Menu
RSS

Mismuna bankar lántákendum í 110% leiðinni?

Hagsmunasamtök heimilanna hafa farið farm á við Árna Pál Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, að framkvæmd lánastofnana á 110% leiðinni verði rannsökuð.

Samtökunum hefur borist fjöldi ábendinga og tilmæla frá stórum hópi fólks sem bendir til þess að lántakendum hafi þvert á yfirlýst markmið stjórnvalda verið mismunað allt eftir því hjá hvaða lánveitanda niðurfæranleg veðlán voru tekin. Dæmi eru um gjörólíka málsmeðferð, hvað sambærilegar eignir varðar, jafnvel sams konar íbúðir í sama húsi, keyptar um svipað leyti og á nánast sama verði.

Að mati samtakanna getur almennt úrræði ekki þýtt annað en að umsækjendur standi jafnir að vígi gagnvart settum skilyrðum. Samtökin telja því með hliðsjón af jafnræðisreglunni, að samræma hefði þurft frá upphafi framkvæmd þessa úrræðis, til dæmis með því að miða verðmat fasteignar í öllum tilvikum við fasteignamat Þjóðskrár Íslands.

Það er því að mati samtakanna brýnt, að fram fari hlutlæg stjórnvaldsathugun á framkvæmd einstakra lánveitenda á áðurnefndu samkomulagi, svo úr því fáist skorið hvort og þá í hvaða mæli heimili hafi verið hlunnfarin. Jafnframt hljóta stjórnvöld að fylgja eftir svo veigamikilli aðgerð í þágu yfirskuldsettra heimila með vandaðri athugun, svo meta megi árangur hennar ásamt framkomnum ábendingum.

Samtökin hafa enn fremur óskað eftir afstöðu ráðherrans til 110% leiðinnar í ljósi ört vaxandi verðbólgu, nú þegar verðbólga hefur „étið” upp megnið af þeim leiðréttingum sem yfirskuldsettum heimilum hefur þó boðist. Hver sé þá þýðing leiðarinnar sem eina almenna skuldaúrræðið fyrir skuldsett heimili.

Í bréfi samtakanna til ráðherra, er einnig bent á verðtryggingarkerfið hindri að öllum líkindum stjórnvöld í að taka fjármála- og skuldakreppu þjóðarinnar réttum tökum. Eins og sýnt hefur verið fram á af virtustu hagfærðingar heims á þessu sviði, er nauðsynlegt að lækka skuldir heimila og fyrirtækja svo vinna megi bug á afleiðingum fjármálakreppunnar, þrátt fyrir þá verðbólgu sem af því hlýst. Á Íslandi myndu slíkar stjórnvaldsaðgerðir hins vegar stuðla að aukinni skuldsetningu, þökk sé verðtryggingunni.Sjá bréf Hagsmunasamtakanna til ráðherra

back to top

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna