Error
  • JUser: :_load: Unable to load user with ID: 689
Menu
RSS

Neytendaréttur og ólöglegar vaxtabreytingar

Hagsmunasamtök heimilanna vekja athygli á:

ákvörðun Neytendastofu um ólöglegar vaxtabreytingar
stuðningi samtakanna við aðgerðir formanns VR vegna Lífeyrissjóðs Verzlunarmanna
ólöglegum lánaskilmálum og vaxtabreytingum Lífeyrissjóðs Verzlunarmanna
kvörtun Hagsmunasamtakanna til Neytendastofu vegna Lífeyrissjóðs Verzlunarmanna
erindi Hagsmunasamtakanna til Fjármálaeftirlitsins vegna ákvörðunar Neytendastofu

Ákvörðun Neytendastofu um ólöglegar vaxtabreytingar

Hagsmunasamtök heimilanna vilja vekja athygli á að Neytendastofa úrskurðaði nýlega að lánaskilmálar í lánum Frjálsa fjárfestingarbankans (nú Arion banka) væru ólöglegir. Þessir skilmálar áskilja lánveitanda einhliða heimild til geðþóttaákvarðana um vaxtabreytingar en slík ákvæði eru skýrt brot á neytendarétti eins og Neytendastofa staðfesti með ákvörðun sinni.

Nú ættu neytendur að geta fagnað og treyst því að bankar þurfi að leiðrétta ólöglegar aðgerðir sínar og að það muni gerast sjálfkrafa. Ekki væri heldur óeðlilegt að vænta þess að þeir þyrftu að bæta þann skaða sem hlotist hefði að ólöglegum aðgerðum þeirra, svona eins og gengur og gerist í siðmenntuðum réttarríkjum.

En það er því miður ekki svo á Íslandi. Engar leiðréttingar munu eiga sér stað nema lánþegar sæki þær sjálfir, jafnvel í gegnum dómstóla. Það fellur nefnilega utan valdsviðs Neytendastofu að skera úr um einstakar uppgjörskröfur, þannig að í stað þess að neytendur njóti vafans þá er hann, eins og alltaf, metinn bankanum í vil. Bankinn fær þannig að halda áfram lögbrotum sínum nema lánþeginn átti sig á brotunum og leiti réttar síns. En sé bankinn ekki tilbúin til samninga þarf hver og einn að draga hann fyrir dómstóla með tilheyrandi kostnaði og fyrirhöfn. Þetta er víst kallað að leita réttar síns á “jafnræðisgrundvelli”.

Hagsmunasamtök heimilanna hvetja lántakendur til að leita réttar síns. Nánari upplýsingum, leiðbeiningum og aðstoð má óska eftir með tölvupósti á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..">This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..

Hagsmunasamtök heimilanna styðja forystu VR

Hagsmunasamtök heimilanna lýsa yfir fullum stuðningi við forystu VR og formann þess Ragnar Þór Ingólfsson í aðgerðum þeirra vegna vaxtahækkana stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, sem ganga þvert gegn hagsmunum neytenda og munu hækka kostnað hlutaðeigandi heimila umtalsvert, eða um 2.000 krónur af hverri milljón fyrir utan verðbætur.

Hagsmunasamtökin fagna því að verkalýðsforystan sé loksins farin að standa í fæturna og taka undir þá sjálfsögðu kröfu að lífeyrissjóðirnir starfi með hag almennings (allra sjóðsfélaga) að leiðarljósi og taki hag þeirra fram yfir þá taumlausu græðgi og siðleysi sem þessi þjónkun sjóðsins við fjármálakerfið ber með sér.

Lánaskilmálar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna ólöglegir

Það er ekki nóg með að boðuð vaxtahækkun Lífeyrissjóðs verzlunarmanna brjóti í bága við nýgerða lífskjarasamninga eins og formaður VR hefur bent á, heldur brjóta skilmálar lánasamninga lífeyrissjóðsins hreinlega í bága við lög að mati Hagsmunasamtaka heimilanna.
 
Samkvæmt 34. gr. laga um fasteignalán til neytenda nr. 118/2016 verður að koma fram í samningi um lán með breytilegum vöxtum, hvaða viðmiðum breytingarnar taki mið af eða hvaða skilyrði séu fyrir vaxtabreytingum. Lánveitanda er því óheimilt að ákveða einhliða af geðþótta að breyta slíkum skilmálum eða viðmiði vaxta eftir að lánssamningur er gerður.
 
Í skilmálum lána Lífeyrissjóðs verzlunarmanna með breytilegum vöxtum áskilur stjórn sjóðsins sér ekki aðeins rétt til að breyta vöxtum að eigin geðþótta heldur er beinlínis gert ráð fyrir því að stjórnin geti einhliða skipt um vaxtaviðmið og tekið upp önnur viðmið en þau sem hefur verið samið um.
 
Hagsmunasamtök heimilanna telja slíka skilmála ekki aðeins ósanngjarna heldur einnig ólögmæta og óskuldbindandi.

Kvörtun til Neytendastofu vegna Lífeyrissjóðs verzlunarmanna

Hagsmunasamtök heimilanna hafa sent kvörtun til Neytendastofu vegna skilmála Lífeyrissjóðs verzlunarmanna og einhliða breytingar á viðmiði breytilegra vaxta.

Af yfirlýsingum stjórnar sjóðsins hefur mátt ráða að nýboðuð vaxtahækkun hafi ekki einungis átt að ná til nýrra lána, heldur eigi hún að hafa áhrif á 3.700 útistandandi lán neytenda sem gátu engan veginn gert sér í hugarlund að síðar kynni lánveitandinn að ákveða einhliða að skipta í einni svipan um vaxtaviðmiðun. Aukin kostnaður þessara 3.700 heimila mun hlaupa á hundruðum milljóna króna auk þess sem ofan á það munu leggjast verðbætur.

Hagsmunasamtök heimilanna telja að ákvörðun sjóðsins um breytingu vaxtaviðmiða feli í sér óréttmæta viðskiptahætti og samræmist ekki ákvæðum laga um fasteignalán til neytenda. Samtökin fara þess því á leit við Neytendastofu að hún taki þessi álitaefni til meðferðar og veiti þeim úrlausn með rökstuddri ákvörðun.

Erindi til Fjármálaeftirlitsins vegna ákvörðunar Neytendastofu

Hagsmunasamtökin hafa einnig sent erindi til Fjármálaeftirlitsins þar sem stofnunin er minnt á að í verkahring hennar sé að fylgja eftir niðurstöðum dómstóla. Hagsmunasamtök heimilanna telja það sama hljóta að gilda um niðurstöður eftirlitsstjórnvalda og beina því þess vegna til Fjármálaeftirlitsins að fylgja eftir ákvörðun Neytendastofu nr. 27/2019 með því að sjá til þess að Arion banki leiðrétti vexti allra lána með hinum ólöglegu skilmálum og endurgreiði hlutaðeigandi neytendum oftekna vexti með vaxtavöxtum.


 

Meðfylgjandi er afrit af erindi Hagsmunasamtakanna til Fjármálaeftirlitsins.

Erindi vegna ólöglegra skilmála um breytilega vexti

Í tilefni frétta um að Fjármálaeftirlitið hafi til skoðunar málefni Lífeyrissjóðs verzlunarmanna vilja Hagsmunasamtök heimilanna minna á þær kröfur sem gerðar eru samkvæmt lögum til starfsemi lánveitenda.

Hlutverk lífeyrissjóða lýtur að móttöku, varðveislu og ávöxtun iðgjalda til greiðslu lífeyris. Til að ávaxta fjármuni sjóðfélaga geta þeir meðal annars veitt fasteignalán til neytenda sem endurgreiðast með vöxtum samkvæmt umsömdum kjörum. Samkvæmt 34. gr. laga um fasteignalán til neytenda nr. 118/2016 verður að koma fram í samningi um lán með breytilegum vöxtum, hvaða viðmiðum þeir taki mið af eða hvaða skilyrði séu fyrir breytingum á þeim. Lánveitanda er því óheimilt að ákveða einhliða af geðþótta að breyta slíkum skilmálum eða viðmiði vaxta eftir að lánssamningur er gerður.

Komið hefur í ljós að í skilmálum lána Lífeyrissjóðs verzlunarmanna með breytilegum vöxtum áskilur stjórn sjóðsins sér ekki aðeins rétt til að breyta vöxtum að eigin geðþótta heldur er beinlínis gert ráð fyrir því að stjórnin geti einhliða skipt um vaxtaviðmið og tekið upp önnur viðmið en þau sem var samið um. Slíkir skilmálar eru ekki aðeins ósanngjarnir heldur ólögmætir og óskuldbindandi. Hætta er á því að sjóðfélagar verði fyrir tjóni fari sjóðurinn á mis við vænta ávöxtun af eignum sínum.

Samkvæmt 4. mgr. 44. gr. laga nr. 129/1997 skal Fjármálaeftirlitið hafa eftirlit með því hvort starfsemi lífeyrissjóðs sé að einhverju leyti óeðlileg, óheilbrigð eða ótraust. Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. laga um fasteignalán til neytenda nr. 118/2016 hefur Neytendastofa hins vegar eftirlit með því að ákvæðum þeirra laga sé fylgt. Hagsmunasamtök heimilanna hafa því ákveðið að beina kvörtun til Neytendastofu yfir skilmálum Lífeyrissjóðs verslunarmanna og einhliða breytingum á vaxtaviðmiði.

Neytendastofa hefur ítrekað staðfest með ákvörðunum sínum að skilmálar sem áskilja lánveitanda einhliða rétt til geðþóttaákvarðana um vaxtabreytingar séu ólöglegir, nú síðast í liðinni viku þegar birt var ákvörðun þess efnis að slíkir skilmálar í lánum Frjálsa fjárfestingarbankans sem nú tilheyra Arion banka, væru sama marki brenndir. Samkvæmt ákvörðuninni fellur þó utan valdsviðs Neytendastofu að skera úr um uppgjörskröfur einstaklinga vegna ofgreiddra vaxta og þarf því hver og einn að sækja rétt sinn sérstaklega, sem er óásættanlegt að mati Hagsmunasamtaka heimilanna.

Samkvæmt upplýsingum frá Fjármálaeftirlitinu sem komu fram í svari fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn um eftirlit stofnunarinnar (þskj. 687 - 148. löggj.) er meðal annars í verkahring hennar að fylgja eftir niðurstöðum dómstóla. Hagsmunasamtök heimilanna telja það sama hljóta að gilda um niðurstöður eftirlitsstjórnvalda og beina því þess vegna til Fjármálaeftirlitsins að fylgja eftir ákvörðun Neytendastofu nr. 27/2019 með því að sjá til þess að Arion banki leiðrétti vexti allra lána með hinum ólöglegu skilmálum og endurgreiði hlutaðeigandi neytendum oftekna vexti með vaxtavöxtum.

Read more...

Upplýsingaskyldan margbrotin - Enn og aftur brjóta lánveitendur gegn lögum um neytendalán!

Neytendastofa tekur undir kvörtun Hagsmunasamtaka heimilanna yfir brotum Brúar lífeyrissjóðs gegn lögum um neytendalán!

Síðla árs 2016 sendu Hagsmunasamtök heimilanna kvörtun til Neytendastofu um að misbrestur væri á því að árleg hlutfallstala kostnaðar væri birt neytendum hjá Brú Lífeyrissjóði, sem jafngildir því að dylja raunverulegan kostnað lána fyrir þeim. Brú Lífeyrissjóður er fjarri því að vera einsdæmi, hvað  þennan misbrest varðar sem er fátt annað en hunsun fjármálafyrirtækja á lögum um neytendalán og upplýsingaskyldu lánveitenda. Það er gríðarlegt hagsmunamál fyrir neytendur að allar forsendur láns séu uppi á borðum til að dulinn kostnaður komi ekki í bakið á þeim eftir að skrifað hefur verið undir.  
 
Það er skemmst frá því að segja að Neytendastofa féllst á kvörtun Hagsmunasamtaka heimilanna í öllum atriðum og staðfesti að lögum samkvæmt eiga lánveitendur að veita neytendum upplýsingar um árlega hlutfallstölu kostnaðar í auglýsingum sínum og öðru kynningarefni.

Hagsmunasamtök heimilanna hafa margoft bent á að eftirlitsaðilar hafi ekki sinnt því lögboðna hlutverki sínu að vernda hagsmuni neytenda gagnvart fjármálafyrirtækjum, með fullnægjandi hætti. Alvarlegasta dæmið um slíkt eru gengistryggð lán sem veitt voru í tugþúsunda tali án athugasemda frá Fjármálaeftirlitinu, Seðlabanka Íslands, ráðherrum, alþingismönnum eða nokkrum öðrum. Þrátt fyrir að slík lán væru ólögmæt og eftirlitið hefði brugðist, voru neytendur einir látnir greiða ígildi skaðabóta til lánveitenda því vextir voru hækkaðir með handafli frá hinu opinbera.

Nánar um ákvörðun Neytendastofu og kvörtun Hagsmunasamtaka heimilanna

Neytendastofa hefur birt ákvörðun nr. 55/2017 í kvörtunarmáli Hagsmunasamtaka heimilanna gegn Brú lífeyrissjóði. Tilefni kvörtunarinnar var að í auglýsingum og kynningarefni á vefsíðu Brúar komu hvorki fram fullnægjandi upplýsingar um lántökukostnað né um þau réttarúrræði sem neytendur geta nýtt sér ef ágreiningur kemur upp við lánveitanda. Neytendastofa féllst á kvörtunina að öllu leyti og tók fram í ákvörðun sinni að sú ófullnægjandi upplýsingagjöf sem kvartað var yfir, bryti í bága við lög um neytendalán og lög um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.

Samkvæmt 6. gr. laga um neytendalán nr. 33/2013 eiga auglýsingar þar sem koma fram upplýsingar um vexti eða annan lánskostnað jafnframt að bera með sér lýsandi dæmi um heildarkostnað og árlega hlutfallstölu kostnaðar. Samkvæmt ákvörðun Neytendastofu er ekki nægilegt að vísa til þess í auglýsingum að nánari upplýsingar megi finna á vefsíðu lánveitanda, heldur verða þær upplýsingar sem koma fram í auglýsingunum sjálfum að uppfylla þessi skilyrði. Með því að brjóta gegn þeirri upplýsingaskyldu var talið að Brú hefði jafnframt sýnt af sér óréttmæta viðskiptahætti í andstöðu við ákvæði laga nr. 57/2005, um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.

Samkvæmt 1. mgr. 33. gr. laga um neytendalán nr. 33/2013 skulu lánveitendur hafa aðgengilegar upplýsingar um úrskurðar- og réttarúrræði ef ágreiningur rís milli lánveitanda og neytanda um neytendalán, m.a. um málskot til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki. BRÚ hélt því fram að til að uppfylla þetta skilyrði væri nægilegt að upplýsa um slík úrræði þegar ágreiningur kæmi upp og þá aðeins við hlutaðeigandi viðskiptavin. Hagsmunasamtök heimilanna bentu hins vegar á að upplýsingar um réttarúrræði yrðu að liggja fyrir strax frá upphafi þegar neytandi tekur ákvörðun um að stofna til viðskipta með neytendalán og ekki væri viðunandi að treysta á að lánveitandi veitti slíkar upplýsingar eftir að ágreiningur væri á annað borð kominn upp. Neytendastofa féllst á þau sjónarmið og taldi upplýsingagjöf Brúar um réttarúrræði neytenda því vera ófullnægjandi.

Hagsmunasamtök heimilanna fagna þeim áherslum sem birtast í ákvörðun Neytendastofu á þörf fyrir öflugt eftirlit með lánveitendum og upplýsingagjöf þeirra til neytenda. Athuganir samtakanna gefa til kynna að víða sé pottur brotinn í þeim efnum og því sé full ástæða til frekari aðgerða af þessu tagi. Í tilkynningu á vef Brúar kemur fram að sjóðurinn hafi talið sig fylgja lögum og harmi því að svo hafi ekki reynst vera, en eftir gildistöku nýrra laga um fasteignalán til neytenda hafi verið gerðar úrbætur á upplýsingagjöf sjóðsins. Að mati Hagsmunasamtaka heimilanna er reyndar ekki ljóst hvort að í raun sé um fullnægjandi úrbætur að ræða og verður sú upplýsingagjöf því áfram til skoðunar.

Sjá tilkynningu á vef Neytendastofu

Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér

Umfjöllun fjölmiðla um málið

Brú veitti ófullnægjandi upplýsingar um lán | RÚV

Segja Brú hafa brotið lög - Viðskiptablaðið

Viðtal um málið við Guðmund Ásgeirsson starfsmann HH í síðdegisútvarpi Útvarps Sögu 18. desember 2017 (viðtalið hefst þegar rúmar 5 mínútur eru liðnar af upptökunni):

Read more...

Hagsmunasamtök heimilanna ósátt við ítrekaðar frávísanir neytendamála

Hagsmunasamtök heimilanna vilja vekja athygli á að máli vegna kvörtunar sem samtökin beindu til Neytendastofu, hefur verið vísað frá áfrýjunarnefnd neytendamála. Frávísunin byggist á því mati að Hagsmunasamtök heimilanna hafi ekki lögvarða hagsmuni af aðild að slíku máli. Þar með hefur HH verið gert erfitt fyrir að verja hagsmuni þeirra sem til samtakanna leita. HH hafa ítrekað reynt að koma kvörtunum og málum er varða neytendavernd á framfæri til úrlausnar, en oftar en ekki hefur slíkum málum verið vísað frá hlutaðeigandi stofnunum og dómstólum.

Kvörtunin sneri að svokölluðu vaxtagreiðsluþaki Íslandsbanka, sem er þó ekki þak heldur einskonar greiðslujöfnun eða greiðsludreifingu vaxta, og er hugtakið því villandi að mati HH. Með ákvörðun nr. 24/2014 þann 16. maí 2014, féllst Neytendastofa ekki á að svo væri og taldi þar af leiðandi ekki ástæðu til að grípa til aðgerða. HH áfrýjuðu ákvörðuninni til áfrýjunarnefndar neytendamála, en með úrskurði sínum þann 24. mars vísaði nefndin málinu nr. 12/2014 frá sér eins og áður segir.

HH eru afar ósátt við frávísunina, sem er enn ein birtingarmynd þess hve erfitt samtökum á sviði neytendaverndar er gert að leita réttar fyrir hönd félagsmanna sinna og neytenda almennt. Þó svo að niðurstaða nefndarinnar sé vel rökstudd með vísan til gildandi laga, þá er það fyrst og fremst merki um að gera þurfi úrbætur á þeim lögum. Helsti ávinningur málsins er því að hafa upplýst vel um þau atriði sem er ábótavant í lögum á þessu sviði og þarfnast úrbóta.

Samkvæmt reglum um neytendavernd sem gilda hér á landi á grundvelli EES-samningsins, ber að sjá til þess að neytendum og samtökum þeirra standi til boða skilvirk úrræði til þess að gæta réttinda neytenda með atbeina stjórvalda og dómstóla. Það veldur HH verulegum vonbrigðum að þær reglur skuli ekki hafa náð að koma til framkvæmda hér á landi af þeim myndarskap sem vonast hefði mátt til.

Hagsmunasamtök heimilanna harma það skeytingarleysi gagnvart EES-samningnum sem í þessu birtist, ekki síst í ljósi þeirrar yfirlýstu stefnu núverandi ríkisstjórnar að byggja eigi samstarf Íslands við önnur Evrópuríki fyrst og fremst á grundvelli EES-samningsins. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem litið er framhjá hagsmunum neytenda og harmar HH að ekki skuli vera meiri vilji af hálfu opinberra aðila til að verja almennan rétt neytenda og framfylgja alþjóðlegum reglum á því sviði.

Þrátt fyrir að almennt sé hægt að bera ákvarðanir og úrskurði stjórnvalda undir dómstóla stendur ekki til að gera það í þessu tilviki, enda eru hverfandi líkur á að það myndi leiða til annarrar niðurstöðu. Hinsvegar munu samtökin beita sér fyrir og gera tillögur um úrbætur á hlutaðeigandi lögum, með hliðsjón af nytsamlegum athugasemdum um þau sem koma fram í úrskurði nefndarinnar.

Read more...

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna