Menu
RSS

HH undirbúa nýja stefnu gegn Íbúðalánsjóði vegna verðtryggðs fasteignaláns

Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð héraðsdóms Reykjavíkur frá 30. apríl sl. þar sem vísað var frá dómi málsókn gegn Íbúðalánasjóði vegna verðtryggðs fasteignaláns, sem Hagsmunasamtök heimilanna standa að baki.  Frávísunarkrafan kom frá ríkislögmanni fyrir hönd Íbúðalánasjóðs.

Í dómi Hæstaréttar kom fram að kröfugerðin fæli í sér að dómstólar skýrðu tilgreind ákvæði laga án þess að það tengdist úrlausn um ákveðið sakarefni. Bryti hún því í bága við 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Var því ákvörðun héraðsdóms um frávísun málsins staðfest.

Málshöfðunin byggir meðal annars á þeirri forsendu að lánasamningur hins verðtryggða fasteignaláns standist ekki kröfur þær sem skýrt er kveðið á um í lögum um neytendalán (nr. 121/1994) varðandi það að tæmandi upplýsingar um heildarlántökukostnað skuli liggja fyrir við undirritun lánasamninga, miðað við raunverulegar forsendur.

Málinu er þó hvergi nærri lokið og hafa stefnendur í málinu í samráði við lögfræðing og með stuðningi Hagsmunasamtaka heimilanna tekið ákvörðun um að leggja fram nýja stefnu í Héraðsdómi Reykjavíkur sem allra fyrst.

Málsókn af þessu tagi er kostnaðarsöm og hefur sérstakur málsóknarsjóður verið stofnaður til að standa straum af kostnaði. Félagsmenn HH sem og aðrir sem láta sig málið varða eru hvattir til að leggja málefninu lið með fjárframlögum inn á reikning nr. 1110-05-250427, kennitala: 520209-2120. Öll framlög skipta máli því margt smátt gerir eitt stórt! 

back to top

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna