Menu
RSS

Flýtimeðferðarákvæði laga um neytendalán í tvítugsafmælisgjöf

Hagsmunasamtök heimilanna vilja vekja athygli neytenda á því að samkvæmt nýjum lögum um neytendalán sem samþykkt voru í mars síðastliðnum hefur tekið gildi bráðabirgðaákvæði um heimild neytenda til að sækja um flýtimeðferð mála fyrir dómstólum vegna ágreinings er varðar lögmæti verðtryggingar í lánssamningum.

Rétt er að taka fram að flýtimeðferðarákvæðið gildir jafnt fyrir alla neytendur með verðtryggð lán, þar á meðal þau sem eru verðtryggð með gengistengingu. Athygli er vakin á því að bráðabirðgaákvæðið gildir aðeins til 1. september næstkomandi að óbreyttu, en samtökin munu beita sér fyrir þeirri kröfu að gildistími ákvæðisins verði framlengdur.

Neytendur sem kunna að hyggja á málshöfðun í því skyni að láta reyna á lögmæti verðtryggðra lánssamninga eru hvattir til þess að nýta sér umrædda flýtimeðferð með því að óska sérstaklega eftir því við málshöfðun samkvæmt ákvæðum XIX. kafla laga um meðferð einkamála.

Loks vilja Hagsmunasamtök heimilanna óska íslenskum neytendum til hamingju með 20 ára afmæli laga um neytendalán, sem er í dag 13. apríl, en þau tóku fyrst gildi í upphaflegu formi árið 1993.

    - fyrir hönd stjórnar Hagsmunasamtaka heimilanna

Á þessum tímamótum er auk þess vel við hæfi að Hagsmunasamtök heimilanna taka nú í notkun nýja og bætta heimasíðu. Verður í framhaldinu unnið að betra skipulagi efnis á síðunni svo það verði aðgengilegra ásamt því að koma upp gagnasafni með efni úr starfi samtakanna og frá opinberum heimildum.

(Mynd fengin að lán frá PinkCakeBox.com)

 

back to top

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna