Menu
RSS

Alþingi fékk rangar upplýsingar um nauðungarsölur

Alþingi fékk rangar upplýsingar um nauðungarsölur

Svar dómsmálaráðherra við fyrirspurn Ólafs Ísleifssonar þingmanns, um nauðungarsölur, fjárnám og gjaldþrot hjá einstaklingum árið 2018, var birt á vef Alþingis 31. maí síðastliðinn.

Í svarinu sem unnið er af Þjóðskrá, eru birtar tölur yfir árin 2008 - 2018 sem eru því miður rangar hvað varðar nauðungarsölur og koma alls ekki heim og saman við upplýsingar sem aflað var beint frá embættum sýslumanna samkvæmt svari við sambærilegri fyrirspurn 15. ágúst 2018.

Því hefur nú verið slegið upp í fjölmiðlum að nauðungarsölur hjá einstaklingum hafi einungis verið 69 árið 2018 samkvæmt þessum nýju tölum, sem er algjörlega fráleitt. Einföld talning á vef sýslumanna leiðir í ljós að 446 framhaldsuppboð voru auglýst árið 2018. Það er því ljóst að eitthvað hefur farið verulega úrskeiðis við úrvinnslu Þjóðskrár.

Samanburður á þessum tveimur svörum dómsmálaráðherra sýnir að í tölum þessara ára eru yfir 6.500 nauðungarsölur vantaldar í gögnum Þjóðskrár. Svo dæmi sé tekið voru nauðungarsölur flestar árið 2010 eða 1.574 talsins samkvæmt upplýsingum frá sýslumannsembættunum sjálfum, en samkvæmt tölum Þjóðskrár eru þær sagðar hafa verið einungis 13 það ár.

Aðrar tölur í umræddu svari samræmast þó fyrri upplýsingum. Samkvæmt þeim hefur lítið dregið úr fjárnámum hjá einstaklingum sem voru yfir tólf þúsund árið 2018 og þar af hátt í tíu þúsund árangurslaus. Á tímabilinu 2008-2018 voru því samtals gerð um 164.000 fjárnám og þar af um 127.000 árangurlaus. Jafnframt er ekkert lát á gjaldþrotum einstaklinga sem voru 312 árið 2018 og fjölgaði um 22 frá fyrra ári, en samtals hafa 3.284 einstaklingar orðið gjaldþrota á tímabilinu.

Þessar tölur ættu að fá alla til að staldra við. Það er ekkert eðlilegt við tölur af þessari stærðargráðu í 350.000 manna samfélagi. Hér hefur eitthvað farið stórkostlega úrskeiðis!

Hagsmunasamtök heimilanna harma þau mistök sem hljóta af hafa orðið við samantekt Þjóðskrár varðandi nauðungarsölur og hafa farið fram á leiðréttingu frá stofnuninni auk þess sem þau beina því til dómsmálaráðherra að sjá til þess að Alþingi fái réttar upplýsingar sem fyrst.


 

 

Samanburður á tölum frá sýslumannsembættum og Þjóðskrá um nauðungarsölur hjá einstaklingum 2008-2018:

 

Ártal

Sýslumenn

Þjóðskrá

Mismunur

2008

549

9

540

2009

778

9

769

2010

1.574

13

1.561

2011

1.306

11

1.295

2012

1.273

9

1.264

2013

1.349

1.008

341

2014

568

449

119

2015

675

590

85

2016

547

438

109

2017

227

168

59

2018

446

69

377

Samtals *

9.292

2.773

6.519

* Auk þess hafa a.m.k. 349 fasteignir verið seldar vegna greiðsluaðlögunar.

 

back to top

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna