Menu
RSS

Undirskriftasöfnunin uppfyllir skilyrði þjóðaratkvæðagreiðslu

Rúmlega 25.000 undirskriftir hafa nú safnast í undirskriftasöfnun heimilanna fyrir afnámi verðtryggingar og almennri leiðréttingu lána.

Þar með hefur söfnunin  náð þeim áfanga að uppfylla skilyrði þjóðaratkvæðagreiðslu, eins og þau eru skilgreind í frumvarpi Stjórnlagaráðs til nýrra stjórnlaga.

Alls tóku tæplega 1800 manns þátt í undirskriftasöfnuninni á menningarnótt. Þar af rituðu um 1500 nafn sitt á undirskriftalista og er unnið að því að færa þá þátttakendur í gagnagrunn  söfnunarinnar. Hópur listamanna stóð í samstarfi við Hagsmunasamtök heimilanna fyrir dagskrá til stuðnings söfnuninni sem fram fór á horni Skólavörðustígs og Laugavegar frá kl. 13 til 17.

Hluti af dagskránni var táknrænn haki, smíðaður af Ámunda Loftssyni, sem gestum menningarnætur bauðst að sitja á. 
Tíu af hundraði kjósenda geta skv. 65. og 66. greinum frumvarpsins krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um lög sem Alþingi hefur  samþykkt  eða lagt fyrir Alþingi frumvarp til laga. Það hlutfall jafngildir samkvæmt Þjóðaskrá rúmlega 23.000 manns, ef tekið er mið af heildarfjölda atkvæðabærra manna á síðasta ári. Gera má ráð fyrir að kjósendum fjölgi um nokkur prósentustig með hverju ári sem líður á milli almennra kosninga.

Gagnagrunnur söfnunarinnar tekur einungis nafn og kennitölu gilt og skráir auk þess  IP tölur þátttakenda. Þessi háttur er hafður á til að torvelda misnotkun, auk þess sem rekja má skráningar vakni upp grunur um misbeitingu.

Mynd:  Ámundi Loftsson, smiður hakans og Andrea J. Ólafsdóttir,  formaður Hagsmunasamtaka heimilanna, við hakann sem gestum menningarnætur bauðst að sitja á. Þetta er þó ekki sá fyrsti sinnar tegundar, en Gylfi Eldjárn Sigurlinnason gerði viðlíka haka fyrir þó nokkrum árum skv. ábendingu sem samtökunum hefur borist frá Þórunni Ólafsdóttur, ekkju Gylfa.


back to top

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna