Menu
RSS
Frá Hagsmunasamtökum heimilanna

Frá Hagsmunasamtökum heimilanna (408)

Ársskýrsla HH 2017-2018

Samkvæmt venju eru fundargögn birt á heimasíðu samtakanna í aðdraganda aðalfundar í formi ársskýrslu sem inniheldur jafnframt allar upplýsingar um efni aðalfundarins samkvæmt boðaðri dagskrá.

Félagsmenn eru minntir á aðalfundinn kl. 20:00 þriðjudaginn 20. febrúar 2018, á Hótel Cabin Borgartúni 32 (7. hæð).

Þegar framboðsfrestur rann út höfðu borist eftirfarandi tilkynningar um framboð.

Aðalstjórn:

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Einar Valur Ingimundarson
Guðrún Harðardóttir
Hafþór Ólafsson
Pálmey Gísladóttir
Róbert Bender
Sigríður Örlygsdóttir
Sigurbjörn Vopni Björnsson
Vilhjálmur Bjarnason

Varastjórn:

Björn Kristján Arnarson
Guðrún Indriðadóttir
Jóhann Rúnar Sigurðsson
Ragnar Unnarsson
Stefán Stefánsson
Þórarinn Einarsson

Ársskýrsla Hagsmunasamtaka heimilanna 2017-2018

Read more...

Aðalfundur Hagsmunasamtaka heimilanna 2018

Kæru félagsmenn,
Hagsmunasamtök heimilanna boða hér með til aðalfundar, sem verður haldinn þriðjudagskvöldið 20. febrúar næstkomandi, kl. 20:00 á Hótel Cabin við Borgartún 32, í ráðstefnusal á 7. hæð.*

* Athugið að til þess að komast upp á 7. hæð þarf að fara í lyftu sem er í vesturenda hússins, fyrir innan gestamóttöku hótelsins.

Dagskrá:

  1. Skipun fundarstjóra, ritara, og fundarsetning
  2. Skýrsla stjórnar: Ásthildur Lóa Þórsdóttir, formaður
  3. Reikningar samtakanna: Guðrún Harðardóttir, gjaldkeri
  4. Tillaga stjórnar um ákvörðun félagsgjalda
  5. Tillögur um breytingar á samþykktum
  6. Kosning 7 aðalmanna í stjórn
  7. Kosning 3-7 varamanna í stjórn
  8. Kosning skoðunarmanna
  9. Önnur mál

Tilhögun kosningar til stjórnar verður með þeim hætti að í hvorri umferð má hver atkvæðisbær fundarmaður greiða allt að sjö frambjóðendum atkvæði og ræður hreint atkvæðamagn úrslitum. Þurfi að skera úr um röð ef tveir eða fleiri hljóta jafn mörg atkvæði verður dregið um innbyrðis röð þeirra.

Tillögur um breytingar á samþykktum

Undir 5. dagskrárlið aðalfundar verða eftirfarandi tillögur um breytingar á samþykktum samtakanna teknar til umræðu og atkvæðagreiðslu.

Firmaritun félagsins
• Við 1. mgr. 9. gr. bætist nýr málsliður svohljóðandi: Firma félagsins ritar meirihluti stjórnar.

Skýringar: Tillagan felur ekki í sér efnislega breytingu heldur aðeins formfestingu á þeirri meginreglu félagaréttar að meirihluti stjórnar sé til þess bær að rita firma félagsins.

Fimm ára hámark stjórnarsetu
• 2. mgr. 9. gr. falli brott.

Skýringar: Samkvæmt núgildandi ákvæði 2. mgr. 9. gr. mega stjórnarmenn ekki sitja lengur í stjórn samtakanna en fimm óslitin kjörtímabil samfellt. Lagt er til að sú takmörkun verði afnumin.

Mætingarskylda stjórnarmanna
• Í stað orðsins „Afsali“ í 3. málsl. 5. mgr. 9. gr. komi: Fyrirgerir.
• Í stað orðsins „taki“ hvar sem það kemur fyrir í 3. málsl. 5. mgr. 9. gr. komi: tekur.

Skýringar: Samkvæmt meginreglum félagaréttar hvílir almennt sú skylda á stjórnarmönnum félaga að mæta á löglega boðaða stjórnarfundi nema þeir boði forföll af lögmætum ástæðum. Reglan þjónar meðal annars þeim tilgangi að draga skýrar línur um ábyrgð stjórnarmanna og skapa svigrúm til að bregðast við forföllum með því að kalla til varamenn. Þetta hefur verið formfest í samþykktum HH með því að vanræksla á mætingar- og tilkynningaskyldu leiði til þess að viðkomandi stjórnarmaður missi sæti sitt í aðalstjórn og færist niður í sæti síðasta varamanns. Tillaga þessi felur ekki í sér neina efnislega breytingu á þeirri reglu heldur einungis að orðalag ákvæðanna verði gert réttara og skýrara.

Framboðsfrestur og fundargögn

Framboðsfrestur til stjórnarkjörs er 7 dögum fyrir aðalfund eða til 13. febrúar. Framboð má tilkynna með tölvupósti á netfang samtakanna: This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..

Einnig er óskað eftir tilnefningum skoðunarmanna og sjálfboðaliðum í talningu atkvæða á fundinum.

Fundargögn verða birt á heimasíðu samtakanna í aðdraganda aðalfundarins.


Bestu kveðjur,
Hagsmunasamtök heimilanna

Read more...

Opinn spjallfundur um málefni heimilanna

Ágætu félagsmenn og áhugafólk um málefni heimilanna.

Nú er komið að mánaðarlegum opnum spjallfundi Hagsmunasamtaka heimilanna. Fundurinn verður haldinn næstkomandi þriðjudag, 6. febrúar, kl. 20-22, á Café Meskí, Fákafeni 9 (í innri sal kaffihússins).

Við hvetjum félagsmenn sem og aðra til að nýta sér þetta tækifæri og mæta til að taka þátt í umræðum um málefni heimilanna!

Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna.

Read more...

Áskorun til stjórnvalda um rannsókn á því sem var gert eftir hrun

Rannsókn er nauðsynleg til að auka gagnsæi og efla traust almennings á stjórnsýslunni og stjórnmálum.

Hagsmunasamtök heimilanna hafa skorað á Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra að standa að gerð rannsóknarskýrslu á þeim ákvörðunum sem voru teknar og þeim aðgerðum sem farið var í gagnvart heimilum landsins eftir hrun.

Hagsmunasamtök heimilanna beina því enn fremur til alþingismanna og annarra sem eiga að láta hagsmuni almennings sig varða að styðja og berjast fyrir rannsókn á því sem gert var eftir hrun.

Í haust verða liðin 10 ár frá fjármálahruni og kominn tími til að heimilin njóti vafans og fái uppreist æru í baráttu sinni við „kerfi“ sem er þeim vægast sagt fjandsamlegt.

Það er ljóst að mjög margar af þeim aðgerðum sem farið var í eftir hrun ollu heimilum landsins stórfelldum skaða, skaða sem aldrei hefur verið viðurkenndur, skaða sem aldrei hefur verið metinn, skaða sem enn sér ekki fyrir endann á og heimilin sitja uppi með.

Hrunið sem ekki mátti persónugera með því að nefna neina þá sem léku aðalhlutverkin var persónugert í „Jónum og Gunnum“ þessa lands. Þeim hefur verið refsað og þau hafa borið byrðarnar á meðan afbrotamennirnir sjálfir hafa aðallega þurft að hafa áhyggjur af því að koma hagnaðinum, sem enn streymir til þeirra í gott skjól.

Það er því brýn þörf á sambærilegri rannsóknarskýrslu og þeirri sem gerð var um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna en nú þarf að fjalla um aðgerðir stjórnvalda í kjölfar hrunsins og afleiðingar þeirra  fyrir heimili landsins.

Meðal þess sem þarf að rannsaka er:
Stofnun nýju bankanna og yfirfærsla lánasafna gömlu bankanna til þeirra
Afhending stórra eignarhluta í bönkunum til þrotabúa föllnu bankanna
Úrlausnir mála vegna ólöglegra lánaskilmála og framferðis kröfuhafa
Hversu margar fjölskyldur hafa verið sviptar heimilum sínum frá hruninu
Hversu margar fjölskyldur voru hraktar að ósekju út á vonlausan leigumarkað og hver staða húsnæðismála væri núna ef það hefði ekki verið gert
Greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara sem hefur reynst mörgum illa
Ólöglegar vörslusviptingar ökutækja á grundvelli ólöglegra krafna
Skortur á samráði við fulltrúa neytenda og samtök þeirra
Samtökin benda enn fremur á að:
Verðtrygging húsnæðislána er skaðleg en hana er einfalt að afnema
Málsmeðferð við nauðungarsölur og aðfarir brýtur í bága við mannréttindi
Gengistryggð lán hafa ekki enn verið leiðrétt í samræmi við neytendarétt
Úrvinnsla slíkra mála hingað til hefur brotið í bága við stjórnarskrárvarin réttindi neytenda og skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum
Alþingi og dómstólar hafa verið blekkt af málflytjendum fjármálafyrirtækja
Endurskoða þarf þær breytingar sem gerðar voru á vaxtalögum með lögum nr. 151/2010 neytendum í óhag og stöðva aðfarir á hendur heimilum á meðan
Að dómstólar hafa ítrekað fellt dóma út frá hagsmunum fjármálafyrirtækja sem standast ekki skoðun út frá lögum og gildandi rétti

Allar aðfarir og nauðungasöluferli þarf að sjálfsögðu að stöðva meðan á gerð skýrslunnar stendur – enda komið nóg af slíkum ófögnuði!

Hagsmunasamtök heimilanna bjóða fram aðstoð sína við rannsóknina því innan þeirra vébanda leynist gífurleg þekking á málaflokknum auk ýmissa gagna sem rannsóknaraðilum væri fengur að.

Við væntum skjótra svara um aðgerðir frá forsætisráðherra. Tíminn er að renna út, við höfum beðið í meira en 9 ár þau mega ekki verða 10.

Hér má sjá auglýsingu þessa efnis sem birtist í Fréttablaðinu um síðustu helgi:

Ásthildur Lóa Þórsdóttir formaður HH var í viðtali um áskorunina í þættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni en hér má nálgast upptöku af viðtalinu.

Jafnframt voru Ásthildur Lóa og Guðmundur Ásgeirsson starfsmaður HH gestir í síðdegisútvarpi Útvarps Sögu og ræddu um áskorunina en hér má nálgast upptöku af þættinum.

Read more...

Opinn spjallfundur um málefni heimilanna

Ágætu félagsmenn og áhugafólk um málefni heimilanna.

Nú er komið að mánaðarlegum opnum spjallfundi Hagsmunasamtaka heimilanna. Fundurinn verður haldinn næstkomandi þriðjudag, 9. janúar, kl. 20-22, á Café Meskí, Fákafeni 9 (í innri sal kaffihússins).

Við hvetjum félagsmenn sem og aðra til að nýta sér þetta tækifæri og mæta til að taka þátt í umræðum um málefni heimilanna!

Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna.

Read more...

Upplýsingaskyldan margbrotin - Enn og aftur brjóta lánveitendur gegn lögum um neytendalán!

Neytendastofa tekur undir kvörtun Hagsmunasamtaka heimilanna yfir brotum Brúar lífeyrissjóðs gegn lögum um neytendalán!

Síðla árs 2016 sendu Hagsmunasamtök heimilanna kvörtun til Neytendastofu um að misbrestur væri á því að árleg hlutfallstala kostnaðar væri birt neytendum hjá Brú Lífeyrissjóði, sem jafngildir því að dylja raunverulegan kostnað lána fyrir þeim. Brú Lífeyrissjóður er fjarri því að vera einsdæmi, hvað  þennan misbrest varðar sem er fátt annað en hunsun fjármálafyrirtækja á lögum um neytendalán og upplýsingaskyldu lánveitenda. Það er gríðarlegt hagsmunamál fyrir neytendur að allar forsendur láns séu uppi á borðum til að dulinn kostnaður komi ekki í bakið á þeim eftir að skrifað hefur verið undir.  
 
Það er skemmst frá því að segja að Neytendastofa féllst á kvörtun Hagsmunasamtaka heimilanna í öllum atriðum og staðfesti að lögum samkvæmt eiga lánveitendur að veita neytendum upplýsingar um árlega hlutfallstölu kostnaðar í auglýsingum sínum og öðru kynningarefni.

Hagsmunasamtök heimilanna hafa margoft bent á að eftirlitsaðilar hafi ekki sinnt því lögboðna hlutverki sínu að vernda hagsmuni neytenda gagnvart fjármálafyrirtækjum, með fullnægjandi hætti. Alvarlegasta dæmið um slíkt eru gengistryggð lán sem veitt voru í tugþúsunda tali án athugasemda frá Fjármálaeftirlitinu, Seðlabanka Íslands, ráðherrum, alþingismönnum eða nokkrum öðrum. Þrátt fyrir að slík lán væru ólögmæt og eftirlitið hefði brugðist, voru neytendur einir látnir greiða ígildi skaðabóta til lánveitenda því vextir voru hækkaðir með handafli frá hinu opinbera.

Nánar um ákvörðun Neytendastofu og kvörtun Hagsmunasamtaka heimilanna

Neytendastofa hefur birt ákvörðun nr. 55/2017 í kvörtunarmáli Hagsmunasamtaka heimilanna gegn Brú lífeyrissjóði. Tilefni kvörtunarinnar var að í auglýsingum og kynningarefni á vefsíðu Brúar komu hvorki fram fullnægjandi upplýsingar um lántökukostnað né um þau réttarúrræði sem neytendur geta nýtt sér ef ágreiningur kemur upp við lánveitanda. Neytendastofa féllst á kvörtunina að öllu leyti og tók fram í ákvörðun sinni að sú ófullnægjandi upplýsingagjöf sem kvartað var yfir, bryti í bága við lög um neytendalán og lög um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.

Samkvæmt 6. gr. laga um neytendalán nr. 33/2013 eiga auglýsingar þar sem koma fram upplýsingar um vexti eða annan lánskostnað jafnframt að bera með sér lýsandi dæmi um heildarkostnað og árlega hlutfallstölu kostnaðar. Samkvæmt ákvörðun Neytendastofu er ekki nægilegt að vísa til þess í auglýsingum að nánari upplýsingar megi finna á vefsíðu lánveitanda, heldur verða þær upplýsingar sem koma fram í auglýsingunum sjálfum að uppfylla þessi skilyrði. Með því að brjóta gegn þeirri upplýsingaskyldu var talið að Brú hefði jafnframt sýnt af sér óréttmæta viðskiptahætti í andstöðu við ákvæði laga nr. 57/2005, um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.

Samkvæmt 1. mgr. 33. gr. laga um neytendalán nr. 33/2013 skulu lánveitendur hafa aðgengilegar upplýsingar um úrskurðar- og réttarúrræði ef ágreiningur rís milli lánveitanda og neytanda um neytendalán, m.a. um málskot til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki. BRÚ hélt því fram að til að uppfylla þetta skilyrði væri nægilegt að upplýsa um slík úrræði þegar ágreiningur kæmi upp og þá aðeins við hlutaðeigandi viðskiptavin. Hagsmunasamtök heimilanna bentu hins vegar á að upplýsingar um réttarúrræði yrðu að liggja fyrir strax frá upphafi þegar neytandi tekur ákvörðun um að stofna til viðskipta með neytendalán og ekki væri viðunandi að treysta á að lánveitandi veitti slíkar upplýsingar eftir að ágreiningur væri á annað borð kominn upp. Neytendastofa féllst á þau sjónarmið og taldi upplýsingagjöf Brúar um réttarúrræði neytenda því vera ófullnægjandi.

Hagsmunasamtök heimilanna fagna þeim áherslum sem birtast í ákvörðun Neytendastofu á þörf fyrir öflugt eftirlit með lánveitendum og upplýsingagjöf þeirra til neytenda. Athuganir samtakanna gefa til kynna að víða sé pottur brotinn í þeim efnum og því sé full ástæða til frekari aðgerða af þessu tagi. Í tilkynningu á vef Brúar kemur fram að sjóðurinn hafi talið sig fylgja lögum og harmi því að svo hafi ekki reynst vera, en eftir gildistöku nýrra laga um fasteignalán til neytenda hafi verið gerðar úrbætur á upplýsingagjöf sjóðsins. Að mati Hagsmunasamtaka heimilanna er reyndar ekki ljóst hvort að í raun sé um fullnægjandi úrbætur að ræða og verður sú upplýsingagjöf því áfram til skoðunar.

Sjá tilkynningu á vef Neytendastofu

Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér

Umfjöllun fjölmiðla um málið

Brú veitti ófullnægjandi upplýsingar um lán | RÚV

Segja Brú hafa brotið lög - Viðskiptablaðið

Viðtal um málið við Guðmund Ásgeirsson starfsmann HH í síðdegisútvarpi Útvarps Sögu 18. desember 2017 (viðtalið hefst þegar rúmar 5 mínútur eru liðnar af upptökunni):

Read more...

Mótmælum bónusabruðli Klakka/Existu á kostnað almennings!

ATHUGIÐ: Uppfært að kvöldi 14. desember. Mótmælin sem voru boðuð hafa núna verið afboðuð, þar sem stjórnendur Klakka hafa lagt til að hætt verði við greiðslu kaupauka vegna sölu Lýsingar/Lykils, með vísan til viðbragða samfélagsins við þeirri fyrirætlan. Eftirfarandi færsla fær þó að standa óbreytt.

Hagsmunasamtök heimilanna vilja vekja athygli á mótmælum sem haldin verða á morgun við Ármúla 1 fyrir utan Lykil, kl. 12:30 - 13:00.

Um viðburðinn og fleira tengt honum: https://www.facebook.com/events/137028826996458/

Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR ræðir um fyrirhuguð mótmæli í Reykjavík síðdegis: http://www.visir.is/section/MEDIA98&fileid=CLP59506

Fréttir á RÚV: http://www.ruv.is/frett/bonusgreidslur-i-andstodu-vid-hluthafastefnu

Read more...

Opinn spjallfundur um málefni heimilanna

Ágætu félagsmenn og áhugafólk um málefni heimilanna.

Nú er komið að mánaðarlegum opnum spjallfundi Hagsmunasamtaka heimilanna. Fundurinn verður haldinn næstkomandi þriðjudag, 5. desember, kl. 20-22, á Café Meskí, Fákafeni 9 (í innri sal kaffihússins).

Við hvetjum félagsmenn sem og aðra til að nýta sér þetta tækifæri og mæta til að taka þátt í umræðum um málefni heimilanna!

Jafnframt er ætlunin að halda slíka fundi í fyrstu viku hvers mánaðar í vetur og verða þeir auglýstir nánar í hvert sinn.

Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna.

Read more...

Áskorun frá Hagsmunasamtökum heimilanna til stjórnmálaflokka

Eftirfarandi áskorun hefur verið send stjórnmálaflokkunum frá Hagsmunasamtökum heimilanna:

Hagsmunasamtök heimilanna vilja minna alla flokka, sérstaklega þá sem eru í stjórnarmyndunarviðræðum, á hagsmuni heimilanna.

Allt of oft verða hagsmunir heimilanna, almennings í landinu, að afgangsstærð hjá stjórnmálamönnum.

Það eru hagsmunir heimilanna að verðtrygging sé afnumin á neytendalánum.

Afnám verðtryggingar myndi færa almenningi þá bestu kjarabót sem sögur fara af.

Engin rök eru fyrir því að heimili á Íslandi borgi 92.000 krónum meira af verðtryggða 25 milljóna húsnæðisláninu sínu í hverjum mánuði en heimili í Danmörku af jafnháu láni.

Til að eiga fyrir 92.000 krónum ofan á hverja einustu afborgun lánsins þurfa íslensk heimili að vinna sér inn fyrir 175.000 krónum aukalega í hverjum mánuði!

Orð eins og fjárkúgun, sjálftaka og rán koma óhjákvæmilega upp í hugann í þessu sambandi.

Höfum í huga að allt þetta auka fé fer beint inn í bankana engum til gangs, nema þá vogunarsjóðunum sem eru um það bil að fá þá á silfurfati, komi ný ríkisstjórn ekki í veg fyrir það!

Það er ljóst að afnám verðtryggingar á lánum heimilanna myndi auka ráðstöfunarfé heimilanna til mikilla muna og þannig væntanlega liðka mikið fyrir komandi kjarasamningum.

Hagsmunasamtök heimilanna hvetja stjórnmálamenn til að kynna sér það sem Ólafur Margeirsson hagfræðingur hefur sagt um verðtrygginguna og hvernig hún skekkir hagkerfið og dregur verulega úr áhrifamætti þeirra tækja sem Seðlabankinn hefur yfir að ráða til að halda verðbólgu í skefjum.

Hagsmunasamtök heimilanna beina því til Vinstri grænna, Samfylkingar, Pírata og Framsóknarflokksins að standa að alvöru velferðarstjórn og afnema/banna verðtryggingu á lánum heimilanna í eitt skipt fyrir öll.

Afnám verðtryggingar myndi lækka húsnæðiskostnað almennings verulega og þar með auka velferð og hagsæld heimilanna með raunhæfum hætti.

Afnám verðtryggingar er ekki flókin aðgerð ekki frekar en setning hennar var. Hún krefst ekki nýs gjaldmiðils, inngöngu í Evrópusambandið eða nokkurs annars.

Það eina sem þarf til að afnema verðtryggingu lána til neytenda er að bæta svohljóðandi setningu við 13. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001: “Neytendalán og fasteignalán til neytenda falla ekki undir ákvæði þessa kafla.”

Það eina sem til þarf er pólitískur vilji og stjórnmálamenn sem standa í lappirnar og taka þarfir almennings fram yfir þarfir fjármálafyrirtækja.

Þetta þarf ekki að setja í neina nefnd. Staðreyndirnar liggja fyrir og nú er kominn tími á framkvæmdir.

Ný stjórn gæti fært vísitölufjölskyldunni tugþúsunda kjarabætur í hverjum mánuði með einfaldri lagabreytingu.

Heimilin þurfa ríkisstjórn sem skilur að almenningur er ekki fóður fyrir bankana!

F.h. stjórnar Hagsmunasamtaka heimilanna,

Ásthildur Lóa Þórsdóttir, formaður
Vilhjálmur Bjarnason, varaformaður

Read more...
Subscribe to this RSS feed

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna