Menu
RSS
Guðmundur Ásgeirsson

Guðmundur Ásgeirsson

Opnun neytendatorgs

Samtökin hafa nú opnað nýja vefsíðu - Neytendatorg Hagsmunasamtaka heimilanna. Stjórn samtakanna bindur vonir við að hún verði bæði félagsmönnum og íslenskum heimilum gagnleg upplýsingaveita um stöðu neytendamála á Íslandi og réttindi neytenda á fjármálamarkaði.

Á neytendatorgi er boðið upp á ráðgjöf fyrir heimilin um viðskipti sín á fjármálamarkaði í efnisflokknum: Ráðgjöf HH.

Sá efnisflokkur mun smám saman verða viðameiri en starfsfólk samtakanna mun efla ráðgjöfina á neytendatorgi og miðla þannig þekkingu af vettvangi HH með gagnlegum hætti til samfélagsins. Gamla vefsíðan (www.heimilin.is) verður áfram öllum opin, samhliða því að unnið verður að áframhaldandi þróun og uppbyggingu neytendatorgs. Síðast en ekki síst er Neytendatorg Hagsmunasamtaka heimilanna jafnframt vefsíða samtakanna og á henni verða upplýsingar um starfsemina og helstu baráttumál. Stefnt er að því að kynna verkefni samtakanna, jafn óðum eins og kostur er, en við minnum á að samtökin eru rekin af sjálfboðaliðum og tveimur starfsmönnum í hlutastarfi og tekur starfið allt mið af þessu. Vefsíðan er því þróunarverkefni á sviði neytendaverndar og framlag til umræðu um neytendamál á Íslandi sem við vonumst til að muni vaxa og dafna jafnt og þétt.

Tímamót í starfi samtakanna

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009, skömmu eftir gjaldþrot þriggja viðskiptabanka. Árið 2019 er því tíunda starfsár Hagsmunasamtaka heimilanna og var haldið upp á þau tímamót 7. október síðastliðinn, ásamt því að opna nýja vefsíðu samtakanna. Fyrrverandi stjórnarmönnum og öðrum velunnurum samtakanna var boðið. Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra, Ragnar Þór Ingólfson fyrrverandi stjórnarmaður í HH og formaður VR, Ásthildur Lóa Þórsdóttir formaður HH og Styrmir Gunnarsson fyrrverandi ritstjóri héldu ræður. Þessar ræður voru kröftugar og hvetjandi fyrir samtökin, því eins og formaður VR fjallaði um í sinni ræðu er neytendavernd á Íslandi eftirbátur hinna Norðurlandanna. Á Norðurlöndum eru bæði stéttarfélög og frjáls félagasamtök á neytendasviði öflugir málsvarar heimilanna. Endurnýjun hefur orðið í forystu íslenskra stéttarfélaga, en neytendarvernd á Íslandi hefur ekki enn slitið barnsskónum. Við vonum að neytendatorg verði mikilvægur hlekkur í umræðu um neytendavernd á Íslandi og framfararskref í þessum málaflokki.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, sýndi samtökunum þann heiður að opna Neytendatorg. Við það tilefni hvatti hann fulltrúa samtakanna að halda áfram að veita stjórnvöldum aðhald, það skipti máli.

Starf samtakanna er fjarri því að vera bundið við hrunið og afleiðingar þess. Samtökin spruttu fram á sjónarsviðið í tómarúmi, þar sem alger skortur var á neytendavernd. Þörf á aðhaldi og réttindabaráttu á fjármálamarkaði er ekki síður mikilvæg núna en fyrir tíu árum síðan.

Með kveðju,

Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna

Smellið hér til að heimsækja: NEYTENDATORG

Athugið að héðan í frá verður allt nýtt efni frá samtökunum birt á hinni nýju vefsíðu Neytendatorgs. Gamla vefsíðan verður varðveitt áfram og aðgengileg í gegnum tengil á Neytendatorgi svo hægt verði að nálgast eldra efni. Til lengra tíma er svo stefnt að því að eldra efni færist smám saman yfir í gagnasafn á nýju síðunni.

Dómsmálaráðherra þarf að draga dómara til ábyrgðar!

Dómur Héraðsdóms Reykjaness í máli Landsbankans gegn Silju Úlfarsdóttur er einungis sá nýjasti í langri röð dóma þar sem réttindi neytenda eru hreinlega svívirt af dómstólum.

Í máli Silju er staðfest að bankinn hafði sagt umrætt veðskuldabréf að fullu greitt árið 2015 og að því hafi í framhaldinu verið aflýst hjá sýslumanni.

Um þetta er ekki deilt og hjá sýslumanni er til ljósrit af skuldabréfinu með dagsetningu og stimpli
Landsbankans sem staðfestir að skuldin sé að fullu greidd.

Landsbankinn telur hins vegar að um “mistök” hafi verið að ræða án þess að geta skýrt þau nánar fyrir dómi og þrátt fyrir að hafa týnt frumriti bréfsins krefur hann Silju um greiðslu skuldar sem hann er búin að aflýsa á bréfi sem hann hefur týnt og getur því ekki framvísað.

Silja neitar að greiða enda benda öll gögn til þess að skuldin sé að fullu greidd og bankinn getur ekki einu sinni framvísað frumriti skuldabréfsins.

Þetta ætti að vera auðunnið mál fyrir Silju.

En ekki á Íslandi. Á Íslandi dæma dómarar nefnilega aldrei neytendum á fjármálamarkaði í vil. Á Íslandi líta dómarar bara til laga ef það hentar skjólstæðingum þeirra, bönkunum.

Frá hruni hafa mörg hundruð mál þar sem reynir á réttindi neytenda á fjármálamarkaði verið flutt fyrir íslenskum dómstólum. Því miður hafa íslenskir dómarar þó aðeins í undantekningartilfellum séð ástæðu til að dæma neytendum í hag í slíkum málum. Á undanförnum árum hafa tugþúsundir goldið fyrir það.

Það að Landsbankinn hafi yfirleitt reynt að sækja mál fyrir dómi á svo veikum grunni og raun ber vitni í umræddu máli, segir sína sögu:
#1 það er til ljósrit af skuldbréfinu stimplað og dagsett af Landsbankanum sem staðfestir að það sé fullgreitt.
#2 ljósritið er hjá sýslumanni sem hefur þegar aflýst skuldinni
#3 Landsbankinn hefur ekki frumritið

Landsbankinn hefur ENGAR sannanir fyrir því að lánið hafi ekki verið greitt en gögn varnaraðila um að það hafi verið greitt eru fjölmörg. Landsbankinn barmar sér yfir því að “mistök” hafi verið gerð og það er nóg fyrir dómstólana sem snúa sönnunarbyrðinni yfir á neytandann sem þegar hefur uppfyllt hana með óvéfengjanlegum hætti. Landsbankinn virðist hins vegar ekki þurfa neinar sannanir fyrir “mistökum” sínum og vinnur málið - enda virðast íslenskir dómstólar ganga út frá því að neytendum beri að greiða fyrir “mistök” banka.

Landsbankamenn vita að dómararnir eru með þeim í liði og munu færa þeim sigurinn með einum eða öðrum hætti. Þess vegna láta þeir reyna á “vonlaus” mál eins og þetta og “trú þeirra” á dómskerfið var enn og aftur staðfest í umræddu máli um leið og Silju var kastað fyrir úlfana.

Ef neytandi ætlar að sækja rétt sinn á Íslandi þarf hann að vera tilbúinn í langa, erfiða og vonlitla baráttu. Það er ekki nóg með að verulega halli á neytendur hvað varðar fjármagn og aðgengi að lögfræðiaðstoð, heldur þurfa þeir líka að mæta fyrir framan dómara sem hlusta í raun ekki á málflutning því þeir eru fyrirfram búnir að gera upp hug sinn. Þeir eru bara á sjálfstýringu að “stimpla mál” fyrir fjármálafyrirtækin.

Það er “tikkað í boxin” og sett upp leikrit til að geta sagt að neytandinn hafi hlotið réttláta dómsmeðferð, en það er ekkert réttlátt við meðferðina. Leikurinn er oft fyrirfram tapaður fyrir neytandann.

Við vitum um fjölmarga dóma þar sem réttindi neytenda hafa verið algjörlega fyrir borð borin og ekki stendur steinn yfir steini í rökstuðningi dómara fyrir niðurstöðu sinni. Það er eitt að tapa dómsmáli, en að tapa því á óréttmætum forsendum og án þess að fullnægjandi rök séu færð fyrir því, er allt annað mál. Hvert og eitt okkar á stjórnarskrárbundinn rétt á réttlátri málsmeðferð og það er stórmál og hreint og klárt mannréttindabrot að vera sviptur þeim rétti - ekki síst af dómstólunum sjálfum!

Hingað og ekki lengra! Það er kominn tími til að dómsmálaráðherra ákæri rangláta dómara og hreinsi til í dómskerfinu. Einhversstaðar þarf að byrja og þar sem margt af því versta sem neytendur hafa orðið fyrir kristallast í máli Silju, væri ágætt að byrja á Boga Hjálmtýssyni héraðsdómara.

Menn sem beita valdi sínu með þeim hætti sem hann gerir eiga ekki að geta setið í skjóli embættis síns og útdeilt ranglæti með þeim hætti sem var gert í umræddu máli.

Hagsmunasamtök heimilanna eru meðvituð um og viðurkenna þrískiptingu valdsins. Samkvæmt lögum eiga dómstólar að skera úr deilumálum og eiga síðasta orðið, en þá verða þeir líka að vera traustsins verðir og dæma eftir lögum. Íslenskir dómarar hafa fallið á svo mörgum prófum og í leiðinni valdið svo miklum skaða að ekki er lengur hægt að setja kíkinn fyrir blinda augað og láta sem ekkert sé.

Nú er mál að linni. Við bendum á að í 1. mgr. 130. gr. almennra hegningarlaga stendur:

“Ef handhafi dómsvalds eða annars opinbers úrskurðarvalds um lögskipti gerist sekur um ranglæti við úrlausn máls eða meðferð þess í því skyni, að niðurstaðan verði ranglát, þá skal hann sæta fangelsi allt að 6 árum.”

Dómstólar verða aldrei betri en dómararnir sem þá skipa og innan raða þeirra eru í dag fjölmörg skemmd epli sem hreinsa þarf burt áður en þau valda meiri skaða en orðið er.

Það er ekki nema um tvennt að ræða: Annað hvort eru íslenskir dómarar skelfilega illa að sér í lögum um réttindi neytenda eða þeir draga taum fjármálafyrirtækja og eru með þeim í liði. Vanhæfir eða spilltir, aðrir möguleikar eru ekki fyrir hendi og dæmin um löglausa dóma orðin of mörg til að framhjá þeim sé litið.

Hagsmunasamtök heimilinna hafa frá hruni barist fyrir réttindum neytenda á fjármálamarkaði og telja augljóst að uppræta þurfi spillinguna sem virðist þrífast meðal íslenskra dómara. Þau bjóða fram aðstoð sína og krefjast þess af dómsmálaráðherra að hún nýti sér valdheimildir sínar sem yfirmaður dómsmála á Íslandi til að taka í taumana.

Góð byrjun væri að ákæra Boga Hjálmtýsson héraðsdómara fyrir stórfelld afglöp í starfi og svipta hann embætti sínu, en það væri bara byrjunin. Hagsmunasamtökin geta bent dómsmálaráðherra á fjölmarga vafasama dóma þar sem brotið hefur verið á réttindum neytenda með grófum hætti.

Traust til dómstóla verður ekki endurreist á meðan dómarar virða hvorki lög né réttindi almennings.
Nú er mál að linni!

Hagsmunasamtök heimilanna munu jafnframt óska eftir fundi með dómsmálaráðherra til að fara yfir þessi mál og önnur sem snúa að meðferð málefna neytenda í réttarvörslukerfinu.

Almenningur er ekki fóður fyrir bankana.

Samþykktir HH frá 20. febrúar 2018

Eftirfarandi samþykktir voru samþykktar með breytingum á aðalfundi Hagsmunasamtaka heimilanna 27. apríl. 2010, 31. maí 2012, 15. maí 2014, 21. maí 2015, 30. maí 2017 og 20. febrúar 2018. Þær eiga rætur að rekja til stofnsamþykkta samtakanna frá 15. janúar 2009 með þeim breytingum sem samþykktar voru á aðalfundi 2009.

1. gr. Heiti, varnarþing og félagssvæði

  • Samtökin heita Hagsmunasamtök heimilanna, skammstafað HH.
  • Heimili samtakanna, skrifstofa og varnarþing er í Reykjavík.
  • Félagssvæði samtakanna nær til alls landsins.

2. gr. Forsendur

  • Samtökin eru frjáls og óháð stjórnmálaflokkum og öðrum hagsmunaaðilum.
  • Samtökin starfa á lýðræðislegum grunni með það að leiðarljósi að félagar hafi jafnan rétt til áhrifa.

3. gr. Tilgangur

  • Samtökin eru vettvangur fyrir fólkið í landinu til að verja og bæta hagsmuni heimilanna í landinu.
  • Samtökin eru málsvari og talsmaður félagsmanna í umræðu um hagsmuni heimilanna til skemmri og lengri tíma.

4. gr. Markmið

  • Markmið samtakanna er að beita sér fyrir lagabreytingum og / eða lagasetningum til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.
  • Markmið samtakanna er að stuðla að leiðréttingu veðlána heimilanna vegna forsendubrests, jafna ábyrgð milli lántaka og lánveitenda, bæta réttarstöðu neytenda í lánaviðskiptum og stuðla að réttlátum og sanngjörnum lánskjörum fyrir neytendur.
  • Markmið samtakanna er að efla vitund neytenda um réttarstöðu sína og samtakamátt.
  • Samtökin vinna að tilgangi sínum og markmiðum eftir öllum lögmætum leiðum og með réttmætum samtakamætti.

5. gr. Aðild og úrsögn

  • Aðild að samtökunum er einstaklingsbundin og miðast við að lágmarki 18 ára aldur.
  • Umsókn um aðild skal vera skrifleg, til dæmis með rafrænni skráningu á heimasíðu samtakanna, fyllt út á félagsfundi og/eða með öðrum skriflegum sannanlegum hætti. Sama á við um úrsögn úr samtökunum.

6. gr. Aðalfundur

  • Starfsár og reikningsár félagsins er almanaksárið.
  • Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum samtakanna. Aðalfund skal halda fyrir lok febrúarmánaðar ár hvert. Rétt til setu á aðalfundi eiga allir félagsmenn samtakanna. Boða skal til aðalfundar með tölvupósti og opinberri tilkynningu á heimasíðu samtakanna, www.heimilin.is, með minnst 14 daga fyrirvara. Fundargögn skulu vera aðgengileg félagsmönnum minnst 3 dögum fyrir fund. Stjórn er heimilt að verða við óskum félagsmanna um fundarboðun með pósti greiði viðkomandi félagsmaður sendingarkostnað sem hlýst af fundarboðun.
  • Framboð til stjórnar skal berast eigi síðar en 7 dögum fyrir aðalfund. Hafi ekki borist nægur fjöldi framboða innan þess frests skal fundarstjóri óska eftir framboðum á aðalfundi.

Dagskrá aðalfundar skal vera eftirfarandi:

  1. Skýrsla stjórnar
  2. Reikningar félagsins
  3. Lagabreytingar
  4. Kosning stjórnar
  5. Kosning varamanna
  6. Kosning skoðunarmanna
  7. Önnur mál
  • Aðalfundur telst löglegur sé rétt til hans boðað. Stjórn er heimilt að bjóða öðrum áheyrn með fundarsetu.
  • Á aðalfundi skal stjórn gefa skýrslu ársins um starf og árangur samtakanna.
  • Ársreikning skal staðfesta með áritun meirihluta aðalstjórnar að minnsta kosti. Formaður og gjaldkeri skulu ávallt staðfesta ársreikning með áritun sinni. Ársreikning skal leggja fyrir á aðalfundi.
  • Heimilt er að halda fundi með rafrænum hætti. Þá er heimilt að atkvæðagreiðsla fari fram með rafrænum hætti.
  • Stjórn er heimilt að boða til aukaaðalfundar ef fyrir liggja brýn málefni sem ekki geta beðið reglulegs aðalfundar, eða ef 20% félagsmanna fara fram á slíka boðun með tillögu um dagskrá.

7. gr. Almennir félagsfundir og vinnufundir

  • Félagsfundir skulu haldnir svo oft sem stjórn samtakanna telur ástæðu til. Boða skal til félagsfundar með að lágmarki þriggja daga fyrirvara.
  • Stjórn skal ætíð boða til félagsfundar innan 14 daga komi fram ósk um það frá meirihluta stjórnarmanna eða 20% félagsmanna.
  • Vinnufundir skulu kynntir á heimasíðu félagsins.

8. gr. Afgreiðsla mála

  • Á aðalfundum og öðrum félagsfundum ræður einfaldur meirihluti greiddra atkvæða nema annað sé tekið fram í samþykktum þessum. Komi fram ósk um skriflega atkvæðagreiðslu skal orðið við því.
  • Heimilt er að atkvæðagreiðsla fari fram með rafrænum hætti. Þá er heimilt að hafa opið fyrir atkvæðagreiðslu í allt að þrjá daga frá lokum fundar.
  • Heimilt er stjórn að efna til atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna um málefni án þess að fyrst hafi verið boðað til fundar nema samþykktir kveði á um annað.

9. gr. Stjórn

  • Stjórn samtakanna skal skipuð minnst 10 en mest 14 manns, þar af 7 aðalmönnum og 3-7 varamönnum, sem kosnir skulu á aðalfundi samtakanna. Stjórnin kýs sér formann, varaformann, ritara og gjaldkera á fyrsta stjórnarfundi að loknum aðalfundi. Firma félagsins ritar meirihluti stjórnar.
  • Stjórnarstörf eru ólaunuð, svo og þau verkefni sem stjórnarmenn taka að sér fyrir samtökin. Þó er heimilt að greiða fyrir útlagðan kostnað sem til fellur vegna rekstrar samtakanna.
  • Stjórnin skal koma saman til fundar að minnsta kosti mánaðarlega og skal hún halda fundargerðir. Að öðru leyti kveður stjórnarformaður stjórnina til fundar, þegar honum þykir þörf og skylt er honum að boða til fundar í stjórninni þegar tveir stjórnarmenn óska þess.
  • Stjórnarmenn skulu boða forföll, komist þeir ekki á stjórnarfund. Nú sækir aðalmaður ekki stjórnarfundi um tveggja mánaða skeið. Fyrirgerir hann sér þá sæti sínu í stjórn, nema um lögmæta ástæðu sé að ræða, tekur sæti síðasta manns í varastjórn og fyrsti varamaður tekur sæti í stjórn í hans stað.

10. gr. Verkefni stjórnar

  • Stjórn samtakanna fer með æðsta vald í málefnum þeirra milli aðalfunda. Hún undirbýr aðalfund og aðra félagsfundi. Formaður boðar til stjórnarfunda með sannanlegum hætti. Stjórnarfundir eru lögmætir ef mættur er meirihluti stjórnarmanna.
  • Við afgreiðslu mála á stjórnarfundum fer hver stjórnarmaður með eitt atkvæði og ræður einfaldur meirihluti atkvæða. Séu atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns fundarins. Varamaður hefur aðeins tillögurétt á stjórnarfundi nema hann leysi af stjórnarmann.
  • Stjórn semur stefnuskrá hvers starfsárs. Stjórn skal hafa yfirumsjón með daglegri starfsemi samtakanna eða ræður sérstakan aðila til þess og til sértækra verkefna.
  • Stjórn setur nefndum samtakanna reglur þar sem fram kemur hlutverk nefndanna.
  • Fastráðnir starfsmenn samtakanna skulu ekki samhliða gegna trúnaðarstörfum fyrir stjórnmálasamtök.
  • Í samþykktum þessum eru stjórnmálasamtök skilgreind sem flokkar eða samtök sem bjóða fram í kosningum til Alþingis eða sveitarstjórna. Trúnaðarstörf fyrir stjórnmálasamtök eru störf í stjórnum, ráðum og nefndum og önnur sambærileg störf á vegum eða í þágu stjórnmálasamtaka. Formlegir talsmenn stjórnmálasamtaka, frambjóðendur þeirra, starfsmenn og kjörnir fulltrúar teljast einnig gegna trúnaðarstörfum fyrir stjórnmálasamtök.

11. gr. Staðbundnar deildir og nefndir

  • Félagsmönnum er heimilt að stofna staðbundnar deildir sem starfa sjálfstætt á ákveðnum svæðum landsins, en þó eftir samþykktum og stefnuskrá samtakanna.
  • Innan samtakanna starfa málefnanefndir sem annast upplýsingaöflun, greiningu, úrvinnslu og málefnauppbyggingu einstakra málefna samkvæmt stefnuskrá.
  • Stjórn skipar formenn nefnda.
  • Stjórn hefur heimild til að skipta út formönnum nefnda ef þurfa þykir.
  • Aðeins félagsmenn geta verið nefndarmenn. Nefndarmönnum er þó heimilt að leita sér sérfræðiaðstoðar og álits utan samtakanna.
  • Nefndarstörf eru ólaunuð.

12. gr. Fjármál

  • Stjórn ber fram tillögur um félagsgjöld til samþykktar á aðalfundi.
  • Gjaldkera er heimilt með fyrirfram samþykki stjórnar að endurgreiða stjórnarmönnum eða nefndarmönnum sannanlega útlagðan kostnað vegna sérstakra verkefna í þágu félagsins.
  • Stjórn er heimilt að stofna til kostnaðar innan fjárhagsramma samtakanna vegna daglegs reksturs, fundahalda og aðkeyptrar sérfræðiaðstoðar.
  • Samtökunum er heimilt að taka við frjálsum fjárframlögum frá öðrum en stjórnmálaflokkum / hreyfingum og fjármálastofnunum. Fjárframlög veita fjárveitanda ekki rétt til ítaka eða áhrifa í samtökunum. Samtökunum er heimilt að sækja um styrki í opinbera sjóði.
  • Berist samtökunum frjáls fjárframlög er stjórn heimilt, innan fjárframlaga, að stofna til kostnaðar vegna húsnæðisleigu vegna aðalfunda og almennra félagsfunda og aðkeyptrar sérfræðiaðstoðar, þjónustu eða vöru.
  • Á aðalfundi skal kjósa tvo skoðunarmenn úr hópi félagsmanna.

13. gr. Breytingar

  • Samþykktum þessum verður ekki breytt nema breytingatillaga hafi verið rædd á aðalfundi og að minnsta kosti 2/3 fundarmanna séu samþykkir tillögunni. Fyrirhuguð breyting skal kynnt í fundarboði og liggja fyrir í fundargögnum.

14. gr. Slit

  • Samtökunum verður aðeins slitið með samþykki eftir umræðu á löglega boðuðum aðalfundi.
  • Geta skal sérstaklega tillögu um félagsslit í fundarboði. Tillagan telst samþykkt, ef 2/3 hlutar fullgildra félagsmanna eru á aðalfundi og 2/3 fundarmanna greiða tillögunni atkvæði sitt. Ef ekki eru nægilega margir félagsmenn á fundinum, skal boða til aukaaðalfundar innan mánaðar. Við boðun þess fundar skal þess sérstaklega getið, að fyrir fundinum muni liggja tillaga um félagsslit. Á aukaaðalfundi þarf tillagan stuðning 4/5 hluta atkvæðisbærra mættra félaga til að hljóta samþykki óháð mætingu.
  • Heimilt er að atkvæðagreiðsla fari fram með rafrænum hætti.
  • Verði samtökin lögð niður, skal eignum þeirra ráðstafað til líknarstarfa.


Athugasemdir:

Samþykktir þessar voru lagðar fyrir á stofnfundi Hagsmunasamtaka heimilanna þann 15. janúar 2009 og þar lagt í hendur stjórnar að útfæra frekar og þær samþykktar af stjórn þann 4. febrúar 2009. Á öðrum aðalfundi samtakanna, 27. apríl 2010 voru samþykktar breytingar á 4. grein (Markmið) og 6. grein (Aðalfundur). Á fjórða aðalfundi samtakanna 31. maí 2012 voru samþykktar breytingar á 9. grein (Stjórn) og 10. grein (Verkefni stjórnar). Á sjötta aðalfundi samtakanna 15. maí 2014 voru samþykktar breytingar á 9. grein (Stjórn). Á sjöunda aðalfundi samtakanna 21. maí 2015 var samþykkt að bæta nýrri málsgrein við 6. gr. (Aðalfundur). Á níunda aðalfundi samtakanna 30. maí 2017 var samþykkt breyting á 6. gr. (Aðalfundur). Á tíunda aðalfundi samtakanna 20. febrúar 2018 voru samþykktar breytingar á 9. grein (Stjórn). Samþykktirnar hafa verið uppfærðar til samræmis við þessar breytingar.

Þannig samþykkt á aðalfundi félagsins í Reykjavík, 20. febrúar 2018

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna