Hæstiréttur brást neytendum á Íslandi - HH kvarta til ESA
- font size decrease font size increase font size
Hæstiréttur Íslands fór gegn ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins í máli Hagsmunasamtaka heimilanna um framkvæmd verðtryggðra neytendalána. Þetta er einsdæmi í sögu dómstólsins. Hæstiréttur dæmdi þvert á alþjóðlega samninga og skuldbindingar ríkisins um upplýsingaskyldu og neytendarétt.
Í nóvember síðastliðnum vógu hagsmunir fjármálastofnanna þyngra en neytendaréttur í æðsta dómsal landsins. Þessi dómur Hæstaréttar (243/2015) varpar ljósi á stöðu neytendaréttar á fjármálamarkaði á Íslandi og þá baráttu sem samtökin hafa staðið frammi fyrir í átta ár fyrir heimili landsmanna. Hagsmunasamtök heimilanna munu leita réttar íslenskra neytenda utan landssteinanna, því ekki er mögulegt að fá úr þessari réttaróvissu skorið hérlendis. Réttindabarátta samtakanna hefur því færst út fyrir landssteinana.
Innan skamms munu samtökin senda formlega kvörtun til ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) um framkvæmd verðtryggðra neytendalána og brot íslenska ríkisins á alþjóðlegum samningum um neytendarétt. Þetta er fyrsta skrefið í áframhaldandi baráttu samtakanna fyrir rétti neytenda á fjármálamarkaði. Í þjóðmenningarhúsinu þann 14. mars, síðastliðinn, lagði fulltrúi Hagsmunasamtaka heimilanna fyrirspurn fyrir Carl Baudenbacher, forseta EFTA dómstólsins um fordæmi þess að farið sé gegn ráðgefandi áliti dómstólsins innan EFTA. Vísaði hann í ofangreindan dóm Hæstaréttar sem einsdæmi í þessu tilliti en við meðferð málsins lá fyrir ráðgefandi álit EFTA dómstólsins. Forseti dómstólsins benti einnig á að með því að fara gegn alþjóðlegum samningum og áliti dómstólsins gæti aðildaríki verið skaðabótaskylt gagnvart brotaþola.
Það er ótækt að fjármálastofnanir hérlendis séu ekki bundnar sambærilegri upplýsingaskyldu og framkvæmd lánasamninga eins og víðast hvar annars staðar. Í þessu tilliti brást Hæstiréttur íslenskum neytendum.