Menu
RSS

Ályktun stofnfundar Featured

Ályktun stofnfundar Hagsmunasamtaka heimilanna 15. janúar 2009

TÖKUM STÖÐU MEÐ HEIMILUNUM

Efnahagshrunið, óðaverðbólgan, gengisþróunin, atvinnuleysið og markaðs­hrunið er að koma mjög hart niður á þeim sem síst skyldi og minnsta ábyrgð bera, þ.e.a.s. heimilunum í landinu. Nú stefnir í það að stór hluti heimilanna í landinu verði gjaldþrota verði ekki gripið strax til raunhæfra aðgerða af hálfu stjórnvalda.

Heimilin og fjölskyldurnar í landinu tóku lán sín til íbúðarkaupa í góðri trú og trausti til fjármálastofnana og stjórnvalda. Margar fjölskyldur eiga nú þess vegna á hættu að verða hlekkjaðar til æviloka við verðlitlar eignir sínar með skuldaklafann á bakinu, eða að verða hraktar af heimilum sínum með opna heimild til endurupptöku krafna til æviloka.

Verði þessi framtíðarsýn  að veruleika má gera ráð fyrir verulegum landflótta sem aðeins mun draga afleiðingar kreppunnar á langinn, auka á vandann og ójöfnuðinn. Framtíð íslensks samfélags ræðst af því hvernig stjórnvöld bregðast við núna gagnvart heimilunum og er tíminn til aðgerða mjög naumur.

Í ljósi þess neyðarástands sem hefur skapast krefjast Hagsmunasamtök heimilanna eftirfarandi:

  • Lagabreytinga til að verja heimilin í þessu efnahagsástandi, jafna áhættu milli lánveitenda og lántakenda og veð takmarkist við þá eign sem sett er að veði.
  • Almennra leiðréttinga á íbúðalánum heimilanna, bæði í íslenskri og erlendri mynt. Bent er á að lenging lána leysir ekki vandann heldur frestar honum og lengir því aðeins í hengingarólinni.
  • Skilyrðislausrar stöðvunar fjárnáma og uppboða á íbúðarhúsnæði einstaklinga þar til ofangreindar kröfur hafa verið uppfylltar.


Samtökin óska  eftir samstarfi við  stjórnvöld til að leysa þessi stóru hagsmunamál heimilanna. Meginmarkmið slíks samstarfs er að koma í veg fyrir  samfélagslegt hrun og byggja upp nýtt réttlátt og sanngjarnt Ísland þar sem allir sitja við sama borð og tekið er tillit hagsmuna heimilanna sem grunnstoðar samfélagsins.

Við skorum á fólkið í landinu að fylkja sér um samtökin og gera þau að öflugu verkfæri breytinga fyrir hagsmunum heimilanna og taka þátt í mótun og uppbyggingu nýs Íslands.

Hagsmunasamtök heimilanna.
www.heimilin.is

Last modified onThursday, 28 February 2013 22:03
back to top

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna