Menu
RSS

Opið bréf til forsætisráðherra um málflutning fyrir hönd ríkisstjórnarinnar í verðtryggingarmálum fyrir EFTA dómstólnum

Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna óskar eftir skýringum frá forsætisráðherra, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, varðandi afstöðu ríkisstjórnar Íslands í máli nr. E-27/13 sem nú er fyrir EFTA dómstólnum, þar sem tekist er á um hvort framkvæmd verðtryggingar samrýmist EES-tilskipunum. Í afstöðu sinni til málsins leggur ríkisstjórnin til að EFTA dómstóllinn komist að þeirri niðurstöðu að framkvæmd verðtryggingar samrýmist EES-tilskipunum. Einnig segir í greinargerðinni að verðtrygging gegni lykilhlutverki í íslensku efnahagslífi og skuli því gert ráð fyrir því að neytendur hér á landi skilji grundvallarþætti verðtryggðra lána. Þá lýsir ríkisstjórnin áhyggjum sínum af efnahagsáhrifum þess ef framkvæmd verðtryggingar reynist ekki samrýmast evrópskum tilskipunum sem innleiddar hafa verið í íslensk lög, einkum ef slík niðurstaða leiði af sér afturvirkar endurgreiðslur til neytenda.

Hagsmunasamtök heimilanna furða sig á þessum málflutningi fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, einkum í ljósi þeirra yfirlýsinga og loforða sem Framsóknarflokkurinn gaf frá sér fyrir síðustu alþingiskosningar um afnám verðtryggingar. Þá ættu hvorki EFTA dómstóllinn né íslenskir dómstólar að taka mið af þeirri óskhyggju ríkisstjórnarinnar að íslenskir neytendur skilji grundvallarþætti verðtryggðra lána, enda ekkert getið um það í evrópskum tilskipunum sem leidd hafa verið í íslensku lög að almennir neytendur skuli hafa skilning á þeim gríðarlega flóknu afleiðusamningum sem verðtryggðir lánasamningar í raun og veru eru. Einnig hlýtur það að teljast grafalvarlegt mál ef ríkisstjórnin hefur af því áhyggjur að neytendur fái greiddar til baka verðbætur sem ranglega hafa verið af þeim teknar, komist dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að framkvæmd verðtryggingar gangi gegn evrópskum tilskipunum um neytendavernd. Það eru afar sérkennileg skilaboð frá ríkisstjórn Íslands til EFTA dómstólsins að hann skuli haga áliti sínu neytendum í óhag til þess að forðast meint neikvæð áhrif á íslenskt efnahagslíf, enda geta niðurstöður dómstóla einmitt haft slíkar afleiðingar fyrir einstök aðildarríki í einhverjum tilfellum.

Hagsmunasamtök heimilanna óska því eftir svörum frá forsætisráðherra um það hvort sú afstaða sem málflytjendur setja fram endurspegli raunverulega afstöðu ríkisstjórnarinnar, og ekki síður Framsóknarflokksins, til þeirra ágreiningsefna er varða framkvæmd verðtryggðra lánveitinga til neytenda sem nú eru til úrlausnar fyrir EFTA dómstólnum.

Einnig vilja samtökin vekja athygli á því að tilgangur þess að ríkisstjórn aðildarríkis eigi aðild að máli sem þessu lýtur fyrst og fremst að hlutverki þess við framkvæmd EES-reglna og ætti aðkoma stjórnvalda því aðallega að snúast um að sjá til þess að niðurstöðu EFTA-dómsins verði í reynd fylgt hér á landi. Með afstöðu sinni tekur ríkisstjórnin hins vegar greinilega afstöðu með þeirri lánastofnun sem í hlut á, enda er íslenska ríkið alls ekki hlutlaus aðili í þessu máli þar sem það er aðaleigandi Landsbankans. Hér er því raunverulega um að ræða málsvörn fyrir stefnda í málinu, og hagmunaárekstur. Slík framganga í máli sem þessu fyrir erlendum dómstóli er ríkisstjórn Íslands ekki til sóma. Jafnframt er sú hætta fyrir hendi að íslenska ríkið geti talist bera ábyrgð á að hafa staðið rangt að innleiðingu á EES-reglum.

Loks er rétt að benda á að þann 27. febrúar sl. kvað Neytendastofa upp ákvörðun nr. 8/2014, um að sú háttsemi að undanskilja áhrif verðtryggingar frá útreikningi lánskostnaðar bryti gegn lögum um neytendalán. Það skýtur því skökku við að málflytjendur hafi haldið hinu gagnstæða fram fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands í máli fyrir EFTA-dómstólnum, og vekur upp spurningar um hvort þeim sé ekki kunnugt um að slík ákvörðun liggi nú þegar fyrir hjá þar til bæru stjórnvaldi hér á landi. Eða hafi jafnvel talið sér fært að líta framhjá þeirri ákvörðun?

Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna

back to top

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna