Menu
RSS

Frávísunarkröfu Íbúðalánasjóðs í verðtryggingarmáli HH hafnað

Í morgun var kveðinn upp úrskurður í Héraðsdómi Reykjavíkur varðandi frávísunarkröfu Íbúðalánasjóðs í dómsmáli vegna verðtryggðs láns sem Hagsmunasamtök heimilanna standa að baki. Niðurstaðan er sú að frávísunarkröfu var hafnað.  Málið hefur nú þvælst innan dómskerfisins á annað ár, en það var upphaflega þingfest fyrir héraðsdómi þann 18. október 2012. Íbúðalánasjóður fór fram á frávísun málsins sem héraðsdómur samþykkti. HH áfrýjaði þeim úrskurði til Hæstaréttar sem staðfesti úrskurð héraðsdóms um frávísun í maí 2013.

Þann 8. nóvember 2013 var ný stefna í sama máli þingfest fyrir héraðsdómi Reykjavíkur. Enn og aftur fór Íbúðalánasjóður fram á frávísun. Málflutningur í frávísunarmáli fór fram þann 14. mars síðastliðinn en þann 28. mars bar svo við að hérðasdómari kallaði málsaðila á sinn fund og lýsti sig vanhæfan til að dæma í málinu, þar sem hann væri sjálfur með verðtryggt lán hjá Íbúðalánasjóði. HH sættu sig ekki við þá málalyktan og kærðu frávísun dómarans til Hæstaréttar sem komst að þeirri niðurstöðu að dómara væri ekki stætt á því að segja sig frá málinu, til þess væri um of almenna hagsmuni að ræða.  Sá hinn sami dómari, Ásmundur Helgason, komst svo að þeirri niðurstöðu í morgun að ekki væri ástæða til að vísa málinu frá dómi.  Stjórn HH fagnar því að sjálfsögðu að málið fá loks efnislega meðferð fyrir dómi.   

Málshöfðunin byggir meðal annars á þeirri forsendu að lánasamningur hins verðtryggða fasteignaláns standist ekki kröfur þær sem skýrt er kveðið á um í lögum um neytendalán (nr. 121/1994) varðandi það að tæmandi upplýsingar um heildarlántökukostnað skuli liggja fyrir við undirritun lánasamninga, miðað við raunverulegar forsendur. Lánveitanda sé því ekki heimilt að innheimta þann kostnað.

back to top

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna