Menu
RSS

Opnun neytendatorgs

Opnun neytendatorgs

Samtökin hafa nú opnað nýja vefsíðu - Neytendatorg Hagsmunasamtaka heimilanna. Stjórn samtakanna bindur vonir við að hún verði bæði félagsmönnum og íslenskum heimilum gagnleg upplýsingaveita um stöðu neytendamála á Íslandi og réttindi neytenda á fjármálamarkaði.

Á neytendatorgi er boðið upp á ráðgjöf fyrir heimilin um viðskipti sín á fjármálamarkaði í efnisflokknum: Ráðgjöf HH.

Sá efnisflokkur mun smám saman verða viðameiri en starfsfólk samtakanna mun efla ráðgjöfina á neytendatorgi og miðla þannig þekkingu af vettvangi HH með gagnlegum hætti til samfélagsins. Gamla vefsíðan (www.heimilin.is) verður áfram öllum opin, samhliða því að unnið verður að áframhaldandi þróun og uppbyggingu neytendatorgs. Síðast en ekki síst er Neytendatorg Hagsmunasamtaka heimilanna jafnframt vefsíða samtakanna og á henni verða upplýsingar um starfsemina og helstu baráttumál. Stefnt er að því að kynna verkefni samtakanna, jafn óðum eins og kostur er, en við minnum á að samtökin eru rekin af sjálfboðaliðum og tveimur starfsmönnum í hlutastarfi og tekur starfið allt mið af þessu. Vefsíðan er því þróunarverkefni á sviði neytendaverndar og framlag til umræðu um neytendamál á Íslandi sem við vonumst til að muni vaxa og dafna jafnt og þétt.

Tímamót í starfi samtakanna

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009, skömmu eftir gjaldþrot þriggja viðskiptabanka. Árið 2019 er því tíunda starfsár Hagsmunasamtaka heimilanna og var haldið upp á þau tímamót 7. október síðastliðinn, ásamt því að opna nýja vefsíðu samtakanna. Fyrrverandi stjórnarmönnum og öðrum velunnurum samtakanna var boðið. Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra, Ragnar Þór Ingólfson fyrrverandi stjórnarmaður í HH og formaður VR, Ásthildur Lóa Þórsdóttir formaður HH og Styrmir Gunnarsson fyrrverandi ritstjóri héldu ræður. Þessar ræður voru kröftugar og hvetjandi fyrir samtökin, því eins og formaður VR fjallaði um í sinni ræðu er neytendavernd á Íslandi eftirbátur hinna Norðurlandanna. Á Norðurlöndum eru bæði stéttarfélög og frjáls félagasamtök á neytendasviði öflugir málsvarar heimilanna. Endurnýjun hefur orðið í forystu íslenskra stéttarfélaga, en neytendarvernd á Íslandi hefur ekki enn slitið barnsskónum. Við vonum að neytendatorg verði mikilvægur hlekkur í umræðu um neytendavernd á Íslandi og framfararskref í þessum málaflokki.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, sýndi samtökunum þann heiður að opna Neytendatorg. Við það tilefni hvatti hann fulltrúa samtakanna að halda áfram að veita stjórnvöldum aðhald, það skipti máli.

Starf samtakanna er fjarri því að vera bundið við hrunið og afleiðingar þess. Samtökin spruttu fram á sjónarsviðið í tómarúmi, þar sem alger skortur var á neytendavernd. Þörf á aðhaldi og réttindabaráttu á fjármálamarkaði er ekki síður mikilvæg núna en fyrir tíu árum síðan.

Með kveðju,

Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna

Smellið hér til að heimsækja: NEYTENDATORG

Athugið að héðan í frá verður allt nýtt efni frá samtökunum birt á hinni nýju vefsíðu Neytendatorgs. Gamla vefsíðan verður varðveitt áfram og aðgengileg í gegnum tengil á Neytendatorgi svo hægt verði að nálgast eldra efni. Til lengra tíma er svo stefnt að því að eldra efni færist smám saman yfir í gagnasafn á nýju síðunni.

back to top

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna