Menu
RSS

Lántakendur gæti réttar síns varðandi greiðsluaðlögunarsamninga

Athygli er vakin á því að nú eru liðin þrjú ár frá því Landsbankinn, og mögulega fleiri lánveitendur, buðu upp á greiðsluaðlögunarsamninga um lækkun skulda án trygginga, skulda með lánsveði og skulda með sjálfskuldarábyrgð. Tilkynnt var um þetta á heimasíðu Landsbankans þann 26. maí 2011 og var veittur frestur til að sækja um slíkan samning til 15. júlí 2011. Samningarnir voru gerðir til þriggja ára og fólust í því að lántaki notaði 10% af tekjum heimilis samkvæmt upplýsingum á skattframtali fyrir árið 2010, til að greiða af skuldbindingum sem féllu undir samninginn næstu þrjú árin. Stæði lántaki við samninginn áttu eftirstöðvar þeirra krafna sem samningurinn náði til að falla niður í lok samningstímans. Niðurfærsla gat að hámarki numið 4 milljónum króna til einstaklinga og 8 milljónum króna fyrir hjón eða sambúðarfólk.

Að undanförnu hafa samtökunum borist fyrirspurnir frá einstaklingum varðandi þessa greiðsluaðlögunarsamninga. Ástæðan er sú að birst hafa í heimabanka greiðsluseðlar sem eiga við um þau lán sem samið var um á sínum tíma þar sem lántakendur eru krafnir um greiðslur á vöxtum og verðbótum fyrir samningstímabilið (síðustu þrjú ár) auk einhverra afborgana. Þetta stenst að sjálfsögðu ekki það sem um var samið og hefur við nánari eftirgrennslan í einhverjum tilfellum komið í ljós að um “mistök” hafi verið að ræða sem lagfærð verði “handvirkt” í hverju og einu tilfelli. Mikilvægt er að lántakar gæti réttar síns og geri strax athugasemdir ef slíkar kröfur sem ættu að vera fallnar brott vegna greiðsluaðlögunarsamninga, birtast óvænt að nýju í heimabanka.

back to top

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna