Menu
RSS

Opið bréf til forsætisráðherra um málflutning fyrir hönd ríkisstjórnarinnar í verðtryggingarmálum fyrir EFTA dómstólnum

Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna óskar eftir skýringum frá forsætisráðherra, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, varðandi afstöðu ríkisstjórnar Íslands í máli nr. E-27/13 sem nú er fyrir EFTA dómstólnum, þar sem tekist er á um hvort framkvæmd verðtryggingar samrýmist EES-tilskipunum. Í afstöðu sinni til málsins leggur ríkisstjórnin til að EFTA dómstóllinn komist að þeirri niðurstöðu að framkvæmd verðtryggingar samrýmist EES-tilskipunum. Einnig segir í greinargerðinni að verðtrygging gegni lykilhlutverki í íslensku efnahagslífi og skuli því gert ráð fyrir því að neytendur hér á landi skilji grundvallarþætti verðtryggðra lána. Þá lýsir ríkisstjórnin áhyggjum sínum af efnahagsáhrifum þess ef framkvæmd verðtryggingar reynist ekki samrýmast evrópskum tilskipunum sem innleiddar hafa verið í íslensk lög, einkum ef slík niðurstaða leiði af sér afturvirkar endurgreiðslur til neytenda.

Hagsmunasamtök heimilanna furða sig á þessum málflutningi fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, einkum í ljósi þeirra yfirlýsinga og loforða sem Framsóknarflokkurinn gaf frá sér fyrir síðustu alþingiskosningar um afnám verðtryggingar. Þá ættu hvorki EFTA dómstóllinn né íslenskir dómstólar að taka mið af þeirri óskhyggju ríkisstjórnarinnar að íslenskir neytendur skilji grundvallarþætti verðtryggðra lána, enda ekkert getið um það í evrópskum tilskipunum sem leidd hafa verið í íslensku lög að almennir neytendur skuli hafa skilning á þeim gríðarlega flóknu afleiðusamningum sem verðtryggðir lánasamningar í raun og veru eru. Einnig hlýtur það að teljast grafalvarlegt mál ef ríkisstjórnin hefur af því áhyggjur að neytendur fái greiddar til baka verðbætur sem ranglega hafa verið af þeim teknar, komist dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að framkvæmd verðtryggingar gangi gegn evrópskum tilskipunum um neytendavernd. Það eru afar sérkennileg skilaboð frá ríkisstjórn Íslands til EFTA dómstólsins að hann skuli haga áliti sínu neytendum í óhag til þess að forðast meint neikvæð áhrif á íslenskt efnahagslíf, enda geta niðurstöður dómstóla einmitt haft slíkar afleiðingar fyrir einstök aðildarríki í einhverjum tilfellum.

Hagsmunasamtök heimilanna óska því eftir svörum frá forsætisráðherra um það hvort sú afstaða sem málflytjendur setja fram endurspegli raunverulega afstöðu ríkisstjórnarinnar, og ekki síður Framsóknarflokksins, til þeirra ágreiningsefna er varða framkvæmd verðtryggðra lánveitinga til neytenda sem nú eru til úrlausnar fyrir EFTA dómstólnum.

Einnig vilja samtökin vekja athygli á því að tilgangur þess að ríkisstjórn aðildarríkis eigi aðild að máli sem þessu lýtur fyrst og fremst að hlutverki þess við framkvæmd EES-reglna og ætti aðkoma stjórnvalda því aðallega að snúast um að sjá til þess að niðurstöðu EFTA-dómsins verði í reynd fylgt hér á landi. Með afstöðu sinni tekur ríkisstjórnin hins vegar greinilega afstöðu með þeirri lánastofnun sem í hlut á, enda er íslenska ríkið alls ekki hlutlaus aðili í þessu máli þar sem það er aðaleigandi Landsbankans. Hér er því raunverulega um að ræða málsvörn fyrir stefnda í málinu, og hagmunaárekstur. Slík framganga í máli sem þessu fyrir erlendum dómstóli er ríkisstjórn Íslands ekki til sóma. Jafnframt er sú hætta fyrir hendi að íslenska ríkið geti talist bera ábyrgð á að hafa staðið rangt að innleiðingu á EES-reglum.

Loks er rétt að benda á að þann 27. febrúar sl. kvað Neytendastofa upp ákvörðun nr. 8/2014, um að sú háttsemi að undanskilja áhrif verðtryggingar frá útreikningi lánskostnaðar bryti gegn lögum um neytendalán. Það skýtur því skökku við að málflytjendur hafi haldið hinu gagnstæða fram fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands í máli fyrir EFTA-dómstólnum, og vekur upp spurningar um hvort þeim sé ekki kunnugt um að slík ákvörðun liggi nú þegar fyrir hjá þar til bæru stjórnvaldi hér á landi. Eða hafi jafnvel talið sér fært að líta framhjá þeirri ákvörðun?

Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna

Read more...

Skuldaleiðréttingatillögur stjórnvalda: Betur þarf ef duga skal til framtíðar

 

Það er mat stjórnar Hagsmunasamtaka heimilanna (HH) að aðgerðaáætlun um höfuðstólslækkun húsnæðislána sem kynnt var í Hörpunni hinn 30. nóvember síðastliðinn, feli í sér ágætar tillögur eins langt og þær ná, en að þær séu samt sem áður allt of léttvægar miðað við ástandið eins og það er orðið í dag. Rétt er að hafa í huga að tillögurnar eiga eftir að hljóta þinglega meðferð og samþykki, þar sem þær geta tekið talsverðum breytingum eða jafnvel verið synjað. Forskriftin að aðgerðaráætluninni var lögð fram með þingsályktunartillögu forsætisráðherra á sumarþinginu og skiluðu HH inn ítarlegri umsögn um hana. Hefði aðgerðaráætlunin litið dagsins ljós strax árið 2009 hefðu HH efalaust fagnað henni ákaft enda er hún mjög í samræmi við kröfur samtakanna á þeim tíma. Forsendurnar nú þegar fimm ár eru liðin frá hruni eru hins vegar talsvert breyttar og finnst okkur í HH tími til kominn að stjórnvöld horfist í augu við vandann í stað þess að setja sífellt fleiri plástra með fallegum myndum á svöðusárin.

Gangi boðuð aðgerðaáætlun eftir mun það vissulega gagnast einhverjum hluta heimila landsins. Þrýstingur á ríkisstjórnina um að setja fram einhverja áætlun var vissulega mikill í ljósi þeirra loforða sem gefin voru í kosningabaráttunni síðasta vor. Það er hins vegar ekki nóg að gera “bara eitthvað”. Talsverð óvissa er uppi um lögmæti útfærslu verðtryggingar á neytendalánum og fyrir dómstólum eru nokkur mál vegna þessa. Meðal annars er mál að tilstuðlan HH og félagsmanna í samtökunum þar sem byggt er á því að útfærsla og framkvæmd verðtryggingar á neytendalánum hafi verið ólögmæt allt frá árinu 2001. Þetta þykir sumum kannski fjarstæðukennt en í því samhengi má minna á að samtökin höfðu rétt fyrir sér um ólögmæti gengistryggðra lána.

Aðgerðir til skuldalækkana áður en útkljáð hefur verið fyrir dómstólum hvort að verðtrygging hafi verið löglega framkvæmd geta reynst samfélaginu öllu mjög dýrkeyptar. Mikilvægt er að uppgjöri þrotabúa föllnu bankanna og afléttingu gjaldeyrishafta verði ekki lokið fyrr en álitamál um lögmæti samninga í lánasöfnum nýrra fjármálafyrirtækja í eigu þeirra, hafa verið útkljáð. Áður en það hefur verið gert er jafnframt varhugavert að leggja áhættu af því á herðar ríkissjóðs.

Þá vilja samtökin gagnrýna að ekki séu í aðgerðaáætlunni nein úrræði til að verja heimilin gegn óréttmætum nauðungarsölum án undangenginna dómsúrskurða, í það minnsta þar til boðaðar skuldaleiðréttingar komi til framkvæmda, sem getur verið eftir allt að 6 mánuði samkvæmt áætluninni. Ekki síst í ljósi þess að miðað við fram komnar tillögur um skuldaleiðréttingu er ljóst að þær kröfur sem hafðar eru í frammi við slíkar fullnustugerðir eru oftar en ekki á órökréttum grunni reistar. Leiða má líkur að því að í mjög mörgum tilvikum hefði heimilismissir verið óþarfur fyrir þær fjölskyldur sem í hlut eiga fyrir utan það tilfinningalega og sálræna álag sem það veldur fjölskyldum að þurfa að eiga á hættu að missa heimili sín, á meðan beðið er boðaðra aðgerða.

Í þessu sambandi má minna á að haft var eftir Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra á RÚV hinn 11. nóvember að hún mundi skoða að stöðva nauðungarsölur á heimilum fólks og það yrði að fara saman við þær tillögur sem lúta að skuldamálum sem lagðar yrðu fram í lok nóvember. Nú bólar hinsvegar ekkert á efndum heldur er í raun gefið í og áfram veitt veiðileyfi á heimilin næstu 6 mánuði á meðan unnið verði að nánari útfærslu aðgerðaráætlunarinnar.

Read more...

100 DAGA AFMÆLI RÍKISSTJÓRNARINNAR

Í dag eru liðnir 100 dagar frá því að ný ríkisstjórn tók við stjórnartaumum án þess að nokkuð áþreifanlegt hafi komið fram til varnar heimilum og fjölskyldum landsins. Tillögur hafa verið lagðar fram og einhver mál eru í vinnslu með tímamörkum fram á veturinn. Nóg var um loforð og fögur fyrirheit í kosningarbaráttunni þar sem fólki var gefin sú von sem það sannanlega þurfti á að halda. Nú er sú von að deyja. Til að fólk fái aftur trú á að eitthvað eigi að gera fyrir fjölskyldur og heimili landsins og öðlist þá von sem er okkur svo nauðsynleg þarf þingheimur allur og ríkisstjórn að taka höndum saman um að framkvæma eftirfarandi STRAX.

Hagsmunasamtök heimilanna krefjast þess að stjórnvöld stöðvi nauðungarsölur og gjaldþrot einstaklinga á meðan beðið er boðaðra aðgerða ríkisstjórnarinnar. Ekkert vit er í því að leyfa fjármálafyrirtækjunum að gera fólk gjaldþrota og henda fjölskyldum út af heimilum sínum á sama tíma og ríkisstjórnin boðar skuldaleiðréttingu og úrræði sem koma eiga í veg fyrir að slíkt þurfi að gerast. Samkvæmt núgildandi lögum er ekki hægt að taka til baka nauðungarsölur, gjaldþrot og sölu á veðhafafundi sem þegar hafa farið fram.    

Einnig krefjast Hagsmunasamtök heimilanna þess að þeim einstaklingum sem þegar hafa verið gerðir gjaldþrota, eign fjölskyldunnar seld á nauðungarsölu eða á veðhafafundi hjá skiptastjóra á grundvelli ólöglegra lána, verði gert kleift með lagasetningu að fá fjárræði sitt og heimili til baka, annað er skýlaust mannréttindabrot. Núverandi lög gera ekki ráð fyrir að þetta sé hægt og allar tilraunir til að bæta þar úr hafa verið árangurslausar hingað til, og veldur það mörgum fjölskyldum mikilli sálarangist. 

Einnig krefjast Hagsmunasamtök heimilanna þess að stjórnvöld stöðvi Umboðsmann skuldara strax í því að henda fjölskyldum út af heimilum sínum á grundvelli ólöglegra lána, eða á grundveli þess að fólkið hafi ekki staðið við skilmála sem voru þannig uppsettir af fjármálafyrirtækjunum að ekki var hægt að standa við þá frá upphafi. Umboðsmaður skuldara er stofnun sem ekki vinnur eftir þeim lögum og reglugerðum sem um hana hafa verið settar. Auk þess er nafn stofnunarinnar rangnefni, réttara væri að kalla stofnunina Umboðsmann fjármálafyrirtækjanna.

Þetta er það sem Hagsmunasamtök heimilanna setja í forgang í tilefni 100 daga afmælis ríkisstjórnarinnar. Ef næstu 100 dagar verða með sama sniði má búast við að dagar þessarar ríkisstjórnar séu taldir.

Read more...

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna