Menu
RSS
Ólafur Garðarsson

Ólafur Garðarsson

Stuðningsyfirlýsing við Evu Joly

Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna lýsir yfir stuðningi við störf Evu Joly í þágu réttarkerfis þjóðarinnar og þannig almennra hagsmuna. Í ljósi viðtala og yfirlýsinga frú Joly er það mat stjórnar HH að hún hafi notað áhrif sín til að halda rannsókn sérstaks saksóknara á réttri braut. Rannsóknin er ef að líkum lætur mikilvægasta aðgerð íslenska réttarkerfisins frá upphafi og mun hafa áhrif langt út fyrir landsteinana. Eva Joly nýtur óskoraðs trausts okkar.

11.6.2009
Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna

Þjóðarsátt um þak á verðbætur

Hagsmunasamtök heimilanna undrast að ríkisstjórninni finnist sjálfsagt mál að grípa einhliða til aðgerða sem leiða til hækkunar á höfuðstól verðtryggðra íbúðalána.  Á tímum þegar nauðsynlegt er að gera allt sem hægt er til að draga úr skuldsetningu heimilanna, þá sýnir ríkisstjórnin algjört skilningsleysi á því ófremdarástandi sem hér ríkir.
 
Hagsmunasamtök heimilanna krefjast þess að ríkisstjórnin grípi tafarlaust til aðgerða sem koma í veg fyrir að þær hækkanir, sem samþykktar voru á Alþingi í gærkvöldi, þyngi lánabyrði heimilanna.  Samtökin taka undir tillögur þingflokks Framsóknarmanna um að sett verði 4% þak á verðbótarþátt fjárskuldbindinga, enda er það ein af grundvallarkröfum samtakanna.

Aðvörun til stjórnvalda

Hafa misst trú á frumkvæði stjórnvalda
Hagsmunasamtök heimilanna (HH) vilja vara stjórnvöld við yfirvofandi greiðsluverkfalli borgaranna. Mikill fjöldi heimila hafa misst trú á að stjórnvöld muni hafa frumkvæði að leiðréttingu á yfir 20% hækkun verðtryggðra lána svo ekki sé minnst á gengistryggð lán. Staðan er grafalvarleg fyrir heimilin og atvinnulífið en hver aðilinn á fætur öðrum telur sig knúinn til að snúast til fjárhagslegrar nauðvarnar.

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna