Menu
RSS

HH kæra velferðarráðuneytið öðru sinni til úrskurðarnefndar um upplýsingamál

Hagsmunasamtök heimilanna (HH) sendu þann 18. febrúar sl. erindi til Velferðarráðuneytisins þar sem óskað var eftir því að fá afhenta reglugerð þá sem ráðherra er skylt að setja skv. lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga (nr. 101/2010), þar sem lögunum til fyllingar skal nánar kveðið á um störf kærunefndar greiðsluaðlögunarmála. Skemmst er frá því að segja að engin svör hafa borist frá ráðuneytinu við fyrirspurninni og hafa HH því kært tafir og skort ráðuneytisins á svörum til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Samtökin telja ótvírætt að slík reglugerð hljóti að vera gagn sem skylt sé að veita almenningi aðgang að skv. upplýsingalögum, sé þess óskað.

Þess má geta að HH hafa áður, þann 17. janúar sl., kært á sama veg skort ráðuneytisins á svörum við sambærilegri fyrirspurn samtakanna frá nóvember 2012 sem var ítrekuð í desember, varðandi reglugerð um greiðsluaðlögun einstaklinga þar sem kveðið skal á um starfsemi umsjónarmanna og samræmda framkvæmd greiðsluaðlögunar, og sem tryggja skal samræmdar verklagsreglur hjá embætti Umboðsmanns skuldara (UMS) við afgreiðslu og framkvæmd greiðsluaðlögunar.

Þar sem þessar tvær umræddar reglugerðir liggja hvergi frammi að því er virðist, og hvorug þeirra hefur fengist afhent þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir, virðist sem allnokkur óvissa ríki um þær málsmeðferðarreglur sem unnið er eftir í greiðsluaðlögun og kærumeðferð slíkra mála. Kann það að gefa tilefni til að hafa áhyggjur af stjórnsýslulegu lögmæti framkvæmdar greiðsluaðlögunar í þeim málum sem þegar hafa verið afgreidd eða eru til meðferðar, hafi í reynd aldrei verið settar viðhlítandi reglur sem átt hafi að tryggja samræmda framkvæmd við meðferð þeirra. Slík staða kynni hugsanlega að þurfa að koma til skoðunar í ljósi jafnræðissjónarmiða stjórnsýsluréttar.

Hagsmunasamtök heimilanna munu koma á framfæri upplýsingum um framvindu eftirgrennslan um þær reglugerðir sem um ræður þegar að því kemur að þær liggi fyrir, en eðlilegur tími til slíkrar málsmeðferðar er allt að fimm vikur samkvæmt verklagsreglum úrskurðarnefndarinnar.

back to top

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna