Menu
RSS

Arion banki tekur af skarið

Arion banki hefur nú tekið afgerandi forystu meðal íslenskra banka í að leysa þann skuldavanda sem hefur hrjáð heimili þessa lands. Frjálsi fjárfestingabankinn og slitastjórn SPRON höfðu áður boðið viðskiptavinum sambærilegar tímabundnar lausnir vegna réttaróvissu gengistryggðra lána. Arion banki hefur greinilega unnið heimavinnuna sína en þeir funduðu síðast með fulltrúum Hagsmunasamtaka heimilanna þriðjudaginn 6. júlí. Þeir voru óvenju léttir á sér á þeim fundi og hlustuðu vel en gáfu ekkert uppi um fyrirætlanir sínar. Þeir komu okkur því skemmtilega á óvart með þessu útspili.

Arion banki hafði af sjálfsdáðum áður tekið einhliða ákvörðun um að láta viðskiptavini njóta vafans og sett allar aðfarir vegna gengistryggðra lána í bið út árið 2010 í þeirri von að réttarstaða gengistryggðra lánasamninga myndi skýrast á árinu. Nú er að koma í ljós hversu skynsamleg sú stefna þeirra var.

Hagsmunasamtök heimilanna styðja heilshugar við þessa ákvörðun stjórnar bankans og vona að viðskiptavinir hans finni nú í meira mæli farsælli farveg fyrir sín fjármál en hingað til hefur boðist. Nú bíðum við spennt eftir að sjá útfærslu bankans og hvernig hann tekur á þeim sem komnir voru í vanskil og annað slíkt. HH telur að mjög geti greiðst úr málum og ófá heimili andað léttar. Viðskiptavinir bankans eru hvattir til að vera í sambandi við fulltrúa bankans og gefa þeim færi á að greiða úr lánamálum sem hugsanlega voru komin í hnút.

Hagsmunasamtök heimilanna reikna með að aðrar fjármálastofnanir muni koma í kjölfarið og tilkynna sambærilegar lausnir. Það er ástæða til að fagna því heimilin fá nú að njóta vafans. Nú þurfum við að vinna að fullum krafti að lausnum á stökkbreyttum verðtryggðum lánum heimilanna. HH hvetur Alþingi, stofnanir og fjármálafyrirtæki að taka kúrsinn beint á víðtæka samvinnu við samtök neytenda og talsmann neytenda um þjóðarsátt um verðtrygginguna. Hún er einfaldlega ekki að virka fyrir okkur sem samfélag. Lagfærum lánakerfið og tökum svo höndum saman um að byggja upp heilbrigt samfélag.

 

 

back to top

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna