HH ræða þjóðaratkvæðagreiðslu við þingflokksformenn
- font size decrease font size increase font size
Hagsmunasamtök heimilanna boðuðu þingflokksformenn á fund með stjórn samtakanna til að ræða við þá um að setja kröfugerð samtakanna í þjóðaratkvæðagreiðslu. Vildu samtökin þannig kanna vilja þingmanna til að aðstoða við að setja málið á dagskrá og hvetja þingmenn til að sinna hlutverki sínu og sjá til þess að málefnið fái lýðræðislega afgreiðslu. Stjórn HH lýsir yfir ánægju með að allir flokkar sendu fulltrúa á fundinn sem haldinn var seinnipart fimmtudagsins 3. nóvember. Ásamt stjórn HH sátu eftirfarandi fulltrúar þingflokka og þingmaður utan flokka; Þór Saari, Lilja Mósesdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Björn Valur Gíslason, Guðlaugur Þór Þórðarson og Vigdís Hauksdóttir.
Rætt var um kröfugerð HH um almennar og réttlátar leiðréttingar á stökkbreyttum lánum heimilanna og afnám verðtryggingar. Jafnframt var rætt um þann mikla fjölda undirskrifta sem safnast hafa og áframhaldandi undirskriftasöfnun á heimasíðu samtakanna: heimilin.is. Farið var yfir þá möguleika sem fyrir hendi eru fyrir þingmenn til að setja málið á dagskrá þingsins. Annars vegar er um að ræða þá nálgun að leggja fram þingsályktunartillögu þar sem ríkisstjórn, ákveðnum ráðherra eða ákveðinni þingnefnd væri falið að útfæra og koma á þjóðaratkvæðagreiðslu. Hins vegar er fyrir hendi sá möguleiki að leggja fram útfært frumvarp til laga um þessa tilteknu þjóðaratkvæðagreiðslu. Báðum valkostum fylgir sá galli að eiga á hættu að daga uppi í nefnd eftir fyrstu umræðu nema samstaða sé á þingi um afgreiðslu málsins. Samtökin telja því mikilvægt að fá sem flesta þingmenn til að gerast meðflutningsmenn málsins. Til vara sjá samtökin þann möguleika að leita til forseta Íslands, því samkvæmt 25. grein stjórnarskrárinnar hefur forsetinn heimild til að láta leggja fyrir Alþingi frumvarp til laga.
Stjórn samtakanna fór þess á leit við þingmenn að þeir myndu færa þingflokkum sínum fregnir af fundinum og kanna undirtektir við að setja kröfugerðina í þjóðaratkvæðagreiðslu. Stjórn HH mun fylgja málinu eftir í næstu viku og kanna afstöðu flokkanna.