Menu
RSS

Hagsmunasamtök heimilanna á sama máli og virtustu hagfræðingar heims

Málflutningur Hagsmunasamtakanna í lánamálum heimilanna reynist eiga skýran samhljóm með skoðunum Kenneth Rogoff og Carmen Reinhart, sem eru á meðal virtustu hagfræðinga heims.

Rogoff, sem er prófessor við Harvard háskólann, telur afskriftir skulda einu raunhæfu leiðina til að auka hagvöxt í Bandaríkjunum. Leiðin sem hann mælir með, er að leiða fram verðbólgu með aukinni peningaprentun í því skyni að færa eignir frá lánadrottnum til skuldara. 

Að mati fréttaskýrenda bendir fátt til annars, en að þessi leið verði farin í Evrópu og Bandaríkjunum svo stemma megi stigu við skuldakreppunni og forða Vesturlöndum frá annarri og enn verri fjármálakreppu. Hætta er á að sú verðbólga sem hér um ræðir smitist til Íslands með ófyrirséðum afleiðingum fyrir heimili, atvinnulíf og ríkissjóð.

Vegna afleitrar framkvæmdar á verðtryggingu fjárskuldbindinga hér á landi er ofangreind leið því aðeins fær, að verðtryggð lán verði færð yfir í „óverðtryggða“ lánakerfið og húsnæðislán heimilanna færð samhliða flatt niður um þær hækkanir sem stökkbreytingar hruns og óðaverðbólgu eru völd að.

Breytilegum vöxtum ber að standa undir staðgreiðslu vaxta og verðbóta, eins og kveðið er að mati samtakanna á um í lögum nr. 36 um vexti og verðtryggingu. Þannig eru lán verðtryggð í öðrum löndum, en ekki margverðtryggð og vaxtavaxtareiknuð eins og viðgengst hérlendis.

Carmen Reinhart, prófessor við háskólann í Maryland, sendi á dögunum erindi til fjölmiðla þar sem hún einnig segir leiðréttingu á skuldum heimila einu raunhæfu leiðina til að auka hagvöxt í skuldugum hagkerfum.  Nouriel Roubini, hagfræðiprófessor við New York háskóla tekur í sama streng og segir afskriftir skulda 50% heimila í Bandaríkjunum forsendu fyrir áframhaldandi hagvexti og efnahagsbata.

Hagsmunasamtök heimilanna líta svo á að virtustu hagfræðingar heims með sérfræðiþekkingu á fjármála- og skuldakreppum séu í meginatriðum samsinna kröfum samtakanna, enda hafa samtökin ávallt talið kröfurnar efnahagslega nauðsyn rétt eins og réttlætismál.

Samtökin hvetja stjórnvöld eindregið til að kynna sér málflutning og rannsóknir umræddra hagfræðinga í ljósi þeirra aðstæðna sem nú eru uppi í efnahagsmálum á Íslandi.

Reinhart og Rogoff hafa um árabil unnið saman að rannsóknum á fjármála- og skuldkreppum og nær samstarf þeirra langt aftur fyrir fjármálakreppuna sem skall á árið 2008. Árið 2003 vakti bók þeirra This time it is diffrent" heimsathygli.

Sjá umfjöllun The New York Times um samstarf Reinarhart og Rogoff

back to top

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna