Menu
RSS

Hagsmunasamtök heimilanna gagnrýna herta inneimtuhætti Íbúðalánasjóðs

Hagsmunasamtök heimilanna hafa sent Íbúðalánasjóði svohljóðandi bréf:

Hagsmunasamtök heimilanna gagnrýna harðlega hertar innheimtuaðgerðir Íbúðalánasjóðs sem hafa verið birtar lántakendum að undanförnu án nokkurs fyrirvara. Á seinni hluta árs 2008, í kjölfar bankahrunsins, voru innheimtuaðgerðir Íbúðalánasjóðs mildaðar með tilliti til efnhagsástandsins. Frestur frá gjalddaga til sendingar greiðsluáskorunar var rýmkaður í fjóra til fjóra og hálfan mánuð frá elsta ógreidda gjalddaga í stað tveggja til tveggja og hálfs mánaðar áður. Þá var heimilað að afturkalla nauðungarsölu gegn greiðslu þriðjungs vanskila í stað helmings vanskila áður.

Að undanförnu hafa lántakendum í vanskilum borist greiðsluáskoranir þar sem þeim er tilkynnt að verði láni þeirra ekki komið í skil innan 15 daga verði farið með eignir þeirra í nauðungarsöluferli. Þegar þeir hafa verið inntir eftir skýringum á þessu hafa starfsmenn ÍLS gefið þær upplýsingar að á vormánuðum hafi reglur sjóðsins um innheimtuaðgerðir verið hertar.

Þegar leitað er eftir upplýsingum á heimasíðu Íbúðalánasjóðs um innheimtuferli og reglur um afturköllun nauðungarsölubeiðna má sjá að að tilslakanir frá árinu 2008 hafa nú verið færðar í fyrra horf. Hins vegar er engar tilkynningar að finna á heimasíðunni um hertar innheimtuaðgerðir og ekki er vitað til þess að lántakendum í vanskilum hafið verið tilkynnt um þær bréfleiðis eða með öðrum sannanlegum hætti. Þrátt fyrir að hér sé um að ræða aðgerðir þar sem Íbúðalánasjóður dregur til baka fyrri tilslakanir í innheimtuaðgerðum telja Hagsmunasamtök heimilanna það vera dæmi um afleita viðskiptahætti að gera slíka breytingu fyrirvaralaust og án nokkurrar viðvörunar.

Jafnframt er tímasetningin afar slæm þar sem breyting á reglum Íbúðalánasjóðs um afturköllun nauðungarsölu mun hafa verulega íþyngjandi áhrif fyrir þá fjölmörgu sem standa munu frammi fyrir nauðungarsölum eftir 1. september. Verði ekkert að gert fellur þá úr gildi bráðabirgðarákvæði við lög um nauðungarsölu nr. 90/1991 sem kveður á um tímabundna frestun á nauðungarsölum og framlengingu á samþykkisfresti, fram yfir 1. september 2014.

Hagsmunasamtökum heimilanna þykja það hörkulegar aðfarir af hálfu Íbúðalánasjóðs að gjaldfella lán að fullu og hóta nauðungarsölu án þess að veita lántakendum vitneskju og tíma til að bregðast við breyttum innheimtuháttum. Samtökin hvetja Íbúðalánasjóð til að falla frá slíkri framkomu gagnvart viðskiptavinum sínum. Það hlýtur að teljast sanngjörn og eðlileg krafa að sjóðurinn geri lántakendum aðvart um slíkar breytingar bréfleiðis með hæfilegum fyrirvara auk þess að birta tilkynningar um þær á vefsíðu sinni, í samræmi við góða viðskiptahætti.

back to top

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna