HH gagnrýna harðlega þvingunaraðgerðir stjórnvalda gagnvart almenningi varðandi rafræn skilríki
- font size decrease font size increase font size
Hagsmunasamtök heimilanna taka undir með Neytendasamtökunum og mótmæla þeirri kröfu stjórnvalda að umsækjendur skuldaleiðréttingar geti ekki samþykkt ráðstöfunina nema með rafrænum skilríkjum. Veflykill sá sem notaður hefur verið til að sækja um skuldaleiðréttingu ætti að sjálfsögðu að vera nothæfur til að staðfesta aðgerðina, enda hefur veflykillinn þótt nægilega öruggur og verið notaður um árabil við gerð skattframtala. Einnig hvetja Hagsmunasamtök heimilanna umsækjendur um skuldaleiðréttingu til að mæta einfaldlega til ríkisskattstjóra með penna í hönd og undirrita samþykki fyrir skuldaleiðréttingu með bleki.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsfjármála, og Steinþór Pálsson, stjórnarformaður Samtaka fjármálafyrirtækja, undirrituðu viljayfirlýsingu þann 12. júní um að “stórauka [eigi] notkun rafrænna skilríkja á næstu árum og stefna að því að þau verði megin auðkenningarleið fólks vegna ýmiss konar rafrænnar þjónustu og viðskipta á netinu”. Það er að mati Hagsmunasamtaka heimilanna óþolandi að stjórnvöld skuli nota skuldaleiðréttinguna sem tækifæri til að neyða stóran hluta þjóðarinnar til að taka upp rafræn skilríki. Sú aðgerð mun þó vissulega tryggja fjárhagslega afkomu fyrirtækisins Auðkenni ehf. sem er í meirihlutaeigu bankanna þriggja. Auðkenni ehf. hefur hingað til rukkað 10.990 kr. fyrir rafræn einkaskilríki en býður nú upp á “tilboð” að upphæð 1.500 kr. sem aðeins gildir í eitt ár. Að þeim tíma liðnum þarf því að endurnýja skilríkin, en engar upplýsingar um hugsanlegan kostnað við endurnýjun koma fram í verðskrá Auðkennis ehf.
Hagsmunasamtök heimilanna telja rökstuðning fjármála- og efnahagsráðuneytisins um að rafræn skilríki muni “auka öryggi og þægindi” almennings ekki standast nánari skoðun. Hins vegar kemur fram á heimasíðu ráðuneytisins að “talið er að kostnaður stofnana og fyrirtækja vegna samskipta við viðskiptavini muni lækka mikið í kjölfar rafrænna skilríkja.” Þetta er líklega hin raunverulega ástæða fyrir þvingunaraðgerðum stjórnvalda gagnvart almenningi um að taka upp rafræn skilríki.
Related items
Latest from Hagsmunasamtök heimilanna
- Yfir 60 heimili seld nauðungarsölu í september vegna seinagangs innanríkisráðherra
- Lántakendur gæti réttar síns varðandi greiðsluaðlögunarsamninga
- Dagsetning fyrir aðalmeðferð í máli HH um verðtryggingu.
- EFTA dómstóllinn tekur undir með Hagsmunasamtökum heimilanna um að íslenskir dómstólar skuli skera úr um lögmæti verðtryggingar
- Um 90% landsmanna styðja baráttu HH fyrir því að skorið verði úr um lögmæti útfærslu verðtryggðra neytendalána