Menu
RSS

Héraðsdómur um verðtryggð neytendalán

Fjölskipaður Héraðsdómur Reykjavíkur hefur í dag kveðið upp dóm um verðtryggð neytendalán, í máli sem höfðað var að tilstuðlan Hagsmunasamtaka heimilanna í því skyni að láta reyna á lögmæti slíkra lánasamninga, í þessu tilviki húsnæðisláns. 

Í niðurstöðum dómins er fallist á að lög um neytendalán hafi náð yfir lánveitingar Íbúðalánasjóðs, og að jafnframt hafi verið brotið gegn þeim lögum þar sem lántakendur voru ekki upplýstir um kostnað við lántökuna með fullnægjandi hætti. Með því er í raun fallist á helstu málsástæður neytenda í málinu. Að mati dómsins hefur það hinsvegar ekki þau réttaráhrif að óheimilt sé að innheimta þann kostnað, og var því ekki fallist á kröfur neytenda þar að lútandi.

Hagsmunasamtök heimilanna eru vitanlega ekki sammála þessari niðurstöðu, og telja það skjóta afar skökku við að lánveitanda geti verið heimilt að innheimta á fullu verði, lán sem viðurkennt sé að hafi verið ólöglega úr garði gert við lánveitingu. Að öðru leyti munu samtökin ekki tjá sig frekar um dóminn fyrr en ráðrúm hefur gefist til að fara ítarlega yfir forsendur hans.

Telja má víst að niðurstöðunni verði áfrýjað til Hæstaréttar Íslands. Rétt er að leggja áherslu á að dómurinn er á héraðsdómsstigi, og hefur sem slíkur því ekki bindandi fordæmisgildi að svo stöddu. Markmið samtakanna verður eftir sem áður að fá efnislegan og fordæmisgefandi dóm Hæstaréttar Íslands um verðtryggð neytendalán.

Hagsmunasamtök heimilanna, Theodór Magnússon og Helga Margrét Guðmundsdóttir

back to top

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna