Menu
RSS

Frestun nauðungarsalna framlengist

Samkvæmt fréttatilkynningu frá innanríkisráðuneytinu mun ráðherra leggja fram frumvarp á fyrstu dögum þingsins um breytingar á nauðungarsölulögum þar sem gert er ráð fyrir að nauðungarsölum verði frestað áfram meðan vinnsla umsókna um höfuðstólslækkun húsnæðislána stendur yfir. Frumvarpið, sem kynnt var í ríkisstjórn síðastliðinn föstudag, gerir ráð fyrir að nauðungarsölum verði áfram frestað fram yfir 1. mars 2015 en núgildandi frestur á að renna út 1. september.

Hagsmunasamtök heimilanna skoruðu fyrir rúmri viku síðan á innanríkisráðherra að framlengja frestunina, og ítrekuðu svo þá áskorun með auglýsingum í fjölmiðlum nú um helgina.

Skjáauglýsing Hagsmunasamtaka heimilanna með áskorun á innanríkisráðherra

Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna fagnar að sjálfsögðu þessari yfirlýsingu ráðuneytisins. "Segið svo að máttur Hagsmunasamtaka heimilanna og auglýsinga sé ekki mikill" segir Vilhjálmur Bjarnason formaður stjórnar, en bætir jafnframt við: "Það eru samt hnökrar á þessu hjá ráðherranum og munun við benda henni á það og krefjast þess að þetta verði betur gert og með minni takmörkunum."

Þetta er í annað sinn sem nauðungarsölum er frestað á kjörtímabili núverandi ríkisstjórnar, og í bæði skiptin til þess að koma til móts við kröfur Hagsmunasamtaka heimilanna. Samtökin hafa þó áður bent á að burtséð frá slíkri frestun sem er góðra gjalda verð, séu verulegir meinbugir á málsmeðferð við löginnheimtu og fullnustur án undangengins dóms hér á landi. Samtökin gerðu ítarlega grein fyrir þessum sjónarmiðum í sérstakri álitsgerð sem var birt í nóvember í fyrra og beint til innanríkisráðuneytisins.

Nýlega komst Evrópudómstóllinn að þeirri niðurstöðu í máli C-169/14 að fullnustumeðferð á Spáni, sem virðist svipa að mörgu leyti til þeirrar sem tíðkast á Íslandi, brjóti í bága við ákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð. Þá töldust skilyrði tilskipunar 93/13/EBE um óréttmæta skilmála í neytendasamningum um að jafna stöðu neytenda og að þeir skuli óbundnir af óréttmætum skilmálum, ekki heldur vera uppfyllt með spænskri löggjöf. Um er að ræða sömu tilskipun og EFTA-dómstólinn veitti nánari skýringar á með ráðgefandi áliti sínu í máli E-25/13 síðastliðinn fimmtudag.

Fréttatilkynning innanríkisráðuneytisins í heild:

Lagt til að nauðungarsölum verði frestað áfram

Innanríkisráðherra mun leggja fram á fyrstu dögum þingsins frumvarp um breytingar á nauðungarsölulögum þar sem gert er ráð fyrir að nauðungarsölum verði frestað áfram meðan vinnsla umsókna um höfuðstólslækkun húsnæðislána stendur yfir. Frumvarpið, sem kynnt var í ríkisstjórn síðastliðinn föstudag, gerir ráð fyrir að nauðungarsölum verði áfram frestað fram yfir 1. mars 2015 en frestur samkvæmt gildandi lögum á að renna út 1. september.

Sú breyting verður þó gerð frá fyrri frestun að fresturinn mun ekki taka til fyrstu skrefa nauðungarsölu þannig að þingfesting máls og byrjun uppboðs munu fara fram nema gerðarbeiðandi fresti aðgerðum. Gerðarþoli geti hins vegar án samþykkis gerðarbeiðanda óskað eftir fresti á því að framhald uppboðs verði ákveðið eða að það fari fram. Jafnframt verði með samþykki allra gerðarbeiðenda unnt að fresta uppgjöri til kröfuhafa á fasteign sem seld hefur verið við framhald uppboðs en er enn í svokölluðum samþykkisfresti. Jafnframt er gert að skilyrði að gerðarþoli leggi fram staðfestingu á að hann hafi sótt um leiðréttingu samkvæmt ákvæðum laga um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána.

Forsagan

Í framhaldi af tillögum þeim sem kynntar voru í aðgerðaáætlun um höfuðstólslækkun húsnæðislána var lögfest heimild fyrir sýslumenn til að fresta nauðungarsölum að beiðni gerðarþola fram yfir 1. september 2014. Var það gert til að skuldurum gæfist tími til að leggja mat á þær aðgerðir sem lagðar voru til og hvaða áhrif þær aðgerðir hefðu á skuldastöðu viðkomandi. Var þannig heimilt að fresta nauðungarsölum á öllum stigum nauðungarsöluferilsins, án samþykkis gerðarbeiðenda, hvort sem um væri að ræða byrjun uppboðs eða framhaldssölu. Jafnframt að fresta mætti uppgjöri á eign sem er í svokölluðum samþykkisfresti með samþykki gerðarbeiðenda. Áskilið er að um sé að ræða húsnæði sem er ætlað til búsetu samkvæmt ákvörðun skipulags- og byggingaryfirvalda, gerðarþoli eigi þar lögheimili og haldi þar heimili.

Með lögum nr. 35/2014 var kveðið á um skipan og fyrirkomulag leiðréttingar á verðtryggðum fasteignaveðlánum. Frestur til að óska leiðréttingar á slíkum lánum rennur út 1. september. Samkvæmt upplýsingum frá verkefnisstjórn um framkvæmd almennrar höfuðstólslækkunar íbúðalána tekur þá við úrvinnsla umsókna og má búast við að niðurstöður leiðréttingar berist umsækjendum um mánaðarmótin september/október. Þá hafa umsækjendur þrjá mánuði til að samþykkja niðurstöðu útreikninga. Innan sama tíma hafa umsækjendur sem ekki samþykkja niðurstöðu útreikninga tækifæri til að kæra niðurstöðu til kærunefndar. Hefur verkefnastjórn um framkvæmd almennrar höfuðstólslækkunar íbúðalána talið rétt að skoðað verði hvort rétt sé að fresta áfram nauðungarsölum á fasteignum og því er stefnt að því að leggja fyrrgreint frumvarp fram.

back to top

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna