Menu
RSS

Frávísun Héraðsdóms á máli um verðtryggt neytendalán kærð til Hæstaréttar

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur vísað frá dómi máli neytanda sem hann höfðaði gegn Íbúðalánasjóði um lögmæti samnings um neytendalán með verðtryggingu, en Hagsmunasamtök heimilanna (HH) standa að baki málsókninni. Varðandi úrskurð um frávísun málsins segir meðal annars í niðurstöðum héraðsdóms um forsendur hans:

„Þessi framsetning dómkrafna er í andstöðu við fyrrgreind ákvæði laga nr. 91/1991 og er auk þess óskýr í meira lagi, m.a. vegna þess að enga útlistun er að finna í kröfugerð á því hver sá heildarlántökukostnaður hafi verið, hvernig einstakir kostnaðarliðir hafi skipst eða hver kostnaður muni verða í framtíðinni, sbr. einnig d-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991,“

Athyglisvert þykir að í málinu, sem var höfðað á grundvelli laga um neytendalán, var einmitt meðal helstu málsástæðna að upplýsingar sem lánveitandi hefði veitt um kostnað væruð óskýrar í meira lagi, þar vantaði útlistun um það hver heildarlántökukostnaður lánsins skyldi vera, hvernig tilteknir kostnaðarliðir skiptist, eða hver kostnaður muni verða í framtíðinni.

Í dómi sínum leggur héraðsdómur sjálfar málsástæðurnar nánast til grundvallar frávísun, og vekur það upp ýmsar spurningar um hvernig kröfugerð lánveitanda þyrfti þá að líta út til þess að uppfylla kröfur dómsins um skýrleika, svo kröfur hans á neytendur yrðu viðurkenndar?

Stjórn HH fundaði í gær með stefnanda málsins og lögfræðingi hans, og var það samdóma álit allra að rétt sé að kæra frávísunina til Hæstaréttar, sem verður gert í næstu viku.

Félagsmenn eru hvattir til að fylgjast vel með heimasíðu HH á næstunni þar sem upplýsingar um framgang málsóknarinnar verða settar inn jafnóðum. Málsókn af þessu tagi er kostnaðarsöm og hefur því verið stofnaður sérstakur málskostnaðarsjóður. Félagsmenn sem vilja leggja málefninu lið eru hvattir til að gera það með framlögum í sjóðinn.


Reikningsnúmer: 1110-05-250427 kt. 520209-2120

back to top

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna