Menu
RSS

Útfærsla verðtryggðra neytendalána úrskurðuð ólögmæt

Neytendastofa hefur birt ákvörðun nr. 8/2014 vegna kvörtunar yfir verðtryggðu húsnæðisláni Íslandsbanka. Með ákvörðuninni eru staðfest alvarleg brot bankans á ákvæðum laga nr. 121/1994 um neytendalán og laga nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu. Neytendastofa hefur hér með staðfest að lánveitendum verðtryggðra neytendalána hafi verið með öllu óheimilt að taka mið af 0% verðbólgu við útreikning árlegrar hlutfallstölu kostnaðar, heildarlántökukostnaðar og framsetningu á greiðsluáætlun.

Rannsóknir Hagsmunasamtaka heimilanna á lánasamningum neytenda hafa leitt í ljós að þeir eru í flestum tilvikum sama marki brenndir og má því ætla að flest ef ekki öll verðtryggð neytendalán hér á landi, þar með talin húsnæðislán, brjóti í bága við umrædd lagaákvæði. Ekki er vitað um nein tilfelli þess að lánveitendur verðtryggðra neytendalána hafi á undangengnu tímabili tekið mið af raunverulegri verðbólgu við útreikning á árlegri hlutfallstölu kostnaðar og heildarlántökukostnaði.

Samkvæmt niðurstöðu Neytendastofu og með hliðsjón af 14. gr. laga um neytendalán frá 1994 hefur lánveitendum því verið óheimilt að innheimta verðbætur af verðtryggðum neytendalánum frá þeim tíma og af fasteignaveðlánum einstaklinga frá ársbyrjun 2001 þegar lögin voru útvíkkuð. Að áliti Hagsmunasamtaka heimilana þýðir þessi niðurstaða að lánveitendur þurfi að endurgreiða allar verðbætur sem innheimtar hafa verið á grundvelli verðtryggðra neytendalánasamninga sem haldnir eru sambærilegum ágöllum.

Þessi niðurstaða staðfestir það sem Hagsmunasamtök heimilanna hafa um langa hríð vakið athygli á, að framkvæmd verðtryggingar á neytendalánum hér á landi hefur verið ólögleg allt frá gildistöku laga nr. 121/1994 um neytendalán (að meðtöldum fasteignaveðlánum frá og með 2001). Jafnframt má nefna að ágallar á útfærslu verðtryggðra lána eins og þeir sem Neytendastofa hefur nú staðfest eru meðal veigamestu atriða málatilbúnaðar í dómsmáli á vegum Hagsmunasamtaka heimilanna sem verður tekið fyrir hinn 14. mars næstkomandi í Héraðsdómi Reykjavíkur.

back to top

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna