Menu
RSS

Hagsmunasamtök heimilanna gagnrýna harðlega vaxtahækkanir bankanna

Eftir nýlegar vaxtahækkanir Seðlabanka Íslands hafa stóru viðskiptabankarnir ákveðið að hækka útlánsvexti sína um hálft prósentustig, eða að jafnaði um tæp 8%. Hagsmunasamtök heimilanna gagnrýndu síðustu tvær hækkanir seðlabankans harðlega og vöruðu við því að þær myndu einungis leiða til hærri kostnaðar fyrir heimilin og atvinnulífið, sem hefur nú ræst. Seðlabankinn hefur þannig raunverulega hellt eldsneyti á glæður verðbólgubálsins, sem hafði fram að því verið í rénun.

Samkvæmt nýbirtum uppgjörum hafa bankarnir þrír hagnast um samtals 42,5 milljarða króna á fyrri helmingi ársins. Frá stofnun þeirra á grundvelli brunarústa föllnu bankanna, hafa þeir jafnframt getað hagnast um samtals 422,5 milljarða, sem er fullkomlega óeðlilegt í ljósi þeirrar efnahagskreppu sem staðið hefur yfir stærstan hluta tímabilsins. Ætla mætti því að þeir hefðu nægjanlegt svigrúm til að lækka vexti og létta þar með greiðslubyrði og draga úr hvata til hækkunar á vörum og þjónustu.

Einnig taka samtökin undir þau sjónarmið sem komu fram í grein Þráins Halldórssonar, sérfræðings á eftirlitssviði FME í nýjasta vefriti stofnunarinnar, um verðskrár banka og áhrif þeirra á verðvitund neytenda. Þar segir að stóru bankarnir þrír gefi samtals út 12 verðskrár og vaxtatöflur, alls um 45 síður, í mörg hundruð liðum. Slíkt flækjustig er ógegnsætt og hindrar neytendur í að bera saman verð, sem hamlar samkeppni á fjármálamarkaði.

back to top

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna