Menu
RSS

HH krefjast 100% aðskilnaðar viðskipta- og fjárfestingarbanka

Hagsmunasamtök heimilana lýsa yfir furðu sinni á orðum fjármálaráðherra um að nú „sé allt annað bankaumhverfi en var árið 2008“ og spyrja hvað hann eigi við með að nú hafi „allt eftirlit verið stórhert“.

Það á ekki að vera minnsti möguleiki á því að fjárfestingarbankastarfsemi, sem augljóslega er áhættusamari en viðskiptabankastarfsemin, hafi neikvæð áhrif á vexti útlána í almennum bankaviðskiptum. Það á ekki að vera afsökun fyrir hærra vaxtastigi, að fjármögnun fjárfestingarbanka-starfseminnar sé svo dýr, meðan fjármögnun útlána í lögeyri er nánast eins ódýr og frekast er hægt að hugsa sér.

Samkrull viðskiptabanka og fjárfestingarbanka er fullreynt og hefur ekki gefist vel fyrir almenning á Íslandi. Það er því alveg óþarfi að reyna það einu sinni enn. Hagsmunasamtök heimilanna krefjast þess að hvaða leið sem verði farin þá verði tryggt að 100% aðskilnaður verði milli viðskiptabanka og fjárfestingarbanka.

Almenningur er ekki fóður fyrir bankana!

Það getur vel verið að „búið [sé] að setja mikið af nýjum reglum“ en eftir stendur sú staðreynd að gagnvart heimilum landsins fara starfsmenn fjármálafyrirtækja sínu fram án nokkurs eftirlits, um það vitna fjölmörg ljót dæmi.

Hagsmunasamtökin sjá ekki betur en að “partýið” hjá bönkunum sé orðið svipað og það var 2007. Helsti munurinn virðist bara vera sá að fram til ársins 2008 sinntu stjórnvöld og eftirlitsaðilar ekki lögbundnu hlutverki sínu, en að frá 2010 hafi bankarnir haft veiðileyfi á almenning í skjóli fjármálaráðherra og að núna sé bönkunum að takast verkið sem þeir hófu fyrir hrun, að ryksuga upp Ísland, heimili fyrir heimili.

back to top

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna