyrirtækja. Sú þversögn virðist hafa myndast að ASÍ sé orðið mun sterkara félag fyrir atvinnurekendur en fyrir félagsmenn sína. ... Til þess að fá sem mestan arð af fyrirtækjum sem lífeyrissjóðir hafa fjárfest í þá er algeng leið að halda kaupgjaldi niðri. Eignarhald hinna almennu lífeyrissjóða í fyrirtækjum gæti því leitt óbeint til þess að ASÍ sé tilleiðanlegra til þess að halda launum niðri til þess að sjóðir geti vaxið þeim mun meira. Þetta er hin eiginlega þversögn. Félögin eru stofnuð til þess að vinna að sem bestum hag félagsmanna en eiga vegna fjármálatengsla við atvinnurekendur erfitt um vik."

Barátta HH hefur snúist um kjarabaráttu sem verkalýðshreyfingin hefur ekki viljað taka þátt í, nema með örfáum undantekningum. Sjálfsagt hefðu samtökin aldrei orðið til ef forseti ASÍ hefði ekki lagst gegn frystingu vísitölunnar haustið 2008. Að hluta til má mögulega leita skýringa á afstöðu forseta ASÍ til hinnar hliðarinnar á þversögn verkalýðshreyfingarinnar; þeirrar stöðu sem við blasir þegar búið er að yfirfæra niðurstöðu Dr. Herdísar á lánakjör.

Hinar nýju stéttir
Ingólfur H. Ingólfsson, félagsfræðingur, skrifaði grein í apríl 2009 sem kallast „Hinar nýju stéttir - lánadrottnar og skuldunautar". Í greininni kemur Ingólfur inn á að um áttunda áratug tuttugustu aldar stórjókst aðgangur launamanna að lánsfé. Þannig hafi almenningur í fyrsta skipti í sögunni getað margfaldað neyslu sína umfram tekjur af launavinnu. Afleiðingin hafi verið mikill hagvöxtur, drifinn áfram af skuldsetningu en ekki kauphækkunum. Í greininni segir:

„Það tók innan við þrjátíu ár að breyta aldagamalli stéttarskiptingu þjóðfélagsins úr því að vera á milli launþega og atvinnurekenda í það að vera á milli lánadrottna og skuldunauta. Hver einasti vinnandi maður skuldar lánastofnun sinni að meðaltali tvöfaldar til þrefaldar árstekjur sínar. Vaxtakjör skipta orðið meira máli en launakjör. Samningstaða gangvart lánadrottni skiptir meira máli en við vinnuveitanda og það sem gerir stöðuna sérstaklega erfiða er að það eru engin stéttarsamtök skuldara til, aðeins stéttarsamtök launþega."

En hvað ef til væri stéttarfélag sem beitti sér fyrir bættum lána- og launakjörum?

Stéttabarátta 21. aldarinnar
HH eru í það minnsta vísir að „stéttarsamtökum skuldara" þó þau hafi ekki enn haft formlega aðkomu að kjaraviðræðum. En er ástæða til að huga að slíkri útvíkkun á starfi samtakanna? Sú hugmynd hefur kviknað að bjóða verkalýðsfélögum að ganga til liðs við HH og mynda saman ný heildarsamtök launafólks. Fjöldahreyfingu sem ekki myndi skilja lánakjör útundan í baráttunni fyrir bættum hag félagsmanna heldur samþætta lánakjarabaráttuna inn í starf verkalýðshreyfingarinnar. Á næstunni mun stjórn HH leggja könnun fyrir félagsmenn þar sem m.a. verður spurt út í afstöðu félagsmanna til framtíðar samtakanna. Um leið og við hvetjum félagsmenn til að taka þátt í könnuninni segjum við umræðuna um stéttabaráttu 21. aldarinnar hafna.

 

Andrea Jóhanna Ólafsdóttir, formaður HH
Friðrik Ó. Friðriksson, fyrrverandi formaður HH
Þórður Björn Sigurðsson, fyrrverandi formaður HH

back to top

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna