Menu
RSS

HH kvarta til Neytendastofu vegna auglýsingar Samtaka Atvinnulífsins

Hagsmunasamtök heimilanna hafa sent kvörtun til Neytendastofu vegna sjónvarpsauglýsingar Samtaka Atvinnulífsins (SA) sem birst hefur í fjölmiðlum að undanförnu, þar sem fullyrt er að “of miklar launahækkanir hafi leitt til verðbólgu”.

Staðhæfingar um að launþegar beri ábyrgð á verðbólgu eru villandi og beinlínis rangar.  Verðbólga er skilgreind sem hækkun á vísitölu neysluverðs sem gefin er út af Hagstofu Íslands og mælir vöruverð og húsnæðiskostnað. Augljóst er að það eru atvinnurekendur á borð við kaupmenn og verslunarfyrirtæki sem taka ákvarðanir um verðhækkanir á neysluvörum en ekki launþegar.

Verðlag á fasteignamarkaði er heldur ekki ákvarðað af launþegum, sérstaklega ekki þeim sem leigja sér húsnæði. Leiguverð er ákvarðað af leigusölum, sem margir hverjir eru atvinnurekendur, og kaupverð húsnæðis er ákveðið af seljendum þess, sem eru alls ekki í öllum tilvikum launþegar. Þá má ekki heldur gleyma áhrifum skatta- og gjaldskrárhækkana sem eru opinberlega ákveðnar.

Ein helsta orsök verðbólgu er offjölgun á krónum í umferð og hefur peningaleg þensla verið bæði mikil og sveiflukennd hér landi. Til að mynda nam aukning peningamagns í umferð hérlendis næstum fjórföldun á tímabilinu frá 2004 til 2008. Þessa miklu aukningu má að langmestu leyti rekja til starfsemi bankakerfisins, sem setur nýtt fjármagn í umferð með útlánum. Nýlegar rannsóknir hafa auk þess sýnt að hið séríslenska fyrirbæri sem verðtrygging útlána bankakerfisins er, veldur mikilli offramleiðslu peningamagns sem eykur við verðbólgu og viðheldur henni.

Þess er farið á leit að Neytendastofa leggi bann við birtingu auglýsingar SA og taki til athugunar beitingu stjórnvaldssekta, fallist stofnunin á það umkvörtunarefni að hin margumrædda auglýsing brjóti gegn ákvæðum laga nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu. Að mati HH er um viðamikið brot gegn hagsmunum neytenda að ræða, auk þess sem þær rangfærslur sem koma fram í auglýsingunni eru til þess fallnar að grafa undan fjármálalæsi almennings.

back to top

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna