Menu
RSS

Neytendaréttur og ólöglegar vaxtabreytingar

Hagsmunasamtök heimilanna vekja athygli á:

ákvörðun Neytendastofu um ólöglegar vaxtabreytingar
stuðningi samtakanna við aðgerðir formanns VR vegna Lífeyrissjóðs Verzlunarmanna
ólöglegum lánaskilmálum og vaxtabreytingum Lífeyrissjóðs Verzlunarmanna
kvörtun Hagsmunasamtakanna til Neytendastofu vegna Lífeyrissjóðs Verzlunarmanna
erindi Hagsmunasamtakanna til Fjármálaeftirlitsins vegna ákvörðunar Neytendastofu

Ákvörðun Neytendastofu um ólöglegar vaxtabreytingar

Hagsmunasamtök heimilanna vilja vekja athygli á að Neytendastofa úrskurðaði nýlega að lánaskilmálar í lánum Frjálsa fjárfestingarbankans (nú Arion banka) væru ólöglegir. Þessir skilmálar áskilja lánveitanda einhliða heimild til geðþóttaákvarðana um vaxtabreytingar en slík ákvæði eru skýrt brot á neytendarétti eins og Neytendastofa staðfesti með ákvörðun sinni.

Nú ættu neytendur að geta fagnað og treyst því að bankar þurfi að leiðrétta ólöglegar aðgerðir sínar og að það muni gerast sjálfkrafa. Ekki væri heldur óeðlilegt að vænta þess að þeir þyrftu að bæta þann skaða sem hlotist hefði að ólöglegum aðgerðum þeirra, svona eins og gengur og gerist í siðmenntuðum réttarríkjum.

En það er því miður ekki svo á Íslandi. Engar leiðréttingar munu eiga sér stað nema lánþegar sæki þær sjálfir, jafnvel í gegnum dómstóla. Það fellur nefnilega utan valdsviðs Neytendastofu að skera úr um einstakar uppgjörskröfur, þannig að í stað þess að neytendur njóti vafans þá er hann, eins og alltaf, metinn bankanum í vil. Bankinn fær þannig að halda áfram lögbrotum sínum nema lánþeginn átti sig á brotunum og leiti réttar síns. En sé bankinn ekki tilbúin til samninga þarf hver og einn að draga hann fyrir dómstóla með tilheyrandi kostnaði og fyrirhöfn. Þetta er víst kallað að leita réttar síns á “jafnræðisgrundvelli”.

Hagsmunasamtök heimilanna hvetja lántakendur til að leita réttar síns. Nánari upplýsingum, leiðbeiningum og aðstoð má óska eftir með tölvupósti á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..">This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..

Hagsmunasamtök heimilanna styðja forystu VR

Hagsmunasamtök heimilanna lýsa yfir fullum stuðningi við forystu VR og formann þess Ragnar Þór Ingólfsson í aðgerðum þeirra vegna vaxtahækkana stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, sem ganga þvert gegn hagsmunum neytenda og munu hækka kostnað hlutaðeigandi heimila umtalsvert, eða um 2.000 krónur af hverri milljón fyrir utan verðbætur.

Hagsmunasamtökin fagna því að verkalýðsforystan sé loksins farin að standa í fæturna og taka undir þá sjálfsögðu kröfu að lífeyrissjóðirnir starfi með hag almennings (allra sjóðsfélaga) að leiðarljósi og taki hag þeirra fram yfir þá taumlausu græðgi og siðleysi sem þessi þjónkun sjóðsins við fjármálakerfið ber með sér.

Lánaskilmálar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna ólöglegir

Það er ekki nóg með að boðuð vaxtahækkun Lífeyrissjóðs verzlunarmanna brjóti í bága við nýgerða lífskjarasamninga eins og formaður VR hefur bent á, heldur brjóta skilmálar lánasamninga lífeyrissjóðsins hreinlega í bága við lög að mati Hagsmunasamtaka heimilanna.
 
Samkvæmt 34. gr. laga um fasteignalán til neytenda nr. 118/2016 verður að koma fram í samningi um lán með breytilegum vöxtum, hvaða viðmiðum breytingarnar taki mið af eða hvaða skilyrði séu fyrir vaxtabreytingum. Lánveitanda er því óheimilt að ákveða einhliða af geðþótta að breyta slíkum skilmálum eða viðmiði vaxta eftir að lánssamningur er gerður.
 
Í skilmálum lána Lífeyrissjóðs verzlunarmanna með breytilegum vöxtum áskilur stjórn sjóðsins sér ekki aðeins rétt til að breyta vöxtum að eigin geðþótta heldur er beinlínis gert ráð fyrir því að stjórnin geti einhliða skipt um vaxtaviðmið og tekið upp önnur viðmið en þau sem hefur verið samið um.
 
Hagsmunasamtök heimilanna telja slíka skilmála ekki aðeins ósanngjarna heldur einnig ólögmæta og óskuldbindandi.

Kvörtun til Neytendastofu vegna Lífeyrissjóðs verzlunarmanna

Hagsmunasamtök heimilanna hafa sent kvörtun til Neytendastofu vegna skilmála Lífeyrissjóðs verzlunarmanna og einhliða breytingar á viðmiði breytilegra vaxta.

Af yfirlýsingum stjórnar sjóðsins hefur mátt ráða að nýboðuð vaxtahækkun hafi ekki einungis átt að ná til nýrra lána, heldur eigi hún að hafa áhrif á 3.700 útistandandi lán neytenda sem gátu engan veginn gert sér í hugarlund að síðar kynni lánveitandinn að ákveða einhliða að skipta í einni svipan um vaxtaviðmiðun. Aukin kostnaður þessara 3.700 heimila mun hlaupa á hundruðum milljóna króna auk þess sem ofan á það munu leggjast verðbætur.

Hagsmunasamtök heimilanna telja að ákvörðun sjóðsins um breytingu vaxtaviðmiða feli í sér óréttmæta viðskiptahætti og samræmist ekki ákvæðum laga um fasteignalán til neytenda. Samtökin fara þess því á leit við Neytendastofu að hún taki þessi álitaefni til meðferðar og veiti þeim úrlausn með rökstuddri ákvörðun.

Erindi til Fjármálaeftirlitsins vegna ákvörðunar Neytendastofu

Hagsmunasamtökin hafa einnig sent erindi til Fjármálaeftirlitsins þar sem stofnunin er minnt á að í verkahring hennar sé að fylgja eftir niðurstöðum dómstóla. Hagsmunasamtök heimilanna telja það sama hljóta að gilda um niðurstöður eftirlitsstjórnvalda og beina því þess vegna til Fjármálaeftirlitsins að fylgja eftir ákvörðun Neytendastofu nr. 27/2019 með því að sjá til þess að Arion banki leiðrétti vexti allra lána með hinum ólöglegu skilmálum og endurgreiði hlutaðeigandi neytendum oftekna vexti með vaxtavöxtum.


 

Meðfylgjandi er afrit af erindi Hagsmunasamtakanna til Fjármálaeftirlitsins.

Erindi vegna ólöglegra skilmála um breytilega vexti

Í tilefni frétta um að Fjármálaeftirlitið hafi til skoðunar málefni Lífeyrissjóðs verzlunarmanna vilja Hagsmunasamtök heimilanna minna á þær kröfur sem gerðar eru samkvæmt lögum til starfsemi lánveitenda.

Hlutverk lífeyrissjóða lýtur að móttöku, varðveislu og ávöxtun iðgjalda til greiðslu lífeyris. Til að ávaxta fjármuni sjóðfélaga geta þeir meðal annars veitt fasteignalán til neytenda sem endurgreiðast með vöxtum samkvæmt umsömdum kjörum. Samkvæmt 34. gr. laga um fasteignalán til neytenda nr. 118/2016 verður að koma fram í samningi um lán með breytilegum vöxtum, hvaða viðmiðum þeir taki mið af eða hvaða skilyrði séu fyrir breytingum á þeim. Lánveitanda er því óheimilt að ákveða einhliða af geðþótta að breyta slíkum skilmálum eða viðmiði vaxta eftir að lánssamningur er gerður.

Komið hefur í ljós að í skilmálum lána Lífeyrissjóðs verzlunarmanna með breytilegum vöxtum áskilur stjórn sjóðsins sér ekki aðeins rétt til að breyta vöxtum að eigin geðþótta heldur er beinlínis gert ráð fyrir því að stjórnin geti einhliða skipt um vaxtaviðmið og tekið upp önnur viðmið en þau sem var samið um. Slíkir skilmálar eru ekki aðeins ósanngjarnir heldur ólögmætir og óskuldbindandi. Hætta er á því að sjóðfélagar verði fyrir tjóni fari sjóðurinn á mis við vænta ávöxtun af eignum sínum.

Samkvæmt 4. mgr. 44. gr. laga nr. 129/1997 skal Fjármálaeftirlitið hafa eftirlit með því hvort starfsemi lífeyrissjóðs sé að einhverju leyti óeðlileg, óheilbrigð eða ótraust. Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. laga um fasteignalán til neytenda nr. 118/2016 hefur Neytendastofa hins vegar eftirlit með því að ákvæðum þeirra laga sé fylgt. Hagsmunasamtök heimilanna hafa því ákveðið að beina kvörtun til Neytendastofu yfir skilmálum Lífeyrissjóðs verslunarmanna og einhliða breytingum á vaxtaviðmiði.

Neytendastofa hefur ítrekað staðfest með ákvörðunum sínum að skilmálar sem áskilja lánveitanda einhliða rétt til geðþóttaákvarðana um vaxtabreytingar séu ólöglegir, nú síðast í liðinni viku þegar birt var ákvörðun þess efnis að slíkir skilmálar í lánum Frjálsa fjárfestingarbankans sem nú tilheyra Arion banka, væru sama marki brenndir. Samkvæmt ákvörðuninni fellur þó utan valdsviðs Neytendastofu að skera úr um uppgjörskröfur einstaklinga vegna ofgreiddra vaxta og þarf því hver og einn að sækja rétt sinn sérstaklega, sem er óásættanlegt að mati Hagsmunasamtaka heimilanna.

Samkvæmt upplýsingum frá Fjármálaeftirlitinu sem komu fram í svari fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn um eftirlit stofnunarinnar (þskj. 687 - 148. löggj.) er meðal annars í verkahring hennar að fylgja eftir niðurstöðum dómstóla. Hagsmunasamtök heimilanna telja það sama hljóta að gilda um niðurstöður eftirlitsstjórnvalda og beina því þess vegna til Fjármálaeftirlitsins að fylgja eftir ákvörðun Neytendastofu nr. 27/2019 með því að sjá til þess að Arion banki leiðrétti vexti allra lána með hinum ólöglegu skilmálum og endurgreiði hlutaðeigandi neytendum oftekna vexti með vaxtavöxtum.

Read more...

Aðvörun til fjárfesta: kaupið ekki köttinn í sekknum!

Um þessar mundir stendur yfir útboð á hlutafjáreign Kaupþings í Arion banka. Að undanförnu hafa einnig komið fram hugmyndir um sölu á eignarhlutum ríkisins í stóru viðskiptabönkunum. Af þessu tilefni er rétt að vara fjárfesta við því að kaupa ekki köttinn í sekknum þegar hlutafé íslenskra banka er annars vegar. Margt bendir til þess að eignasöfn þeirra séu stórlega ofmetin og þar innan um leynist ýmsar gallaðar vörur. Eftirfarandi eru nokkur staðfest dæmi um slíkt.

Á síðasta ári þurfti Arion banki að niðurfæra tæpa 5 milljarða af lánum sínum til kísilmálmverksmiðju Sameinaðs sílikons í Helguvík. Virðist ekki allt hafa verið með felldu í rekstri félagsins og er það nú til rannsóknar vegna gruns um margvíslegt misferli, þar á meðal fjársvik. Óvíst er hve margar fleiri slíkar beinagrindur kunna að leynast í skápum stóru viðskiptabankanna.

Þann 8. mars síðastliðinn kvað Hæstiréttur Íslands upp fordæmisgefandi dóm í máli Arion banka þess efnis að bankanum hefði verið óheimilt að krefjast dráttarvaxta af skuldum einstaklinga á meðan þeir nutu svokallaðs greiðsluskjóls vegna umsóknar um greiðsluaðlögun. Komið hefur fram að það sama hafi tíðkast af hálfu Landsbankans og mögulega fleiri lánveitenda. Vegna dómsins munu þeir þurfa að endurgreiða umtalsverðar fjárhæðir oftekinna vaxta. Samkvæmt árshlutareikningum þeirra hefur ekki verið lagt endanlegt mat á heildaráhrif dómsins, en Hagsmunasamtökum heimilanna er kunnugt um einstök tilvik þar sem slíkar fjárhæðir hlaupa á milljónum króna.

Þann 12. október 2017 kvað Hæstiréttur Íslands upp dóm í máli Íslandsbanka þar sem bankanum var talið óheimilt að hækka vexti húsnæðislána á grundvelli endurskoðunarákvæðis sem braut gegn lögum um neytendalán. Samkvæmt ársreikningi bankans hefur hann skuldfært 800 milljónir króna vegna dómsins en hefur þó ekki lokið við endurgreiðslu til allra hlutaðeigandi lántakenda. Alls óvíst er hversu raunhæft mat bankans er á umfanginu en Hagsmunasamtök heimilanna vita um tilvik þar sem þurft hefur að endurgreiða hundruðir þúsunda króna af venjulega húsnæðisláni. Einnig hafa samtökin staðfestar heimildir fyrir því að lán með samskonar skilmálum sé að finna í lánasöfnum Arion banka og Landsbankans, en upplýsingar um mögulegt umfang þeirra liggja ekki fyrir.

Eins og framangreind staðfest dæmi bera vott um eru enn ástæða til efasemda um lögmæti og þar með gæði lánasafna bankanna. Auk þess má nefna að ekki eru öll kurl komin til grafar um vexti lána sem voru með ólögmætri gengistryggingu, fyrningu vaxta og verðbóta auk ýmissa fleiri álitaefna sem eru nú þegar til úrlausnar eða á leiðinni fyrir dómstóla. Er því ljóst að umtalsverð óvissa ríkir enn um raunverulega stöðu bankakerfisins. Að svo stöddu eru því kaup á eignarhlutum í bönkum ekki aðeins áhættusöm, heldur fela þau beinlínis í sér veðmál gegn íslenskum almenningi og heimilum.

Þeirri óvissu sem ríkir um raunverulega stöðu bankanna verður ekki útrýmt nema fram fari rannsókn á þeim aðgerðum sem ráðist var í gagnvart neytendum í kjölfar hruns bankakerfisins og hvernig það var í raun endurreist á herðum heimila landsins.

Almenningur er ekki fóður fyrir bankana!

Read more...

Nýbirt gögn styðja málflutning Hagsmunasamtaka heimilanna

Víglundur Þorsteinsson fyrrverandi stjórnarformaður BM Vallár sendi í gærkvöldi frá sér fréttatilkynningu ásamt miklu magni af gögnum er varða stofnun nýju viðskiptabankanna og yfirfærslur lánasafna frá föllnu bönkunum til þeirra nýju. Gögnin ásamt greinargerð Víglundar um innihald og merkingu þeirra, styðja fyllilega þann málflutning sem Hagsmunasamtök heimilanna hafa haldið úti svo að segja frá stofnun þeirra fyrir rúmum 6 árum síðan. Það er að segja að við yfirfærslu þessa og þá gjörninga sem tóku við í framhaldi hafi margvíslegum rangindum verið beitt, þannig að hagsmunum heimila og almennings hafi verið stórlega misboðið.

Samtökin hafa á undanförnum árum staðið í margvíslegri gagnaöflun, og reynt með öllum ráðum að komast yfir og gera opinberar sem mestar upplýsingar um þetta ferli allt saman, í nafni gagnsæis og til þess að sýna fram á hversu gróflega framferði fjármálafyrirtækja hafi brotið og sé enn að brjóta gegn lögum og hagsmunum almennings. Ekki má heldur gleyma "hinum" fjármálafyrirtækjunum það er að segja öðrum en stóru bönkunum þremur, til að mynda fjármögnunarfyrirtækjum eða fyrirtækjum á borð við Dróma hf. sem eru jafnvel ekki löglega skráð fjármálafyrirtæki.

Smellið hér til að heimsækja skjalabirtingarsvæði HH á vefbókasafninu Scribd, þar sem finna má mikinn fjölda gagna um framferði bankanna.

Meðal þess sem ráða má af gögnum Víglundar er að ekki aðeins hafi almenningur og margir stjórnmálamenn verið blekktir, heldur hafi jafnvel dómstólar landsins einnig verið beittir blekkingum í tengslum við hin ótalmörgu og gríðarlega umfangsmiklu málaferli sem bankar og aðrir kröfuhafar hafa herjað á heimili og fyrirtæki með undanfarin 6 ár. Því verður varla lýst með nógu sterkum orðum hversu alvarlega slíkt framferði vegur að virðingu dómskerfisins, og þar með að sjálfu réttarríkinu, að eyða svo miklu sem raun ber vitni af takmörkuðum tíma dómstólanna að ófyrirsynju í tilhæfulaus málaferli árum saman.

Ítarlega hefur verið fjallað um afhjúparnir Víglundar í helstu fjölmiðlum í dag, en fyrsta fréttin af þeim birtist á vef Útvarps Sögu nokkru eftir miðnætti í gærkvöldi, ásamt þeim gögnum sem um ræðir. Hér fyrir neðan er tilkynning Víglundar í heild sinni, ásamt tenglum á gögnin sem vísað er til.

Meðfylgjandi þessari fréttatilkynningu er bréf mitt til forseta Alþingis Einars Kristins Guðfinnssonar í dag. Með bréfinu sendi ég honum alla stofnúrskurði FME frá október 2008 um stofnun nýju bankanna þriggja ásamt fylgigögnum um nákvæmar forsendur fyrir flutningi og afskriftum einstakra lána einstaklinga og fyrirtækja við flutning úr gömlu bönkunum í þá nýju. Gögnum þessum hefur til þessa verið haldið leyndum með skipulegum hætti.
 
Í þeim gögnum gefur að lesa nákvæmlega allar forsendur og lista yfir stærstu lánin sem flutt voru yfir og afskriftir þeirra. Þessi gögn staðfesta með óyggjandi hætti það sem lengi hefur verið haldið fram af mörgum aðilum svo sem Hagsmunasamtökum heimilanna, Framsóknarflokknum og fleiri samtökum og einstaklingum að nýju bankarnir eignuðust aldrei neitt annað en afskrifaðar eignir / kröfur á fólk og fyrirtæki. Þannig voru kröfurnar færðar á nettóvirði í bækur hinna nýju banka.
 
Samningar ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur undir forystu þáverandi fjármálaráðherra Steingríms J. Sigfússonar á árinu 2009 leiddu til þess að þessir stofnúrskurðir voru afturkallaðir með ólögmætum hætti í þágu erlendra vogunarsjóða og mjög alvarlegum íþyngjandi efnahagslegum afleiðingum fyrir einstaklinga og fyrirtæki í landinu. Með því að gera þessa formlegu stjórnvaldsúrskurði Fjármálaeftirlitsins opinbera og öllum aðgengilega þýðir ekki lengur fyrir fyrrverandi ráðherra og embættismenn svo og bankamenn að þræta um málin. Nú verða gögnin með öllum forsendum aðgengileg til skoðunar fyrir alla sem það kjósa. Gögnunum fylgir jafnframt 8 bls. minnisblað þar sem gerð er stutt grein fyrir helstu atriðum þessara gagna. Í seinni hluta minnisblaðsins er síðan fjallað um líkleg lögbrot ráðherra, embættismanna og bankamanna á fjölmörgum íslenskum lögum frá árinu 2009 allt fram á þennan dag. Minnisblaðið fylgir í viðhengi. Þar ber hæst umfjöllun um meint brot á almennum hegningarlögum auk annara laga svo sem stjórnsýslulaga og laga um fjármálafyrirtæki. Sýnist sú samræmda brotastarfssemi hafa verið viðtækari og varað lengur en dæmi eru um svo kunnugt sé og afleiðingarnar alvarlegri fyrir þjóðina en hægt er að ná utan um í tölum einum og sér.
 
Til viðbótar við þessa auðgun vogunarsjóða og erlendra kröfuhafa að fjárhæð á milli 300-400 milljarða eru enn verri þær afleiðingar þessa örlætisgjörnings Steingríms og Jóhönnu að hafa framlengt kreppuna vegna hrunsins um mörg ár með enn alvarlegri afleiðingum fyrir fólk og fyrirtæki.
 
Garðabæ 22.01.2015
Víglundur Þorsteinsson

Hér má sjá bréf Víglundar ásamt minnisblaði:

Hér má jafnframt nálgast öll skjölin sem um ræðir:

Bréf Víglundar til forseta Alþingis
Minnisblað um stofnúrskurði FME
Ákvörðun FME vegna Landsbankans
Ákvörðun FME vegna Kaupþings
Ákvörðun FME vegna Glitnis
Forsendur fyrir skiptingu efnahagsreikninga
Stofnefnahagsreikningur Nýja Landsbankans
Stofnefnahagsreikningur Nýja Kaupþings
Stofnefnahagsreikningur Nýja Glitnis

Read more...

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna