Menu
RSS

Ályktun frá Ámunda á útifundi 30. jan. 2010

Eftirfarandi ályktun var borin upp á útifundi á Austurvelli 30. jan. 2010 af Ámunda Loftssyni og samþykkt af fundarmönnum með lófataki.

"Með réttlætingu í fjármálalegu neyðarástandi á Íslandi hafa ríkisstjórnir landsins hafið til vegs nýja yfirstétt. Með lagavaldi, erlendum lántökum og hertri skattheimtu er innistæðueigendum og fjárfestum hlíft við öllum afleiðingum þess að þeir með vaxtagræðgi sinni og óraunhæfum arðskröfum komu bankastarfsemi landsins í þrot haustið 2008.

Á sama tíma  hafa verðtryggðir okurvextir, sem ekki eiga neina hliðstæðu annars staðar í heiminum, leitt af sér tvö- til þreföldun skulda  með velþóknun og afskiptalausu samsinni stjórnvalda.

Á Íslandi er réttarstaða skuldara gagnvart lánadrottnum sú lakasta í allri norðurálfu.

Þúsundir landsmanna hafa með þessum hætti verið ofurseldar óvægnum fjármálastofnunum fyrir lífstíð, samtímis því sem hagur hinna efnameiri vænkast dag frá degi.

Almennur útifundurinn á Austurvelli haldinn 30. Janúar 2010 krefst tafarlausrar og afgerandi stefnubreytingar stjórnvalda í málefnum skuldara.

Fundurinn krefst þess að stökkbreyttur höfuðstóll lána verði leiðréttur.

Fundurinn krefst einnig tafarlausrar og afgerandi lækkunar vaxta.

Að bannað verði að tengja vexti við vísitölur eða gengi erlendra gjaldmiðla.

Að þegar í stað verði sett lög er bæti réttarstöðu skuldara til jafns við það sem annarsstaðar þekkist.

Að þegar verði upprætt spilling í íslensku stjórnkerfi og fjármálastofnunum, sem m.a. forseti landsins ræddi í síðasta nýársávarpi sínu til þjóðarinnar.

Fundurinn hafnar frekari erlendum lántökum eða skattaálögum í þeim tilgangi að verja hag hinna efnameiri og skuldlausu og viðhalda hinu vaxandi misrétti og efnamun sem við blasir og vinstri menn og jafnaðarmenn í ríkisstjórn Íslands hafa gert að málstað sínum.

Fundurinn heitir á samtök vinstri manna og jafnaðarmanna hvar sem þau finnast, að beita áhrifum sínum gagnvart systurflokkum þeirra á Íslandi sem með framgöngu sinni gagnvart skuldurum og blindri hagsmunavörslu fyrir fjármagnseigendur, fótumtreður allar hugsjónir félagshyggju og jafnaðarmanna. Ennfremur að þau leitist við að hafa áhrif á afstöðu ríkisstjórna landa sinna og tryggja að Íslensku ríkisstjórninni verði ekki veitt frekari lánafyrirgreiðsla fyrr en hlutur hinna skuldsettu  á Íslandi hefur verið leiðréttur.

Fundurinn skorar á alla sem láta sig velferð íslensks almennings og samfélags varða að taka undir þessa ályktun."

 

 

back to top

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna