Menu
RSS

Dómara í verðtryggingarmáli ekki stætt á því að segja sig frá málinu.

Stefnendur í dómsmáli gegn Íbúðalánasjóði vegna verðtryggðs fasteignaláns hafa í samráði við Hagsmunasamtök heimilanna ákveðið að kæra til Hæstaréttar ákvörðun dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur um að segja sig frá málinu. Dómari málsins upplýsti við dómþing þann 28. mars að hann hefði sjálfur tekið 18 milljóna króna lán hjá Íbúðalánasjóði árið 2007 og væru eftirstöðvar þess uppreiknaðar miðað við vísitölu neysluverðs ríflega 26 milljónir króna. Í ljósi þessa taldi dómarinn að hægt væri að draga óhlutdrægni hans í efa og sagði sig frá málinu.


Hagsmunasamtök heimilanna telja afsögn dómara frá málinu óviðunandi og benda á að þann 7. apríl var kveðið úr um sambærilegt álitaefni við EFTA dómstólinn. EFTA dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að Páll Hreinsson, sem er dómari í tveimur málum (E-25/13 og E-25/13) er bæði varða lögmæti verðtryggingar, væri ekki vanhæfur þrátt fyrir að hann hafi sjálfur tekið vísitölubundin lán með veði í húseign sinni á Íslandi, sambærilegt lánum í þeim málum sem nú eru til meðferðar fyrir dómstólnum. EFTA dómstólinn telur, í ljósi þess að u.þ.b. 90.000 íslenskar fjölskyldur hafi tekið vísitölubundin lán, að þeir hagsmunir sem í hlut eiga séu almenns eðlis og geti því ekki útilokað viðkomandi dómara frá þátttöku í meðferð ofangreindra mála.


Hagsmunasamtök heimilanna telja því að í dómsmáli vegna verðtryggðs fasteignaláns sem samtökin standa að baki og nú er rekið  fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur sé dómara ekki stætt á því að segja sig frá málinu, á sömu forsendum og lagðar voru til grundvallar við EFTA dómstólinn. 

 

back to top

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna