Menu
RSS

Fróðleg útspil viðskiptaráðherra

Í fjölmiðlum fer nú fram skemmtilegt sjónarspil. Segja má að erfitt reynist að hreinsa kusk af hvítflibba fjármálafyrirtækjanna. Fúskið hefur verið afhjúpað enn og aftur og í þetta sinn fyrir Hæstarétti sem úrskurðaði gengistryggingu endanlega ólöglega í kjölfarið. Eina mínútuna koma yfirlýsingar frá viðskiptaráðherra um að dóm hæstaréttar beri að virða og það næsta sem maður veit er að setja eigi svonefnda "íslenska" vexti á gengistryggð og nú leiðrétt lán, til að koma í veg fyrir að þessir tilteknu lántakar "græði" á kostnað annarra.

Umhyggja viðskiptaráðherra fyrir fjármálafyrirtækjunum er aðdáunarverð. Þegar til stóð að bankar og önnur lánafyrirtæki græddu á kostnað neytenda fór lítið fyrir umhyggju ráðherrans enda var séð svo um að hann væri ekki ráðherra neytendamála líka. Í þá daga voru skilaboðin frá Gylfa í hnotskurn, "greiðið eða hafið verra af", "réttarkerfið mun finna ykkur í fjöru aumingjarnir ykkar sem getið ekki borgað". "Þið getið sjálfum ykkur um kennt". "Þið máttuð vita að bankarnir höfðu í hendi sér að ráðskast með gengi krónunnar og verðbólguna sér til gróða". Þetta kann að hljóma sem gróf afbökun en þegar viðtöl við ráðherrann eru skoðuð þarf ekki kunnáttu í klofningu atóms til að lesa skilaboðin. Lítið á eftirfarandi viðtal:

http://larahanna.blog.is/blog/larahanna/video/7892/

Nei það var ekkert elsku mamma þá en nú... hlaupa fyrirtækin undir pilsfald ráðherrans hvert á eftir öðru. Fjarstæðukennt segir hann um það að virða vaxtaákvæði samningana. Afstæðiskenningar þessa tiltekna ráðherra kalla eftir aðhaldi samráðherra, forsætisráðherra og Alþingis. Það eina sem kann að vera fjarstæðukennt í þessu máli er að þjóðin hafi þennan "fagmann" í vinnu.

back to top

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna