Menu
RSS

Jólakveðja til heimilanna

Hagsmunasamtök heimilanna senda félagsmönnum sínum sem og landsmönnum öllum hugheilar hátíðakveðjur.

Nú þegar áttunda starfsár samtakanna er senn að baki, er ljóst að baráttunni fyrir réttindum heimilanna er hvergi nærri lokið. Undanfarin misseri hafa kröfur um afnám verðtryggingar og viðurkenningu á ólögmæti verðtryggðra neytendalána verið fyrirferðarmikill þáttur í starfi samtakanna. Þrátt fyrir að þeim markmiðum hafi enn ekki verið náð nema að takmörkuðu leyti, er þó langt frá því að öll slík kurl séu komin til grafar. Fyrir tilstilli samtakanna bíða ýmis mál af þeim toga enn úrlausnar og gæti átt eftir að draga til tíðinda af þeim á nýju ári.

Þann 1. apríl 2017 munu svo taka gildi ný lög um fasteignalán til neytenda, sem fela í sér aukna neytendavernd. Ber þar hæst bann við hlutfallslegum lántökukostnaði öðrum en vöxtum, sem margir lánveitendur hafa nú þegar brugðist við og innleitt föst lántökugjöld. Með þessu ásamt afnámi stimpilgjalda vegna lánasamninga og þröngra takmarkana á uppgreiðslugjöld, hefur slíkum samkeppnishindrunum á húsnæðislánamarkaði verið rutt úr vegi að verulegu leyti. Af öðrum nýmælum laganna má nefna sérstök ákvæði vegna lána í erlendum gjaldmiðlum, og um skyldur lánveitenda til að bjóða neytendum upp á úrræði vegna greiðsluerfiðleika áður en krafist er nauðungarsölu á húsnæði. Samtökin munu fylgjast náið með framkvæmd lánveitenda eftir gildistöku hinna nýju laga og halda úti virku eftirliti með áhrifum þeirra á réttarstöðu heimilanna til framtíðar.

Gleðileg jól og farsælt komandi ár, með þökkum fyrir það liðna.

Hagsmunasamtök heimilanna.

back to top

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna