Menu
RSS

Við krefjumst leiðréttingar lána og afnáms verðtryggingar

undirskriftasofnun heimilannaHagsmunasamtök heimilanna hafa hrundið af stað undirskriftasöfnun fyrir almennri leiðréttingu stökkbreyttra lána og afnámi verðtryggingarinnar.

Kröfugerð undirskriftasöfnunarinnar er:
„Í nafni almannahagsmuna krefjumst við undirrituð almennra og réttlátra leiðréttinga á stökkbreyttum lánum heimilanna og afnáms verðtryggingar.

Hafi stjórnvöld ekki orðið við þessari kröfu fyrir 1. janúar 2012 jafngildir undirskrift mín kröfu um þjóðaratkvæðagreiðslu um kröfugerðina.“

Undirskriftasöfnunin fer fram hér á heimilin.is og á undirskrift.heimilin.is og jafngildir þátttaka kröfu um þjóðaratkvæðagreiðslu, verði stjórnvöld ekki við kröfugerð samtakanna.

Smelltu hér og taktu þátt í undirskriftarsöfnuninni

Vegna kröfunnar um þjóðaratkvæðagreiðslu, telja samtökin nauðsynlegt að þeir sem taka þátt í undirskriftarsöfnuninni gefi upp bæði nafn og kennitölu, með lagalegum fyrirvörum um persónuvernd. Þetta er gert með það fyrir augum að auka vægi aðgerðarinnar og torvelda misnotkun. Jafnframt verður viðkomandi gefinn kostur á að velja hvort nafn birtist á stuðningslista undirskriftarsíðunnar.

Undirskriftasöfnunin er víðtækasta aðgerð Hagsmunasamtaka heimilanna fram að þessu. Undirskriftir verða afhentar stjórnvöldum 1. október þegar Alþingi kemur saman á ný.

Krafan um þjóðaratkvæðagreiðslu er eðlileg í ljósi þeirra víðtæku og almennu hagsmuna sem eru í húfi. Niðurstaða könnunar sem samtökin létu framkvæma bendir til þess að um 75-80% þjóðarinnar sé hlynnt hugmyndum um almenna leiðréttingu lána og afnám verðtryggingar.  Því er brýnt að þjóðin fái að segja sitt álit umbúðalaust séu stjórnvöld í vafa eða ófús til verksins.

Sýnt hefur verið ítrekað fram á að verði ekki ráðist í almennar leiðréttingar á stökkbreyttum lánum heimilanna og verðtryggingin afnumin, stefnir íslenska þjóðarbúið hægt en örugglega í langvinnt og sáraukafullt samdráttarskeið.

Standa má að almennum lánaleiðréttingum og afnámi verðtryggingarinnar með ýmsu móti. Hver endanleg ákvörðun verður kemur í hlut ríkisstjórnar og Alþingis að meta með hliðsjón af pólitískum vilja og áherslum hvers og eins. Hagsmunasamtökum heimilanna er ljóst að margar leiðir eru færar og því snýst málið um pólitíska ákvörðun, kjark og þor til framkvæmda.

Þessu til áréttingar er fjallað um fjórar mismunandi leiðir á undirskift.heimilin.is, vefsíðu undirskriftarsöfnunarinnar eða eignamánsmleið, leiðréttingarskattur, skiptigengisleið og vísitöluleið.  

Samtökin vilja undirstrika tvennt:
•    Ríkisstjórnarflokkarnir hafi greiða aðkomu að málinu, óháð því hvort almennar lánaleiðréttingar eigi í hlut eða afnám verðtryggingarinnar. Skorist stjórnvöld undan því, er það vegna þess að pólitíska viljann skorti, en ekki vegna þess að stjórnvöld eigi ekki aðkomu að málinu eða það sé ekki framkvæmanlegt, eins og látið hefur verið skína í undanfarin misseri af hálfu ríkisstjórnarinnar.
•    Hagsmunasamtök heimilanna starfa á þverpólitískum grunni og munu þar af leiðandi ekki taka afstöðu til þess hvaða leið verði farin, svo framarlega að ráðist verði í almennar lánaleiðréttingar á stökkbreytingu lána umfram það sem eðlilegt getur talist miðað við verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands og á sama tíma afnám verðtryggingarinnar.


Taka þátt í undirskriftarsöfnuninni

Ítarefni:

Sjá fréttatilkynningu sem dreift var til fjölmiðla

 

back to top

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna