Menu
RSS

HH fundar með sjómannafélaginu vegna Hæstaréttarmáls 5.des

Vegna mikillar eftirvæntingar Hagsmunasamtaka heimilanna (HH) yfir því að nú sé loks að koma Hæstaréttardómur um ólöglega afturvirkni endurútreikninga á gengistryggðu láni sem Sjómannafélag Íslands er með gegn Arion banka hafa fulltrúar HH nú fundað með fulltrúum stjórnar Sjómannafélagsins.

Á fundinum var rætt um mál Sjómannafélagsins sem á að fara fyrir Hæstarétt þann 5. desember næstkomandi. Vildu fulltrúar HH leggja áherslu á það við stjórn Sjómannafélagsins að fara fram með ítrustu kröfu sína um endurgreiðslu miðað við samningsvexti, enda lánið uppgreitt. Þar fyrir utan má deila um hvort gengistryggðu lánin eigi yfir höfuð að bera vexti frá tökudegi fram að dómum Hæstaréttar eins og margir hafa bent á að undanförnu.

Ekki liggur fyrir neinn fordæmisgefandi dómur Hæstaréttar sem kveður á um að óverðtryggðir vextir Seðlabankans skulu reiknaðir á greidda gjalddaga láns,  þótt  bankarnir hafi kosið að túlka það svo sér í hag. Hæstaréttardómur gerir ráð fyrir því að reiknaðir séu óverðtryggðir vextir seðlabankans á lánið á ógreidda gjalddaga eða frá riftun samnings eins og stendur í dómnum.

Fullnaðargildi kvittana er lögvarinn réttur neytenda á efnda eða dauða kröfu, en eftirlitsstofnanir, þingmenn og ráðherrar bregðast ekki við til varnar lántakendum eins og staðan er í dag.

Fordæmisgildið sem þetta mál Sjómannafélags Íslands getur gefið er ákaflega mikilvægt fyrir íslensk heimili, sjómenn og fjölskyldur þeirra. Vilja Hagsmunasamtök heimilanna því hér með hvetja Sjómannafélag Íslands til að standa sína pligt og leggja ekki árar í bát heldur láta reyna á að samningsvextir standi og fyrir alla muni að leyfa Arion banka ekki að kaupa sig frá málinu með samningi sem myndi eingöngu gilda fyrir Sjómannafélagið og skilja þar með almenning eftir í óvissunni nokkra mánuði í viðbót.

 

back to top

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna