Menu
RSS

Úrskurðarnefnd lögmanna telur innheimtuhætti vegna smálána aðfinnsluverða

Hagsmunasamtök heimilanna vekja athygli á nýlegum úrskurði úrskurðarnefndar lögmanna í máli nr. 3/2019.

Úrskurðarnefndin komst að þeirri niðurstöðu að háttsemi Almennrar innheimtu ehf. við innheimtu vegna smáláns væri aðfinnsluverð, en fyrirtækið byggir starfsheimildir sínar á lögmannsréttindum Gísla Kr. Björnssonar, forsvarsmanns þess, sem fellur undir eftirlit Lögmannafélags Íslands.

Málið á rætur að rekja til smáláns sem var tekið hjá fyrirtækinu Múla árið 2013 og endurgreitt síðar sama ár, eða svo taldi neytandinn. Honum byrjuðu svo í desember 2018 að berast fjöldi auglýsinga með SMS skilaboðum frá Múla, sem er nú rekið af fyrirtækinu Ecommerce2020 í Danmörku. Hann hafði því samband við fyrirtækið og bað um að vera afskráður úr kerfum þess, en fékk þau svör að það væri ekki hægt þar sem í kerfinu væri skráð lán sem ekki hefði fengist greitt. Þessu mótmælti neytandinn og sagðist ekki skulda fyrirtækinu neitt.

Smálánafyrirtækið brást við þessu með því að “bjóða” neytandanum að “greiða aðeins höfuðstólinn til baka”. Samdægurs var stofnuð krafa í heimabanka hans, í nafni Almennrar innheimtu ehf., fyrir meintum höfuðstól lánsins auk dráttarvaxta og annars kostnaðar. Með fylgdi sú skýring að krafan væri samkvæmt “greiðslusamkomulagi” þrátt fyrir að ekkert slíkt samkomulag hefði verið gert.

Þessa háttsemi taldi úrskurðarnefndin aðfinnsluverða. Sú niðurstaða hefur þó að svo stöddu engar frekari afleiðingar í för með sér fyrir hið brotlega fyrirtæki eða forsvarsmenn þess, sem er mjög lýsandi fyrir erfiða stöðu neytenda á fjármálamarkaði. Neytendur í þessum sporum eiga oft mjög erfitt með að leita réttar síns en jafnvel þá eru afleiðingarnar litlar og ekki gripið til neinna aðgerða til að hindra áframhaldandi brot gegn öðrum neytendum í sambærilegri stöðu.

Hagsmunasamtök heimilanna hvetja til þess að innheimtulög verði endurskoðuð og þeim breytt þannig að starfsemi innheimtufyrirtækja verði gerð leyfisskyld í öllum tilvikum, burtséð frá því hvort eigendur þeirra séu lögmenn eða ekki.

Fjármálastarfsemi af þessum toga verður að lúta opinberu eftirliti og nauðsynlegt er að brot gegn réttindum neytenda á fjármálamarkaði hafi einhverjar afleiðingar fyrir brotlega aðila. Jafnframt er nauðsynlegt að eignarhald slíkra fyrirtækja verði rannsakað með tilliti til leyfisskyldu, þar á meðal hverjir séu raunverulegir eigendur þeirra með hliðsjón af lögum um varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, enda verður slík starfsemi að standast ítrustu kröfur þar að lútandi.

Read more...

HH senda Umboðsmanni Alþingis ábendingar vegna ESÍ og Dróma

Hagsmunasamtök heimilanna hafa sent Umboðsmanni Alþingis ábendingar vegna starfsemi Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf. (ESÍ), dótturfélags þess Hildu ehf. og samvinnu þeirra við Dróma hf. Samtökin sendu umboðsmanni ábendingar sínar skömmu fyrir jól, í tilefni af rannsókn embættisins á lagagrundvelli fyrir flutningi verkefna Seðlabanka Íslands í einkahlutafélög.

Meðal þess sem bent er á í erindi samtakanna er að auk þeirra félaga sem getið var um í bréfi umboðsmanns frá október síðastliðnum, eigi þau jafnframt fleiri dótturfélög, þar á meðal Hildu ehf., sem hafi stundað innheimtu lánasafna fyrir hönd Seðlabanka Íslands hjá heimilum og fyrirtækjum sem voru viðskiptavinir fallinna fjármálafyrirtækja. Jafnframt hafi Seðlabankinn og Hilda ehf. veitt Dróma hf. umboð til umsýslu og innheimtu viðkomandi lánasafna fyrir sína hönd, þrátt fyrir að það fyrirtæki hefði engar lögboðnar heimildir til að stunda slíka innheimtu fyrir aðra.

Í þessu samhengi er vakin athygli á því að október 2013 komst Fjármálaeftirlitið að sömu niðurstöðu, og sektaði Dróma fyrir að hafa stundað innheimtu fyrir aðra án innheimtuleyfis. Kom fram í þeirri ákvörðun að innheimtan hefði síðar færst yfir til Arion banka, en ekki hafa komið opinberlega fram neinar skýringar á forsendum þeirrar ráðstöfunar eða hvernig um hana hafi verið samið.

Einnig er rakið í erindinu hvernig Fjármálaeftirlitið (FME) mælti fyrir um stofnun Dróma hf. án þess að veitt hefði verið nein heimild til stofnunar slíks fyrirtækis í hinum svokölluðu neyðarlögum sem sett voru vegna fjármálahrunsins árið 2008. Vakin er athygli á því að Drómi er skráð sem eignarhaldsfélag en hefur aldrei haft starfsleyfi, hvorki sem fjármálafyrirtæki né sjálfstæður innheimtuaðili.

Samtökin gera jafnframt alvarlegar athugasemdir við sinnuleysi Fjármálaeftirlitsins gagnvart þeim langvarandi og stórfelldu lögbrotum sem framin hafa verið af hálfu Dróma og á ábyrgð slitastjórnar SPRON. Í því samhengi er bent á að óeðlileg tengsl kunni að hafa myndast milli þessara aðila þegar fyrrum sviðsstjóri hjá FME var skipaður formaður slitastjórnar SPRON og stjórnarformaður Dróma.

Með erindi samtakanna til umboðsmanns fylgja ýmis gögn sem eru opinberlega aðgengileg eða hafa borist frá félagsmönnum, og styðja þær athugasemdir sem koma fram í erindinu. Þar á meðal er rannsóknarskýrsla um starfsemi Dróma sem samtökin tóku saman og gáfu út í nóvember 2013, en í henni er nánar gerð grein fyrir þeim atriðum sem athugasemdirnar beinast að, ásamt miklum fjölda tilvísana á opinberar heimildir og umfjöllun um málefni sem tengjast þeirri starfsemi.

Hagsmunasamtök heimilanna vonast til þess að birting þeirra upplýsinga sem þau hafa safnað saman og ábendingar á grundvelli þeirra til Umboðsmanns Alþingis, verði til þess að knýja enn frekar á um að ráðist verði í opinbera rannsókn á starfsemi þeirra fyrirtækja sem urðu til í kjölfar bankahrunsins en opinberar rannsóknarnefndir hafa hingað til aðeins rannsakað atburði sem gerðust fyrir þann tíma. Að sama skapi er brýnt að einkavæðing bankanna árið 2009 hljóti sambærilega rannsókn.

Hér má nálgast rannsóknarskýrslu HH um starfsemi Dróma hf.:

Read more...

Hagsmunasamtök heimilanna gagnrýna herta inneimtuhætti Íbúðalánasjóðs

Hagsmunasamtök heimilanna hafa sent Íbúðalánasjóði svohljóðandi bréf:

Hagsmunasamtök heimilanna gagnrýna harðlega hertar innheimtuaðgerðir Íbúðalánasjóðs sem hafa verið birtar lántakendum að undanförnu án nokkurs fyrirvara. Á seinni hluta árs 2008, í kjölfar bankahrunsins, voru innheimtuaðgerðir Íbúðalánasjóðs mildaðar með tilliti til efnhagsástandsins. Frestur frá gjalddaga til sendingar greiðsluáskorunar var rýmkaður í fjóra til fjóra og hálfan mánuð frá elsta ógreidda gjalddaga í stað tveggja til tveggja og hálfs mánaðar áður. Þá var heimilað að afturkalla nauðungarsölu gegn greiðslu þriðjungs vanskila í stað helmings vanskila áður.

Að undanförnu hafa lántakendum í vanskilum borist greiðsluáskoranir þar sem þeim er tilkynnt að verði láni þeirra ekki komið í skil innan 15 daga verði farið með eignir þeirra í nauðungarsöluferli. Þegar þeir hafa verið inntir eftir skýringum á þessu hafa starfsmenn ÍLS gefið þær upplýsingar að á vormánuðum hafi reglur sjóðsins um innheimtuaðgerðir verið hertar.

Þegar leitað er eftir upplýsingum á heimasíðu Íbúðalánasjóðs um innheimtuferli og reglur um afturköllun nauðungarsölubeiðna má sjá að að tilslakanir frá árinu 2008 hafa nú verið færðar í fyrra horf. Hins vegar er engar tilkynningar að finna á heimasíðunni um hertar innheimtuaðgerðir og ekki er vitað til þess að lántakendum í vanskilum hafið verið tilkynnt um þær bréfleiðis eða með öðrum sannanlegum hætti. Þrátt fyrir að hér sé um að ræða aðgerðir þar sem Íbúðalánasjóður dregur til baka fyrri tilslakanir í innheimtuaðgerðum telja Hagsmunasamtök heimilanna það vera dæmi um afleita viðskiptahætti að gera slíka breytingu fyrirvaralaust og án nokkurrar viðvörunar.

Jafnframt er tímasetningin afar slæm þar sem breyting á reglum Íbúðalánasjóðs um afturköllun nauðungarsölu mun hafa verulega íþyngjandi áhrif fyrir þá fjölmörgu sem standa munu frammi fyrir nauðungarsölum eftir 1. september. Verði ekkert að gert fellur þá úr gildi bráðabirgðarákvæði við lög um nauðungarsölu nr. 90/1991 sem kveður á um tímabundna frestun á nauðungarsölum og framlengingu á samþykkisfresti, fram yfir 1. september 2014.

Hagsmunasamtökum heimilanna þykja það hörkulegar aðfarir af hálfu Íbúðalánasjóðs að gjaldfella lán að fullu og hóta nauðungarsölu án þess að veita lántakendum vitneskju og tíma til að bregðast við breyttum innheimtuháttum. Samtökin hvetja Íbúðalánasjóð til að falla frá slíkri framkomu gagnvart viðskiptavinum sínum. Það hlýtur að teljast sanngjörn og eðlileg krafa að sjóðurinn geri lántakendum aðvart um slíkar breytingar bréfleiðis með hæfilegum fyrirvara auk þess að birta tilkynningar um þær á vefsíðu sinni, í samræmi við góða viðskiptahætti.

Read more...

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna