Menu
RSS

HH telja svar Seðlabankans ófullnægjandi

Hagsmunasamtök heimilanna (HH) hafa komist að þeirri niðurstöðu eftir skoðun á svari Seðlabanka Íslands (SÍ) við fyrirspurn Umboðsmanns Alþingis vegna kvörtunar HH til hans, að svarið sé ekki fullnægjandi. Er það skoðun samtakanna að SÍ víki sér undan því að vísa til þeirrar lagaheimildar sem aðferðarfræði þeirrar framkvæmdar byggir á að veita nýtt lán um hver mánaðarmót í formi yfirfærslu verðbóta yfir á höfuðstól láns. Einnig undrast Hagsmunasamtökin þá sýn SÍ að ekki hafi þótt ástæða til að breyta aðferðarfræðinni, og eða óska skýringa löggjafans þegar bráðabirgða ákvæði laga sem heimiluðu viðbótarlán fyrir verðbótum féll úr gildi.

Viðbrögð við svari Seðlabanka Íslands 30.8.2011 við fyrirspurn Umboðsmanns Alþingis 14.7.2011 vegna máls númer 6460/2011

Seðlabanki Íslands hefur nú svarað fyrirspurn Umboðsmanns Alþingis um lagastoð fyrir 4.gr. reglna nr.492/2001 um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár. Spurningunni ætti reyndar ef allt væri eðlilegt að vera auðsvarað með vísun til lagagreina þar að lútandi. Í niðurlagi 13 blaðsíðna greinargerðar Seðlabankans um málið er vísað á eina slíka lagagrein, 2.mgr. 15.gr. laga nr.38/2001 um vexti og verðtryggingu. Seðlabankinn tekur reyndar í svari sínu undir þá skoðun samtakanna að 4.gr. reglna nr.492/2001 beri ekki saman við umrædda lagagrein, í lögunum sé einmitt talað um verðbættar greiðslur en í reglugerðinni um verðbættan höfuðstól. Þrátt fyrir það er fullyrt að reglan eigi sér lagastoð, þar sem báðar aðferðir gefi á endanum sömu niðurstöðu.

Samtökin hafna þessari túlkun, þegar lög kveða sérstaklega á um tiltekna aðferð hlýtur það að vera vilji löggjafans að sú aðferð sé notuð en ekki einhver önnur jafnvel þó útkoman sé sú sama. Orðalagið ber ekki með sér að átt sé við sambærilegar aðferðir heldur er ákveðin aðferð tilgreind sérstaklega í lögunum en ekki önnur. Rétt er að benda á að sú lagagrein sem vísað er til fjallar um lánstíma, vexti og annað sem snýr að verðtryggðum lánveitingum, en þar er hvorki fjallað um greiðslur né höfuðstól. Það er hinsvegar í 13.gr. sem fjallað er um verðbættar greiðslur og í þeirri grein er enga reglugerðarheimild að finna. Ekki dugar heldur að horfa til einstakra lagagreina heldur þarf að skoða þær í samhengi við hvora aðra og lögin í heild. Báðar umræddar greinar eru hluti af kafla VI. sem fjallar um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár. Í fyrstu grein kaflans er gildissvið þeirra greina sem honum tilheyra skilgreint þannig: "Ákvæði þessa kafla gilda um skuldbindingar... þar sem umsamið eða áskilið er að greiðslurnar skuli verðtryggðar." Samtökin leggja þann skilning í þetta að 15. greinin geti þar með einvörðungu átt við um samninga þar sem verðbæta skuli greiðslur. Samkvæmt þeirri túlkun fæst hvorki séð að reglugerðir, né samningar þar sem kveðið er á um verðtryggðan höfuðstól, eigi sér stoð í núgildandi lögum.

Til þess að rökstyðja túlkun sína að einu gildi hvort um sé að ræða höfuðstól eða greiðslu beitir Seðlabankinn fyrst og fremst tvíþættum rökum. Annars vegar er um að ræða reiknuð sýnidæmi sem samtökin telja að dragi upp verulega einfaldaða mynd af ímynduðum veruleika. Jafnframt vekur athygli að ekki eru tekin dæmi um jafngreiðslulán þrátt fyrir að vera langsamlegasta algengasta lánsform raunverulegra húsnæðislána. Það eina sem kemur fram um slíka útreikninga er að "nokkuð flókið" sé að sýna dæmi um þá. Ekki kemur fram fyrir hvern það er talið vera of flókið, lántakendur eða Seðlabankann, en hvort sem er þá getur svo hátt flækjustig varla verið góðs viti ef rétt reynist. Hinsvegar er svo lagst í allmerkilegar málfræðiæfingar sem virðast til þess ætlaðar að endurskilgreina hugtök þannig að komast megi að þeirri niðurstöðu að höfuðstóll og greiðsla séu samheiti, og rökstuðningurinn virðist þannig að stóru leyti hvíla á málfræðilegum skilgreiningum. En fjármunir sem skipta um hendur þegar greiðsla er innt af hendi geta varla verið ógreiddir á því sama augnabliki, höfuðstóll getur því varla talist samtímis vera greiðsla þó hann kunni síðar að verða greiddur. Svo dæmi sé tekið eru hugtökin "lirfa" og "fiðrildi" ekki samheiti þó að einn góðan veðurdag muni annað þeirra breytast í hitt. Samtökin hafna alfarið öllum útúrsnúningi og hvetja til þess að Seðlabankinn láti af frekari nýsköpun á sviði málvísinda en einbeiti sér framvegis að sínum lögboðnu viðfangsefnum.

Í fyrirspurn Umboðsmanns var einnig óskað eftir upplýsingum um framkvæmd þessara mála á liðnum árum. Svarbréfi Seðlabankans fylgir talsvert magn upplýsinga um sögulegan uppruna verðtryggingar, lagagrundvöll hennar í gegnum tíðina og dómafordæmi. Samtökin benda á að sögulegar upplýsingar um hvernig staðið hafi verið að málum í fortíðinni samkvæmt þágildandi lögum, sem hafa í millitíðinni fallið úr gildi eða verið breytt, fela ekki endilega í sér svar við því hvort og að hvaða leyti umrædd regla um framkvæmd verðtryggingar eigi sér lagastoð samkvæmt núgildandi lögum. Í svari Seðlabankans segir orðrétt að 2.mgr. 4.gr. reglna nr.492/2001 kveði á um aðferðarfræði við framkvæmd verðtryggingar sem tíðkast hefur allt frá gildistöku Ólafslaga nr.13/1979, og enn fremur að sú meginregla um framkvæmd almennrar verðtryggingar hafi haldist óslitin í gegnum tímanna rás, en hinsvegar kemur fram að bráðabirgðaákvæði þar að lútandi hafi fallið úr gildi árið 1986. Þeirri spurningu er því enn ósvarað hver sé sé lagastoð fyrir 4.gr. reglna nr.492/2001 í núgildandi lögum. Um það hefur eingöngu verið vísað til 2.mgr. 15.gr. laga nr.38/2001 sem samtökin líta svo á eins og áður sagði, að geti einvörðungu átt við þar sem umsamið eða áskilið er að greiðslurnar skuli verðtryggðar.

Samtökin hvetja Umboðsmann Alþingis til að afla frekari upplýsinga um þau atriði sem talið er ósvarað, og leggja traust sitt á að málið verði leitt til lykta á farsælan hátt fyrir heimilin í landinu.

back to top

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna