Logo
Print this page

Hæstiréttur 2. júní 2010

Tvö mál er varða gengistryggingu neytendalána voru flutt fyrir Hæstarétti miðvikudagsmorgun 2. júní 2010. Ólafur Rúnar Ólafsson varðist fyrir Jóhann Rafn Hreiðarsson og Trausta Snæ Friðriksson, sókn Sigurmars K. Albertssonar fyrir Lýsingu hf. Sigurmar K. Albertsson varði einnig SP-fjármögnun gegn áfrýjun Björns Þorra Viktorssonar fyrir Óskar Sindra Atlason. Málin voru flutt sem einn viðburður saman fyrir fimm dómurum hæstaréttar, en vegna líkinda með málunum skiptu lögmennirnir með sér verkum. Lögmennirnir reyndu að forðast að endurtaka efnistök hvors annars og náðu þannig væntanlega fram umtalsverðum tímasparnaði bæði fyrir sig sjálfa og Hæstarétt.

Málin fjölluðu í reynd um hvort lán þau er tekin voru hjá bílalánafyrirtækjunum væru svonefnd erlend lán eða gengistryggð lán og þá hvort þau féllu undir lög um vexti og verðtryggingu frá 2001 (38/2001). Varnir voru einnig byggðar á forsendubresti lánanna. Að því við best vitum má vænta þess að dómur verði kveðinn upp fyrir 20. júní n.k.

Reifun málafærslumannanna fór um víðan völl en þó verður sagt að þeir hafi haldið sig innan áhrifasviðs umfjöllunarefnisins.  Athygli vakti að Sigurmar ræddi um nýja lagasetningu til varnar gengistryggðu lánunum, ef Hæstiréttur kæmist að þeirri niðurstöðu að lánin væru ólögleg. Sigurmar virtist vondaufur um að dómur Hæstaréttar félli sínum umbjóðendum í hag, ef marka má tóninn í erindum hans. Ólafur og Björn Þorri fluttu hinsvegar sín erindi af miklu öryggi. Hvort þetta hafi einhver áhrif á niðurstöðuna er ekki hægt að fullyrða neitt um.

Afstaða Hagsmunasamtaka heimilanna er skýr. Við höfum talið verðbreytingarákvæði þessara lána ólögleg eftir að okkur var bent á ákvæði 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001.  Það sem er mikilvægara í okkar huga er sá forsendubrestur sem ætti að hafa leitt til leiðréttingar lánanna.  Nýlegar niðurstöður úr héraðsdómi gefa vísbendingu um að dómstólar landsins fækki valmöguleikum fjármálastofnana verulega og skeri ríkisstjórnina úr snörunni hvað varðar gengistryggð lán heimilanna.

Stjórn HH er ekki í neinum vafa um að forsvarsmenn fjármálakerfisins munu reyna að gráta út lagasetningu, falli þessi mál þeim í óhag. Þeir virðast nú þegar hafa undirbúið jarðveginn enda hafa hugmyndir fjármálafyrirtækja hingað til átta full greiða leið í gegn um lagasetningu á Alþingi. En í því sambandi vísum við á 8. bindi skýrslu RNA ber heitið "Siðferði og starfshættir í tengslum við fall íslensku bankanna 2008" kafli II. 3, "Samskipti stjórnmála og efnahagslífs".

Ljóst er að vegna vanda heimila með gengistryggð lán hefur verðtryggingin fengið minni umfjöllun og gagnrýni en hún á skilið. Hagsmunasamtök heimilanna hafa frá upphafi bent á óréttlætið sem í þeim felst í ljósi þess forsendubrest sem við blasir. Þúsundir heimila eru í hættu að leysast upp vegna þeirrar gegndarlausu skuldasöfnunar sem verðtrygging leggur á þau. Því verður að linna ef það á að vera búandi í þessu landi fyrir þorra þegnanna.

Latest from Ólafur Garðarsson

Hagsmunasamtök heimilanna / Ármúla 5 / 108 Reykjavík / ICELAND / (+354)-546-1501 / www.heimilin.is / heimilin@heimilin.is