Menu
RSS

Áskorun til innanríkisráðherra, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur

Eftir umfjöllun Hagsmunasamtaka heimilanna undanfarna daga um stöðvun nauðungarsala og gjaldþrota skorar stjórn HH á innanríkisráðherra, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, að skýra nánar fullyrðingar sínar um að stöðvun á nauðungarsölum gangi gegn stjórnarskárbundnum réttindum kröfuhafa. Á fundi með fulltrúum HH í síðustu viku, og í fjölmiðlum undanfarna daga í kjölfar þess fundar hefur ráðherrann haldið því fram að álit “helstu sérfræðinga á þessu sviði” standi helst í vegi fyrir því að stjórnvöld stöðvi nauðungarsölur.

Samtökin hafa ítrekað farið fram á að nauðungarsölur verði stöðvaðar, enda eru nauðungarsölur vegna neytendalána ólögmætar nema dómsúrskurður liggi fyrir. Nauðungarsölurnar fara auk þess fram á meðan beðið er boðaðra aðgerða ríkisstjórnarinnar í skuldamálum, en slíkar aðgerðir myndu jafnvel, ef af þeim verður, forða fjölmörgum af þeim fjölskyldum sem í hlut eiga frá því að missa heimili sín.

Einnig er skorað á innanríkisrráðherra að gefa lögfræðilegar skýringar á því hvernig stöðvun nauðungarsala geti gengið gegn réttindum þeirra sem þegar hafa misst heimili sín í slíkum fullnustugerðum, en þeim rökum hefur ráðherrann einnig beitt fyrir sig í þessu máli. Það ætti að vera leikur einn fyrir áðurnefnt einvalalið sérfræðinga stjórnvalda að svara þessum einföldu spurningum fyrir ráðherrann og okkur í Hagsmunasamtökum heimilanna.  Svar óskast strax því þau heimili sem um ræðir þola enga bið!

back to top

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna