Menu
RSS

Lýðræðisleg vinnubrögð og lánapólitík

Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna þakkar fráfarandi stjórnarmönnum, þeim Elíasi Péturssyni, Gunnari Kr. Þórðarsyni og Matthildi Skúladóttur samstarfið það sem af er þessu starfsári. Jafnframt lýsir stjórn yfir vonbrigðum með að ekki hafi tekist að leysa þann málefnalega ágreining sem nú birtist í úrsögn stjórnarmanna. Ákvarðanir hafa ávallt verið teknar á lýðræðislegan hátt og þeim fylgt eftir sem slíkum.

Hagsmunasamtök heimilanna eru þverpólitískur vettvangur þar sem fólk með ólíkan bakgrunn kemur saman til að vinna að hagsmunum félagsmanna. Eina pólitíkin sem er á dagskrá samtakanna er lánapólitík, til hagsbóta fyrir neytendur, þar sem krafan um leiðréttingu lána og afnám verðtryggingar liggur til grundvallar.

Árangurinn af starfi samtakanna, þó ung séu, er umtalsverður. Viðhorfið í samfélaginu gagnvart lántakendum og lánamálum almennt hefur gjörbreyst. Framboð af óverðtryggðum lánum hefur aukist og samtökin hafa haft afgerandi áhrif á að gengisbinding lána var dæmd ólögmæt.

Í tíð sitjandi stjórnar hefur mörgum mikilvægum málum verið ýtt úr vör. Sem dæmi má nefna umkvörtun til ESA um afturvirka lagasetningu og afturvirka vaxtaútreikninga á gengistryggð lán, sem og kvörtun til umboðsmanns Alþingis varðandi lagaheimild reiknireglna Seðlabanans fyrir þeirri aðferðarfræði sem notuð er fyrir verðtryggð lán. Samtökin hafa að auki haft áhrif á endurorðað eignarréttarákvæði í drögum að nýrri stjórnarskrá. Send hefur verið beiðni um opinbera athugun á 110% leiðinni á efnahags- og viðskiptaráðuneytið. Þá er undirskriftarsöfnun fyrir leiðréttingum lána og afnámi verðtryggingar komin vel á veg, með yfir 28 þúsund undirskriftir. Félagsmönnum hefur fjölgað um 50% frá síðasta aðalfundi og eru nú um 6400 talsins.

Málstaðurinn og markmiðin eru skýr - í þágu heimilanna í landinu. Við látum verkin tala.

Sjá sitjandi stjórn hér

back to top

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna