Logo
Print this page

100 DAGA AFMÆLI RÍKISSTJÓRNARINNAR

Í dag eru liðnir 100 dagar frá því að ný ríkisstjórn tók við stjórnartaumum án þess að nokkuð áþreifanlegt hafi komið fram til varnar heimilum og fjölskyldum landsins. Tillögur hafa verið lagðar fram og einhver mál eru í vinnslu með tímamörkum fram á veturinn. Nóg var um loforð og fögur fyrirheit í kosningarbaráttunni þar sem fólki var gefin sú von sem það sannanlega þurfti á að halda. Nú er sú von að deyja. Til að fólk fái aftur trú á að eitthvað eigi að gera fyrir fjölskyldur og heimili landsins og öðlist þá von sem er okkur svo nauðsynleg þarf þingheimur allur og ríkisstjórn að taka höndum saman um að framkvæma eftirfarandi STRAX.

Hagsmunasamtök heimilanna krefjast þess að stjórnvöld stöðvi nauðungarsölur og gjaldþrot einstaklinga á meðan beðið er boðaðra aðgerða ríkisstjórnarinnar. Ekkert vit er í því að leyfa fjármálafyrirtækjunum að gera fólk gjaldþrota og henda fjölskyldum út af heimilum sínum á sama tíma og ríkisstjórnin boðar skuldaleiðréttingu og úrræði sem koma eiga í veg fyrir að slíkt þurfi að gerast. Samkvæmt núgildandi lögum er ekki hægt að taka til baka nauðungarsölur, gjaldþrot og sölu á veðhafafundi sem þegar hafa farið fram.    

Einnig krefjast Hagsmunasamtök heimilanna þess að þeim einstaklingum sem þegar hafa verið gerðir gjaldþrota, eign fjölskyldunnar seld á nauðungarsölu eða á veðhafafundi hjá skiptastjóra á grundvelli ólöglegra lána, verði gert kleift með lagasetningu að fá fjárræði sitt og heimili til baka, annað er skýlaust mannréttindabrot. Núverandi lög gera ekki ráð fyrir að þetta sé hægt og allar tilraunir til að bæta þar úr hafa verið árangurslausar hingað til, og veldur það mörgum fjölskyldum mikilli sálarangist. 

Einnig krefjast Hagsmunasamtök heimilanna þess að stjórnvöld stöðvi Umboðsmann skuldara strax í því að henda fjölskyldum út af heimilum sínum á grundvelli ólöglegra lána, eða á grundveli þess að fólkið hafi ekki staðið við skilmála sem voru þannig uppsettir af fjármálafyrirtækjunum að ekki var hægt að standa við þá frá upphafi. Umboðsmaður skuldara er stofnun sem ekki vinnur eftir þeim lögum og reglugerðum sem um hana hafa verið settar. Auk þess er nafn stofnunarinnar rangnefni, réttara væri að kalla stofnunina Umboðsmann fjármálafyrirtækjanna.

Þetta er það sem Hagsmunasamtök heimilanna setja í forgang í tilefni 100 daga afmælis ríkisstjórnarinnar. Ef næstu 100 dagar verða með sama sniði má búast við að dagar þessarar ríkisstjórnar séu taldir.

Related items

Latest from Hagsmunasamtök heimilanna

Hagsmunasamtök heimilanna / Ármúla 5 / 108 Reykjavík / ICELAND / (+354)-546-1501 / www.heimilin.is / heimilin@heimilin.is