Upplýsingaskyldan margbrotin - Enn og aftur brjóta lánveitendur gegn lögum um neytendalán!
- font size decrease font size increase font size

Neytendastofa tekur undir kvörtun Hagsmunasamtaka heimilanna yfir brotum Brúar lífeyrissjóðs gegn lögum um neytendalán!
Síðla árs 2016 sendu Hagsmunasamtök heimilanna kvörtun til Neytendastofu um að misbrestur væri á því að árleg hlutfallstala kostnaðar væri birt neytendum hjá Brú Lífeyrissjóði, sem jafngildir því að dylja raunverulegan kostnað lána fyrir þeim. Brú Lífeyrissjóður er fjarri því að vera einsdæmi, hvað þennan misbrest varðar sem er fátt annað en hunsun fjármálafyrirtækja á lögum um neytendalán og upplýsingaskyldu lánveitenda. Það er gríðarlegt hagsmunamál fyrir neytendur að allar forsendur láns séu uppi á borðum til að dulinn kostnaður komi ekki í bakið á þeim eftir að skrifað hefur verið undir.
Það er skemmst frá því að segja að Neytendastofa féllst á kvörtun Hagsmunasamtaka heimilanna í öllum atriðum og staðfesti að lögum samkvæmt eiga lánveitendur að veita neytendum upplýsingar um árlega hlutfallstölu kostnaðar í auglýsingum sínum og öðru kynningarefni.
Hagsmunasamtök heimilanna hafa margoft bent á að eftirlitsaðilar hafi ekki sinnt því lögboðna hlutverki sínu að vernda hagsmuni neytenda gagnvart fjármálafyrirtækjum, með fullnægjandi hætti. Alvarlegasta dæmið um slíkt eru gengistryggð lán sem veitt voru í tugþúsunda tali án athugasemda frá Fjármálaeftirlitinu, Seðlabanka Íslands, ráðherrum, alþingismönnum eða nokkrum öðrum. Þrátt fyrir að slík lán væru ólögmæt og eftirlitið hefði brugðist, voru neytendur einir látnir greiða ígildi skaðabóta til lánveitenda því vextir voru hækkaðir með handafli frá hinu opinbera.
Nánar um ákvörðun Neytendastofu og kvörtun Hagsmunasamtaka heimilanna
Neytendastofa hefur birt ákvörðun nr. 55/2017 í kvörtunarmáli Hagsmunasamtaka heimilanna gegn Brú lífeyrissjóði. Tilefni kvörtunarinnar var að í auglýsingum og kynningarefni á vefsíðu Brúar komu hvorki fram fullnægjandi upplýsingar um lántökukostnað né um þau réttarúrræði sem neytendur geta nýtt sér ef ágreiningur kemur upp við lánveitanda. Neytendastofa féllst á kvörtunina að öllu leyti og tók fram í ákvörðun sinni að sú ófullnægjandi upplýsingagjöf sem kvartað var yfir, bryti í bága við lög um neytendalán og lög um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.
Samkvæmt 6. gr. laga um neytendalán nr. 33/2013 eiga auglýsingar þar sem koma fram upplýsingar um vexti eða annan lánskostnað jafnframt að bera með sér lýsandi dæmi um heildarkostnað og árlega hlutfallstölu kostnaðar. Samkvæmt ákvörðun Neytendastofu er ekki nægilegt að vísa til þess í auglýsingum að nánari upplýsingar megi finna á vefsíðu lánveitanda, heldur verða þær upplýsingar sem koma fram í auglýsingunum sjálfum að uppfylla þessi skilyrði. Með því að brjóta gegn þeirri upplýsingaskyldu var talið að Brú hefði jafnframt sýnt af sér óréttmæta viðskiptahætti í andstöðu við ákvæði laga nr. 57/2005, um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.
Samkvæmt 1. mgr. 33. gr. laga um neytendalán nr. 33/2013 skulu lánveitendur hafa aðgengilegar upplýsingar um úrskurðar- og réttarúrræði ef ágreiningur rís milli lánveitanda og neytanda um neytendalán, m.a. um málskot til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki. BRÚ hélt því fram að til að uppfylla þetta skilyrði væri nægilegt að upplýsa um slík úrræði þegar ágreiningur kæmi upp og þá aðeins við hlutaðeigandi viðskiptavin. Hagsmunasamtök heimilanna bentu hins vegar á að upplýsingar um réttarúrræði yrðu að liggja fyrir strax frá upphafi þegar neytandi tekur ákvörðun um að stofna til viðskipta með neytendalán og ekki væri viðunandi að treysta á að lánveitandi veitti slíkar upplýsingar eftir að ágreiningur væri á annað borð kominn upp. Neytendastofa féllst á þau sjónarmið og taldi upplýsingagjöf Brúar um réttarúrræði neytenda því vera ófullnægjandi.
Hagsmunasamtök heimilanna fagna þeim áherslum sem birtast í ákvörðun Neytendastofu á þörf fyrir öflugt eftirlit með lánveitendum og upplýsingagjöf þeirra til neytenda. Athuganir samtakanna gefa til kynna að víða sé pottur brotinn í þeim efnum og því sé full ástæða til frekari aðgerða af þessu tagi. Í tilkynningu á vef Brúar kemur fram að sjóðurinn hafi talið sig fylgja lögum og harmi því að svo hafi ekki reynst vera, en eftir gildistöku nýrra laga um fasteignalán til neytenda hafi verið gerðar úrbætur á upplýsingagjöf sjóðsins. Að mati Hagsmunasamtaka heimilanna er reyndar ekki ljóst hvort að í raun sé um fullnægjandi úrbætur að ræða og verður sú upplýsingagjöf því áfram til skoðunar.
Sjá tilkynningu á vef Neytendastofu
Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér
Umfjöllun fjölmiðla um málið
Brú veitti ófullnægjandi upplýsingar um lán | RÚV
Segja Brú hafa brotið lög - Viðskiptablaðið
Viðtal um málið við Guðmund Ásgeirsson starfsmann HH í síðdegisútvarpi Útvarps Sögu 18. desember 2017 (viðtalið hefst þegar rúmar 5 mínútur eru liðnar af upptökunni):