Menu
RSS

Hagsmunasamtök heimilanna gagnrýna harðlega fyrirætlanir ríkisstjórnarinar um hækkun virðisaukaskatts á matvæli


Hagsmunasamtök heimilanna mótmæla harðlega þeim fyrirætlunum ríkisstjórnarinnar sem fram koma í fjárlagafrumvarpi næsta árs um að hækka virðisaukaskatt á matvælum um 71%, eða úr 7% í 12%. Hér er enn og aftur höggið þar sem síst skyldi, enda kemur hækkun matarverðs verst niður á tekjulægstu hópum samfélagsins. Einnig er ljóst að sú takmarkaða niðurfærsla höfuðstóls verðtryggðra lána sem ríkisstjórnin hefur boðað verður fljótt að engu þegar sama ríkisstjórn fer samhliða í aðgerðir sem að öllum líkindum hækka neysluvísitölu með þeim afleiðingum að verðtryggð lán hækka.

Í umræðum um fjárlagafrumvarpið að undanförnu hefur ríkisstjórnin reynt að slá ryki í augu fólks með því að leggja áherslu á þær “mótvægisaðgerðir” sem vega eigi upp á móti auknum skattaálögum á matvöru, það er afnám vörugjalda, lækkun virðisaukaskatts á vörur í efra virðisaukaskattsþrepi og hækkun barnabóta. Hagsmunasamtök heimilanna eru almennt fylgjandi afnámi vörugjalda, en þau vega hins vegar ekki upp á móti gríðarlegri hækkun virðisaukaskatts á matvæli, auk þess sem vert er að minna á að vörugjöld á mat eru beintengd sykurinnihaldi (sykurskattur). Lækkun virðisaukaskatts á vörur í efra virðisaukaskattsþrepi koma þeim sem minnst hafa milli handanna lítið til góða, enda er þar ekki um að ræða helstu nauðsynjavörur. Hækkun barnabóta er góðra gjalda verð en gagnast þó ekki nema hluta þeirra sem lægstar hafa tekjurnar, það er tekjulágum barnafjölskyldum.

Það verður ekki annað séð en að hér sé um blekkingarleik að ræða af hálfu ríkisstjórnarinnar, enda ekki hægt að tala um “mótvægisaðgerðir” nema slíkar aðgerðir vegi raunverulega upp á móti skattahækkunum á matvæli.

Latest from Sigrún Erla Egilsdóttir

back to top

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna