Menu
RSS

Fólk á að krefjast endurútreiknings án tafar og krefjast dráttarvaxta Featured

„Það sem menn eiga að gera núna er að senda kröfubréf og krefjast endurútreiknings eftir atvikum án tafar“ segir Björn Þorri Viktorsson hrl. um nýgenginn dóm Hæstaréttar um ólögmæti þess að breyta vaxtakjörum lánasamninga á grundvelli hinna svokölluðu Árna Páls laga nr. 151 frá 2010. „Fólk getur samið þetta bréf sjálft, það þarf ekki lögfræðinga í allt, þetta eru engin geimvísindi. Stóra málið er bara að tiltaka lánasamningana sem fólk er þá að skrifa út af, en það verður auðvitað að liggja fyrir að þetta séu raunverulega ólögmæt lán. Þá á fólk auðvitað að krefjast rétts endurreikings í samræmi við dóm Hæstaréttar í máli 464/2012 frá 18. október síðastliðnum“ segir Björn Þorri. Hann bætir við að þetta sé nauðsynlegt til þess að menn geti átt dráttarvaxtakröfu vegna innistæðna sem hafa skapast vegna ólögmætra gengistryggðra lána og ólögmætra endurreikninga.

Dómurinn staðfestir vanhæfni stjórnvalda

„Þessi dómur Hæstaréttar frá 18. október staðfestir fyrst og fremst vanhæfni íslenskra stjórnvalda“ segir Björn Þorri íhugull. „Við skulum halda því til haga að það féllu tveir dómar 16. júní 2010, þar sem gengistrygging krónulána var dæmd ólögmæt. Úr þessu varð mikið fár og margir fóru á taugum, bæði bankamenn og pólitíkusar sem því miður sem hafa verið gríðarlega mikið á sveif með bankakerfinu í þessum málum og úrlausn þeirra. Dómarnir leiddu til þess að um tveimur vikum síðar sendu Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið (FME) út leiðbeinandi tilmæli um að það ætti að endurreikna þessi lán afturvirkt á vöxtum Seðlabanka Íslands. Þau tilmæli voru algjörlega galin og á skjön við grundvallarlög landsins. Ég sendi þessum stofnunum bréf þar sem ég óskaði með formlegum hætti eftir rökstuðningi fyrir þessari ákvörðun. Í stuttu máli þá var þeirri fyrirspurn aldrei svarað“ segir Björn.

Ótækt prófmál

Hann nefnir sem dæmi um hvernig málin hafa verið rekin og nefnir dóm Hæstaréttar frá 16. september 2010 í því sambandi. „Þá var búið til mál. Lýsing bjó til mál sem átti að vera ákveðið prófmál um meðferð vaxta af samningum af þessu tagi. Vandinn við það mál var var hins vegar sá að málið var raunverulega útbúið í þeim tilgangi að fá þessa niðurstöðu, þ.e. niðurstöðu sem staðfesti þessi tilmæli Seðlabankans og FME. Þannig að málið gat auðvitað aldrei verið neitt prófmál eins haldið var fram og Alþingi var með því máli hreint út sagt blekkt. Alþingi Íslendinga var blekkt með því að þarna væri komin hin eina sanna og rétta niðurstaða. Í framhaldinu voru sett þessi lög nr 151/2010 sem kennd eru við Árna Pál Árnason sem Hæstiréttur hefur nú í þrí- eða fjórgang dæmt að séu andstæð stjórnarskrá og það verði ekki með slíkri almennri lagasetningu hróflað við því sem er liðið, greitt og kvittað hefur verið fyrir“. Hann segir þessa lagasetningu hafa verið óeðlilega. „Þessi lagasetning var algjört frumhlaup af hálfu Alþingis“ segir Björn og bætir við „Árna Páls lögin voru ólögmæt. Þau fóru gegn grundvallarlögunum, þau fóru gegn stjórnarskrárbundnu ákvæði um vernd eignaréttarins. Lög sem fara gegn grundvallarlögunum, hafa í raun ekkert gildi, eftir þeim verður ekki farið. Það er hins vegar afar neyðarlegt fyrir löggjafarsamkomuna að þar séu menn að setja lög sem fara gegn grundvallarlögunum, fái síðan á sig dóm frá æðsta dómstól þjóðarinnar, Hæstarétti. Og við því virðast bara ekki vera nein viðurlög. Menn berja þetta bara af sér eins og hvert annað flugnabit“. Björn vill þó ekki halda því fram að allt í þeim lögum hafi verið slæmt. „Lögin leystu ýmsan vanda eins og hvernig skyldi haga því ef bifreiðir höfðu skipt um eignarhald og þausamræmdu meðferð á endurútreikningi allra erlendra gengistryggðra lána, hvort sem þau höfðu verið dæmd ólögleg eða ekki. En grundvallarefni laganna stenst ekki og stóðst ekki og það er ekki eins og Alþingi hafi ekki verið varað við þessu. Ég bendi á gríðarlega vandaða umsögn starfsmanns umboðsmanns skuldara sem benti á þetta auk fjölda sérfræðinga sem kallaðir voru fyrir Efnahags- og viðskiptanefnd og vöruðu við þessu. En illu heilli var ekki á þá hlustað.“

Fjármálafyrirtækin hafa greiða aðkomu að stjórnvöldum
Björn Þorri segir að þessi lagasetning hafi verið sett í mikilli og náinni samvinnu við fjármálafyrirtækin. „Fjármálafyrirtækin og fulltrúar þeirra eiga enn mjög greiða aðkomu að stjórnvöldum og það er ákveðið vandamál. Ekki bara á Íslandi heldur víðar og það er mjög merkilegt og í raun vert að velta því fyrir sér hverjir voru þungavigtarráðgjafar við samningu Árna Páls laganna. Það voru m.a. háttsettir menn innan hinna föllnu banka þó ég vilji ekki nefna nein nöfn í því sambandi nú.“

Fjármálafyrirtækin hafa eyðilagt dómsmál til að fá ekki fram niðurstöðu

„Fjármálafyrirtækin hafa tafið allt þetta leiðréttingarferli. Þau hafa í nokkur skipti eyðilagt slík mál, komið í veg fyrir dómsniðurstöðu að því er virðist í þeim tilgangi, að geta haldið áfram á þessari braut að miða lánasöfn sín við ólögmætan endurútreikning. En síðan féll dómur núna í máli 464/2012 18. október sl. og hann er gríðarlega skýr og greinargóður um það með hvaða hætti á að reikna, hvernig Hæstiréttur staðfestir það að bæði sé um fullnaðarkvittun vegna innborgana höfuðstóls og innborgana vegna vaxta. Hvort tveggja séu fullnaðarkvittanir og við þeim verði ekki hróflað.“ Hann nefnir að áður hafi Hæstiréttur, 15. febrúar sl., kveðið uppúr með það að afturvirkur vaxtareikningur af þessu tagi væri ólögmætur. Í því hafi bankar og fjármálakerfið og því miður stjórnkerfið dansað með enn eina ferðina og talað um um að það þurfi að reka hér einhver 11 prófmál til að leysa úr einhverjum meintum óvissuþáttum. „ Umboðsmaður skuldara talar um lausnir fyrir áramót. En staðan er einfaldlega sú, mér best vitandi, að aðeins 2 af þessum 11 málum hafa verið þingfest og hin á undirbúningsstigi og það er því alveg fráleitt að ætla það að niðurstaða úr öllum þessum 11 málum verði tilbúin um áramót“ segir Björn um leið og hann leggur áherslu á að þegar sé komin skýr niðurstaða með þessum dómi: Kvittanir vegna greiðslu af lánum verða ekki endurreiknaðar með afturvirkum hætti, hvorki með almennum lögum né stjórnvaldsaðgerðum „enda væri með slíku verið að setja öll önnur viðskipti í algjört uppnám“ bætir hann við.

Fjármálafyrirtækin gerðu ekki ráð fyrir að gengislánin gætu verið ólögmæt

En afhverju var ekki hægt að fá þessa niðurstöðu sem fékkst nú í gegnum dómana sem féllu 16. júní 2010? En í öðru þeirra varst þú lögmaður skuldara sem vann sitt mál og fékk lán sitt dæmt ólöglegt gengistryggt lán.
„Þar var vígstaðan sú að þetta voru innheimtumál, þar sem skuldarar tóku til varna, helst á þeim grundvelli að þetta væru ólögleg gengistryggð lán og í málinu sem ég var með krafðist lántakandinn einfaldlega sýknu á grundvelli 13. og 14. greinar vaxtalaga. Í þeim málum gerðu hvorki SP-fjármögnun né Lýsing ráð fyrir því að til þess gæti komið að lánin gætu verið ólögleg gengisbundin lán heldur kröfðust bara fullnaðargreiðslu kröfunnar og lögðu því ekki á borð neina kröfu um hvernig skyldi endurreikna ef lánið yrði dæmt ólöglegt. Dómstólar dæma nefnilega bara í þeim álitaefnum sem fyrir þá er lagt og fara ekkert út fyrir það“.

Greinileg hugsun stjórnvalda að almenningur ætti að taka á sig hrunið

En má þá í ljósi þessa alls þessa brölts segja að það hafi verið meðvituð ákvörðun stjórnvalda frá fyrstu stundu að láta almenning taka á sig hrunið og endurreisn fjármálafyrirtækjana, jafnvel þó með með ólögmætum hætti væri?
„Já, já það liggur fyrir. Það sem blasir við eftir á, er sú staðreynd að með allri þessari baráttu um gengistryggðu lánin var rekinn hleinn í þá áætlun stjórnvalda að allir ættu að borga eins mikið og þeir mögulega gætu. Það var hin upphaflega áætlun. Það átti enginn að fá leiðréttingu eða eftirgjöf skulda nema að hann gæti sýnt fram á það að hann í fyrsta lagi ætti ekki eignir til að standa undir skuldum og í öðru lagi gæti ekki greitt. Því þó þú ættir ekki neitt en gætir greitt, þá skyldir þú greiða. Það er svona að meginstefnu til grundvallartónninn í þeim skuldaúrræðum sem hafa verið í boði. En síðan vinnst þessi barátta með gengistryggðu lánin og allt í einu hefur fjöldinn allur af fyrirtækjum og einstakingum endurheimt sinn efnahagslega grundvöll. Þ.e.a.s. þeir hafa fengið leiðréttingar á ólögmætum gengistryggðum lánum, létt af sér greiðslubyrði, létt af sér skuldabyrði sem þeir hefðu aldrei átt minnsta möguleika á að losna undan með þessum almennu úrræðum stjórnvalda og bankakerfisins. Aldrei! Þessi barátta hefur því verið barátta fyrir réttlæti og um leið stór efnahagsleg aðgerð, kannski sú stærsta í þágu almennings og fyrirtækja frá Hruni. “

Hefði verið hægt að leysa þessi mál miklu fyrr

„Það sorglega í þessu er að bankakerfið hefur með stuðningi ríkisvaldsinsvaldið því að þetta ferli hefur tekið lengri tíma en þurft hefði. Bankakerfið hefur í raun búið til meintan ágreining og ríkisvaldið hefur algjörlega dansað með þessum fyrirtækjum. Við skulum átta okkur á því að framkvæmdavaldið hefur ekkert gert til að reka á eftir bönkunum til að hefja endurútreikning heldur þvert á móti. Þannig hefur Samkeppniseftirlit Páls Gunnars Pálssonar veitt bönkunum sérstaka heimild til að hafa samráð um það að fara ekki að dómi Hæstaréttar frá 15. febrúar sl. þar sem afturvirkur vaxtareikningur var dæmur ólöglegur. Þetta er algjörlega fáheyrt að þetta geti gerst í vestrænu lýðræðissamfélagi þó þessari heimild hafi fylgt tiltekin skilyrði sem menn hafa svo einnig, á síðari stigum, talið að ekki hafi verið uppfyllt“.

Fólk á að bindast samtökum og krefjast endurreiknings og dráttarvaxta

„Hins vegar, góðu heilli, sýnist mér langlundargeð formanns Efnahags og viðskiptanefndar Alþingis, vera á þrotum, að vonum. Hann hefur sagt að bönkunum sé ekkert að vanbúnaði að hefja þegar endurútreikning og því er ég algjörlega sammála. Ég held að fólk ætti nú að bindast samtökum um það að senda kröfubréf á sína lánveitendur þar sem lánasamningar hafa verið dæmdir ólögmætir, það er afar mikilvægt. Það er auðvitað lykilatriði að lánasamningurinn hafi verið dæmdur ólögmætur, því það eru aðeins þeir sem eru með slíka samninga sem eiga rétt á endurútreikningi. Það er nefnilega svo að Árna Páls lögin náðu til allra húsnæðis- og bílalána þar sem umbreyting úr erlendri mynt átti sér stað, hvort sem þau hefðu verið dæmd ólögleg eða ekki. Að því leyti voru lög Árna Páls góð vegna þess að þar voru gerðar sjálfsagðar og eðlilegar leiðréttingar. Líka fyrir bankana sem voru ella með handónýta lánasamninga. Því þeir hefðu að óbreyttu þurft að leysa til sín yfirveðsettar eignir í stórum stíl sem hefði valdið umtalsverðu verðfalli á fasteignamarkaði. Og þetta varð til þess að fólk sá aftur til sólar og gat farið að greiða af sínum lánum aftur og komi þeim í skil. “

Náðu ekki til fyrirtækja

„Hins vegar er rétt að benda á að Árna Páls lögin náðu ekki til fyrirtækja, sem aftur hefur mjög óeðlileg áhrif á samkeppni á markaði nú. Því fyrirtæki sem tóku erlend lán hjá t.a.m. Íslandsbanka hafa enga eða minni leiðréttingu fengið og er gert að borga sín lán að fullu, þrátt fyrir hrun krónunnar o.s.frv. Þau fyrirtæki sitja engan vegin við sama borð því þau fyrirtæki sem tóku gengistryggð lán annars staðar þar sem þau voru ólögleg, þau fá leiðréttingu núna.“

Ekki ástæða til að fara á taugum

Það hefur verið nefnt að dómurinn eigi fyrst og fremst við þar sem ekki hafi orðið greiðslufall?
„Þarna vil ég biðja fólk um að fara ekki á taugum útaf því. Það er nefnilega svo að þeir sem tóku ólögleg gengistryggð lán á t.a.m. árunum 2004-2006 þeir fengu í mörgum tilvikum mjög lélegan endurútreikning. Svo lélegan að í sumum tilfellum hækkaði hinn ólögmæti höfuðstóll, enda fóru vextir Seðlabankans á þeim tíma í um eða yfir 20%. Greiðslufall, frysting eða hvað það nú allt heitir sem verður síðar t.d. eftir mitt ár 2009 skiptir ekki öllu máli, því þá eru vextir Seðlabankans orðnir eðlilegri, 10% eða jafnvel lægri. Þannig að þar munar tiltölulega litlu á vöxtum Seðlabankans og síðan erlendu vöxtunum. Þannig að þar erum við e.t.v. ekki að tala um svo stórar fjárhæðir. Þetta geta hins vegar verið umtalsverðar fjárhæðir hjá fólki sem eru með eldri lánin. Þannig að greiðslufall um og eftir hrun skiptir kannski ekki svo miklu hvað varðar endurútreikning. Það er tíminn þar á undan sem skiptir máli, þar liggja hagsmunirnir. “

Alþingi blekkt

„Við þurfum að halda því hér til haga að Alþingi var blekkt í aðdraganda lagasetningar laga 151/2010, þ.e. Árna Páls laganna. Alþingismenn kröfðust þess að fá að sjá hvernig þessi endurútreikningur, þessi ólöglegi endurútreikningur myndi virka. Þá fengu þeir dæmi um lán sem tekið var, að mig minnir í mars 2008. Eftirá að hyggja voru það hreinar blekkingar gagnvart Alþingi að sýna ekki alþingismönnun hvernig þessi afturvirki útreikningur kæmi út gagnvart eldri lánum. Það fengu alþingismenn einfaldlega aldrei að sjá“ segir Björn Þorri.

Lýsing svíkur viðskiptavini sína

Nú hefur Lýsing sagt að þeir þurfi ekkert að endurreikna sína samninga. Á hvaða forsendum er það?
„Ja ég hef einfaldlega ekki hugmyndaflug um hvað þeir ætla að bera fyrir sig í því efni, en Lýsing er það fyrirtæki sem sennilega hefur gengið hvað harðast fram gegn sínum viðskiptavinum. Þeir unnu til að mynda mál í Hæstarétti þar sem þeir fengu fjármögnunarleigusamninga sína dæmda löglega. Það er mjög merkilegt að fylgjast
með fyrirsvarsmönnum Lýsingar slá úr og í við sína viðskiptamenn varðandi hvort lántakendur geti eignast tækin að leigutíma loknum eins og alltaf hefur verið praktíserað frá upphafi, alltaf, og á þeirri forsendu hafa menn gert þessa samninga. Nú slá þeir úr og í og eru að ganga frá þessum lokagreiðslum með einhverju öðru orðalagi. Og það liggur nú fyrir að Lýsing hefur svikið viðskiptavini sína algerlega jafnvel þá sem hafa gert fjármögnunarleigusamninga við þá árum saman. Þetta hefur verið þannig að menn hafa gert fjármögnunarleigusamninga og greitt lokagjald í lok leigutíma og í kjölfarið hefur eignarrétturinn verið færður yfir á leigutaka. Þannig hefur þetta tíðkast árum saman. Nú eru þeir farnir að bera fyrir sig orðalag í samningum um að það það sé ekki sérstaklega kveðið á um afhendingu tækja í samningum og því eigi viðskiptamenn þeirra engan rétt til yfirfærslu eignaréttar. Þannig er nú þeirra framkoma gagnvart viðskiptavinum sínum. Ég er mjög undrandi á því hvernig þeir eða fyrirsvarsmenn þess fyrirtækis hugsa framtíðina. Ég þekki ekki marga sem myndu fara þarna inn í dag og taka ný lán.“

Fólk getur átt bótarétt

Björn bendir á að nú taki við tími þar sem greiða þarf úr flækjum sem fjármálastofnanir hafa komið sér í með ólöglegum aðfarargerðum sínum. „Nú liggur fyrir að fjöldinn allur af fólki hefur misst fyrirtækin sín, þau hafa verið gerð gjaldþrota og fólk hefur misst eignir, þurft að sæta vörslusviptingum og alls kyns fullnustugerðum á grundvelli ólögmætra samninga. Nú vakna auðvitað spurningar um bótarétt þessa fólks og ég held að það sé mikið verk framundan í því að fá fram leiðréttingu á réttarstöðu þessa fólks og reyna að aðstoða það við að ná aftur vopnum sínum. Margt af þessu fólki hefur farið gríðarlega illa út úr þessu, ekki bara fjárhagslega heldur líka andlega, þetta er mikið sorgarferli sem fólk er búið að vera að fara í gegnum á liðnum árum út af þessu og nú liggur fyrir að grundvöllur aðfarar bankana var ólögmætur, í mörgum tilvikum bæði fyrir og eftir gengislánadóma og endurútreikning. Nú er kannski fyrst að skapast endanlegur grundvöllur undir þessi mál og þau eru fjölmörg sem að augljóslega munu koma til úrlausnar vegna þess að nú geta menn einfaldlega sagt: Lánasamningarnir voru ólögmætir, krafan var ólögvarin.“

Alþingi ætti nú að halda sig á hliðarlínunni

„Mín skoðun er sú að ég held að Alþingi ætti nú úr því sem komið er að standa sem mest á hliðarlínunni. Það hefur ekki að öllu leyti tekist vel til hjá Alþingi að stökkva inn í þennan hring og reyna að fara að miðla málum en þó vil ég halda því til haga að ýmis atriði í Árna Páls lögunum voru klárlega jákvæð og til bóta. Ennfremur ég á nú frekar von á því í þessum tilvikum þar sem menn hafa orðið fyrir ólögmætum aðfaragerðum vegna þessara lána, að þá séu tilvikin svo mörg og svo ólík að það sé erfitt að ætla að fara að setja einhverra almenna reglu í lögum. Ég held að því miður sé vígstaðan sú að menn þurfa að sækja rétt sinn í hverju tilviki og þá jafnvel gegn ríkisvaldinu ef það hefur komið að málum á óeðlilegan hátt. “ segir Björn Þorri að lokum.

Hverjir eiga von á endurreikningi?

„Það munu ekki allir fá endurútreikning. Fyrir það fyrsta þarf gengistryggði lánasamningurinn að hafa verið dæmdur ólögmætur. Þannig er það víðast en til að mynda lánsamningar Íslandsbanka í erlendri mynt hafa verið dæmdir lögmætir og þar fá menn engan frekari endurútreikning umfram þann sem lög Árna Páls tryggðu.
Nú hefur Hæstiréttur skorið úr um það að lán í erlendri mynt er að meginstefnu til löglegt ef höfuðstóll lánsins er gefinn upp í þeirri erlendu mynt sem lánið er tekið í. Ef þess er ekki getið, aðeins tekið fram hlutfall milli hinna erlendu mynta en höfuðstóls ekki getið í erlendri mynt þá telst lánið að meginstefnu ólöglegt gengistryggt lán og það eru þau lán sem við erum að tala um og það eru þau lán sem nú þarf að endurreikna að nýju. Þetta er svolítið skrýtin staða, því í raun var hjá öllum þessum lánastofnunum verið að gera sama hlutinn. Lána íslenska peninga á kjörum tengdum við erlenda mynt. Ímyndum okkur að þú hafir verið að kaupa mjólk sem reynist súr. Ef þú varst svo óheppinn að kaupa hana hjá Íslandsbanka – þá getur þú ekki skilað henni, en ef þú keyptir hana annars staðar, þá færðu nýja. “

 

 

 

 

 

 

 

 

Last modified onThursday, 01 December 2016 11:02
back to top

Alþingi

Gagnlegar upplýsingar

Leiðbeiningar í lánamálum heimilanna