Menu
RSS

Fundur HH með ráðherranefnd um úrlausnir í skuldamálum heimilanna.

Hagsmunasamtök heimilanna (HH) óskuðu í júní eftir fundi með ráðherranefnd um úrlausnir í skuldamálum heimilanna í þeim tilgangi að koma á framfæri sjónarmiðum samtakanna varðandi forgangsmál og þær leiðir sem samtökin telja vænlegastar í þessum efnum. Eftir ítrekun á þeirri ósk barst loks boð um fund með ráðherranefndinni síðastliðinn þriðjudag 27. ágúst.

Fulltrúar HH voru Vilhjálmur Bjarnason, formaður stjórnar, Pálmey Gísladóttir, varaformaður og Guðmundur Ásgeirsson, erindreki. Fundinn sátu auk þeirra Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og  Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra auk aðstoðarmanna.  Eygló Harðardóttir, húsnæðis- og félagsmálaráðherra var boðuð á fundinn en mætti ekki.

Á fundinum vísuðu fulltrúar HH til ítarlegar umsagnar HH við þingsályktunartillögu um aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.  Sérstaklega var lögð áhersla á mikilvægi þess að STRAX verði stöðvaðar allar fullnustugerðir eins og gjaldþrot og nauðungarsölur án undangenginna dómsúrskurða og að sett verði lög um endurupptökur mála hjá einstaklingum sem þegar hafa verið gerðir gjaldþrota, eignir þeirra seldar á nauðungarsölu eða á veðhafafundi hjá skiptastjóra á grundvelli ólögmætra lána. Auk þess var meðal annars fjallað um mikilvægi þess að dómsmál sem fjalla um lögmæti lána fái flýtimeðferð í gegnum dómskerfið, rýran afrakstur samráðs um gengislánamál, hlutverk og frammistöðu Umboðsmanns skuldara gagnvart skuldurum og vöntun á raunverulegum framfærsluviðmiðum þar sem tekið er mið af því hvað það kostar að lifa hófsömu, mannsæmandi lífi á Íslandi.

Fundinum lauk á þeim nótum að áframhald muni verða á samræðu milli Hagsmunasamtaka heimilanna og fulltrúa ríkisstjórnarinnar um skuldamál heimilanna. Það er sannarlega von stjórnar samtakanna að svo megi verða.

UPPFÆRT: Daginn eftir fundinn var Vilhjálmur Bjarnason formaður HH í viðtali í Bítinu á Bylgjunni. Hægt er að hlusta á viðtalið með að smella hér.

back to top

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna