Menu
RSS

Hagsmunasamtök heimilanna ítreka gagnrýni á vaxtastefnu Seðlabankans

Hagsmunasamtök heimilanna ítreka gagnrýni sína á vaxtahækkanir Seðlabankans, sem algjörlega gagnslausa og úrelta aðferð við að draga úr verðbólgu. Löngu er orðið tímabært að Seðlabankinn hætti að beita handónýtum hagstjórnartækjum sem hafa einfaldlega þveröfug áhrif við það sem ætlað er. Undanfarnar tvær vaxtahækkanir Seðlabankans jafngilda 22,22% hækkun vaxtakostnaðar sem getur hæglega haft áhrif til hækkunar verðlags, ekki síður en launahækkanir.

Hagsmunasamtök heimilanna skora jafnframt á stjórnvöld og aðila vinnumarkaðsins að fordæma úreltar hagstjórnaraðgerðir Seðlabankans og þrýsta á um að hann breyti þeim og taki framvegis mið af þeim raunveruleika sem við búum við hér á landi.

Loks hvetja Hagsmunasamtök heimilanna verslunar- og þjónustufyrirtæki í landinu að taka sér til fyrirmyndar þau fyrirtæki sem að undanförnu hafa tekið afgerandi forystu í baráttunni við verðbólgu með því að lækka hjá sér verð í ljósi þess stöðugleika sem nú ríkir í efnahagsmálum. Fastlega má gera ráð fyrir að svigrúm sé til lækkana hjá flestum innflutningsaðilum vegna hagstæðrar gengisþróunar að undanförnu, sem ætti að geta haft jákvæð keðjuverkandi áhrif á verslun og framleiðslu í landinu.

Til þess að hægt sé að sigrast á verðbólgu þarf að afnema þær víxlverkandi breytingar verðlags á vörum og þjónustu sem hafa viðgengist hingað til. Verðákvarðanir og vaxtabreytingar eru í raun orsakavaldar fremur en sjálfvirkar afleiðingar. Seðlabankinn og atvinnulífið geta með breyttu hugarfari náð mun betri tökum á verðlagi með því að horfast í augu við þessar staðreyndir.

back to top

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna