Menu
RSS

Lög um frestun nauðungarsalna

Alþingi samþykkti síðdegis í gær frumvarp innanríkisráðherra um frestun nauðungarsölu, og voru lög samkvæmt frumvarpinu birt á vef Stjórnartíðinda í gærkvöldi. Frá og með deginum í dag geta einstaklingar sem eiga yfir höfði sér nauðungarsölu á heimili sínu, óskað eftir frestun sölu fram yfir 1. mars 2015.

Skilyrði fyrir beiðni um frestun nauðungarsölu eru tvíþætt. Annars vegar að um sé að ræða íbúðarhúsnæði sem er lögheimili gerðarþola. Hinsvegar að gerðarþoli hafi sótt um leiðréttingu samkvæmt lögum um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Staðfestingu slíkrar umsóknar má nálgast í rafskjali á þjónstuvef leiðréttingarinnar hjá Ríkisskattstjóra.

Rétt er benda á að í þeim tilvikum sem uppboði er lokið en samþykkisfrestur tilboða ekki liðinn, er einnig hægt að fresta frekari aðgerðum fram yfir 1. mars 2015, en aðeins að fengu samþykki gerðarbeiðenda og hæstbjóðanda.

Lögin sem um ræðir setja tímabundið bráðabirgðaákvæði við lög nr. 90/1991 um nauðungarsölu, sem er svohljóðandi:

Nú er leitað nauðungarsölu á grundvelli 6. gr. á fasteign þar sem gerðarþoli heldur heimili og hefur skráð lögheimili og um er að ræða húsnæði sem ætlað er til búsetu samkvæmt ákvörðun skipulags- og byggingaryfirvalda og ber þá sýslumanni að verða við ósk gerðarþola sem sótt hefur um leiðréttingu fasteignaveðlána samkvæmt lögum um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána um að fresta fram yfir 1. mars 2015 töku ákvörðunar um framhald uppboðs eða ráðstöfun eignar á almennum markaði. Hafi þegar verið ákveðin ráðstöfun slíkrar fasteignar til fullnustu kröfu skv. 6. gr. við framhald uppboðs eða á almennum markaði en uppboði hefur ekki verið lokið eða boð á almennum markaði samþykkt skal sýslumaður að fullnægðum sömu skilyrðum verða við ósk gerðarþola um að fresta þeim aðgerðum fram yfir 1. mars 2015. Hafi uppboði lokið en sá tími sem hæstbjóðandi er bundinn við boð sitt er ekki liðinn er sýslumanni heimilt að beiðni gerðarþola og að fengnu samþykki gerðarbeiðenda og hæstbjóðanda að fresta frekari vinnslu málsins fram yfir 1. mars 2015.
back to top

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna